02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Frsm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Dal. (ÞÞ), að ég sé sérstaklega með þetta mál. Því miður hef ég ekki komið því á framfæri hér við Alþ. Það er n., sem mun hafa komið hér í vetur til fundar við hæstv. ríkisstj., bæði úr Húnavatnssýslu og Strandasýslu, og þá bæði til samtals við ríkisstj. og þá flokka, sem að henni standa, og hlutaðeigandi ráðh., hæstv. atvmrh., hefur síðan fengið þetta mál flutt í Nd. Hitt er annað mál, að þetta mál allt er mjög vel undirbúið, og þekki ég það að minnsta kosti að því er snertir virkjun Þiðriksvallavatns, því að það hefur á tveimur eða þremur þingum verið notað sem aðalröksemdin gegn hitavirkjun um allt land. Eins og þm. muna, hefur það í Nd. verið notað sem rök fyrir því, að víða væru svo hagkvæm virkjunarskilyrði, að það væri frágangssök að láta sér til hugar koma virkjun við hina löngu línu, þar sem þarna væri til virkjun, sem væri hentugri, en flestir eða allir aðrir virkjunarmöguleikar. Það eru þarna til ýmsar leiðir til virkjunar, eins og tekið er fram í álitsgerð þeirra sérfræðinga, sem um þetta hafa fjallað, og hefur það verið rannsakað þrisvar eða fjórum sinnum. Fallhæð er t.d. hægt að fá um 70–80 metra. Svipuðu máli er að gegna um virkjun við Svínavatn. Það er hagstæð og aðkallandi virkjun.

Það kemur fram hjá rafmagnseftirliti ríkisins, að ekki komi til mála að framkvæma þessar virkjanir fyrr, en búið sé að tryggja nægilegt lánsfé til þeirra, og sýnir sá fyrirvari í lok grg., að ekki sé talið ósennilegt, að á því kunni að verða einhver dráttur. En ég tel þó með þessu hilla undir einhverjar vonir um að koma þessu máli áleiðis. Um virkjun á þessum tveimur stöðum er það að segja, að ef Skagaströnd á að verða það athafnapláss, sem gert er ráð fyrir, verður vitanlega ekki hjá því komizt að framkvæma þarna virkjun. Og um Hólmavík er það að segja, að hún er nú orðin með mestu framleiðslustöðum á landinu. Þörfin á þessari virkjun er því mjög brýn fyrir framleiðslumöguleika þessara staða, sem þjóðinni er nauðsynlegast af öllu að styrkja. Ef framleiðsluaðstaðan verður ekki svipuð á þessum stöðum, þar sem verið er að auka framleiðsluna, þar sem menn hafa rafmagn án þess að þurfa að framleiða það með dieselmótor, verður ekki lengur sá vöxtur í framleiðslunni á þessum stöðum, sem nú er. Það er því ekkert efamál, að þarna er hagkvæmt að virkja og þarna er nauðsynlegt að fá virkjun. Hitt er svo annað mál, hvort peninga verði hægt að fá til þessarar virkjunar. En hér er ekki farið fram á annað, en að heimild verði veitt til að vinna þetta verk, þegar peningar eru fyrir hendi og aðrir möguleikar til staðar. Og ég fyrir mitt leyti er ekki í vafa um, að þegar svo stendur á, að fjármagn er fyrir hendi til þess að framkvæma þetta, er verið að gera framkvæmdir á stöðum, þar sem fjárhagslega er óheppilegt að gera þessar framkvæmdir.

Ég skal svo ekki láta fleiri orð falla um þetta að sinni, nema tilefni gefist til. En varðandi brtt. hv. þm. Dal. (ÞÞ) vil ég segja það, að mér finnst hún ekki eiga erindi hingað og gæti e.t.v. stefnt málinu í hættu. Hygg ég, að þetta muni ekki vera hugsað sem fleygur, en er hræddur um, að það mundi verka þannig. Ég ætla, að þeir Húnvetningar og Hólmvíkingar, sem hafa undirbúið málið hjá stj. og stjórnarflokkunum, hafi gert sér vonir um, að þetta næði afgreiðslu á þessu þingi, og yrðu það þeim því nokkur vonbrigði, ef þessu máli yrði stefnt í tvísýnu.