23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Að gefnu tilefni frá hv. fjhn. vil ég segja nokkur orð. — Eins og kunnugt er, hafa þau héruð, sem að þessum virkjunum standa, sem hér um ræðir, undirbúið þau mál heima hjá sér um alllangt skeið, og upphaflega var hugmyndin sú, að þau reistu mannvirkin sjálf og rækju. Nú er það komið á daginn, að ekki er fjárhagsleg geta til þess þar heima fyrir, og úrræðið varð það að snúa sér til raforkumálastjóra og æskja þess, að þessar veitur verði reistar á vegum ríkisins. Fulltrúar frá Austur-Húnavatnssýslu og Strandasýslu komu á minn fund snemma á þessu þingi og óskuðu þess eindregið, að frv. þetta næði fram að ganga á yfirstandandi þingi og raforkumálanefnd tæki svo að sér málið. Ég sendi svo þetta mál eða þessa umsóknarbeiðni til raforkumálaskrifstofunnar og óskaði eftir umsögn þeirra, og eins og fram kemur í bréfi raforkumálastjóra, telur hann, að enn verði að fara fram frekari rannsóknir, áður en hægt er að hefja framkvæmdir. Ég óskaði mjög eindregið eftir því, að raforkumálastjóri eða raforkumálaskrifstofan treysti sér til að útbúa frv. um þetta mál, svo að hægt væri að leggja það fram á þessu þingi, því að mér er það ljóst, og það er vitað, að hér er um mikla þörf að ræða á báðum þessum stöðum og mikill áhugi er ríkjandi þar fyrir því að hefja framkvæmdir sem fyrst. Hins vegar verð ég að segja það, að hvorki ég né nokkur annar ráðh. treystir sér til að fara aðrar leiðir í þessum efnum en þær, sem raforkumálastjóri eða sérfræðingar telja, að fara beri. Sama er að segja, þegar n. leggur til, að frv. sé samþ. Þá er ekki hægt að komast hjá því að taka álit hennar til greina. Með tilliti til þess, sem raforkumálastjóri sagði um, að nauðsynlegt væri að gera nokkrar rannsóknir, áður en hafizt væri handa um framkvæmdir, þá lít ég svo á, að ef þetta frv. verður samþ., verði miklu meiri skylda til þess að hraða sem mest öllum undirbúningi og rannsóknum, sem enn eru eftir og nauðsynlegar þykja, þegar lög eru komin um þetta, og getum við þá fyrr vitað fótum okkar forráð í þessu máli. Við vitum, að það er allfyrirferðarmikið verk að afla fjár til þess að koma fyrirtækinu áfram, en það eru miklu meiri líkur til þess, að allur undirbúningur að því verki gæti hafizt fyrr, ef Alþ. hefur samþ. þetta sem lög. Þess vegna er það ávinningur, bæði fyrir málið sjálft og fyrir aðila, að fá lög um virkjunina, því að þá fyrst er fengin vissa um, að hægt sé að hraða bæði teknískum og fjárhagslegum undirbúningi, en af því veitir ekki. Hins vegar vil ég endurtaka það, að hvorki ég né nokkur annar raforkumálaráðh. mun treysta sér til þess að ráðast í fyrirtæki þvert ofan í till. raforkumálastjóra og sérfræðinga raforkumálaskrifstofunnar, og þar sem álit n. er þvert á móti, geri ég ráð fyrir, að fullt tillit yrði tekið til þess af hvaða ráðherra sem er. Jafnframt vil ég lýsa því yfir, að ef þetta frv. verður að l., mun ég gera allt til þess að hraða öllum undirbúningi, til þess að hægt sé að leysa málið hér.