06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

100. mál, jeppabifreiðar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Við verðum fyrst að gera okkur ljóst, hvað við er átt með „til landbúnaðarþarfa“. Við höfum ekki nefnt flutninga, heldur aðeins til landbúnaðarþarfa. Farmal og dráttarvélar eru ekki bílar. Bílar til landbúnaðarþarfa eru með útbúnaði til að draga landbúnaðarvélar á eftir sér eða við hliðina og eru sumar vélar útbúnar til að festast aftan í jeppa. Landrovers er byggður til að draga vélar, svo sem sláttuvélar, rakstrarvélar, snúningsvélar o.s.frv. Aðrir bílar eru aftur til flutninga og ferðalaga, og ef menn hugsa sér að taka venjulega bíla og plægja með þeim, þá verður fyrst að setja sérstakan útbúnað á þá og svo spólar bíllinn, því að hann er ekki ætlaður til slíks. Við þekkjum enn aðeins tvær tegundir bíla, sem ætlaðir eru til landbúnaðarþarfa, — hvort þeir verða fleiri, vitum við ekki, — þ.e. jeppar og Landrovers. Aðra bíla verður að útbúa sérstaklega. Landbn. gekkst svo inn á að láta þessa n. úthluta bílunum, 4/5 til landbúnaðarþarfa og 1/5 til annars og var ekki hægt að gera annað. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði verður að úthluta 41 jeppa til manna þeirra, sem greitt höfðu nýbyggingarráði hluta andvirðisins fyrir árslok 1947. Þar af 21 til bænda og 19 til annarra, ef þeir gangast undir að selja þá ekki á svörtum markaði. Af þessum 19, sem ekki eru bændur, eru 16 hér í Rvík, og ef þeir gangast undir að selja ekki á svörtum markaði, fá þeir úthlutað af þessum 20%, sem ekki fara til landbúnaðarþarfa. Ég veit, að hv. þm. hefðu verið gramir, ef þeir hefðu fengið leyfi fyrir innflutningi jeppabifreiða og greitt hluta andvirðisins 1947, en hefðu ekkert fengið enn þá, og er slíkt ekkert annað, en falsað leyfi. Þeir bílar, sem ætlaðir eru til landbúnaðarþarfa, eru sérstaklega útbúnir til þess, og fram að þessu höfum við aðeins þekkt tvær tegundir, jeppa og Landrovers. Og hafi hv. þm. Barð. þetta í huga, getur hann skilið, að brtt. n. er byggð á því, að n. fái alla slíka bíla, er inn eru fluttir, til ráðstöfunar, en láti 20% til annarra en bænda, en úthluti hinum samkv. 6. gr.

Ég skal sem dæmi um það, hvernig á því stóð, að við hættum við að hafa það sem höfuðástæðu við úthlutun, að hlutaðeigandi ætti erfitt með flutning að og til bús síns, að þá er komið inn á flutningana, en svo er annað, að til eru jarðir, sem hafa brúk fyrir jeppa, þó að spurning sé, hvort þær hafi brúk fyrir flutninga. Ég þekki t.d. jörð, sem hefur víðlent fjalllendi, 40 km á hvern veg, og síðan jeppi kom þangað, er allt smalað á honum. Áður þurfti 4 menn í 10 daga, en nú er miklu skemur verið að smala, svo að sú jörð hafði mikla þörf fyrir jeppa. Þær jarðir, sem hafa vegi alveg við túngarðinn, geta haft miklu meiri þörf fyrir bíl en hinar, þar sem löng leið er að fara á þjóðveg. Það veit ég, að hv. þm. Barð. sér.

Mér er það ekkert áhugamál, hvernig n. er skipuð, þar sem hún er svo bundin af 6. gr., en það svið þrengist nokkuð, þegar athugað er, hve margir eiga að fá bíla samkv. bráðabirgðaákvæðinu, þ.e. 21 bóndi og 19 aðrir, sem ekki eru prestar, yfirsetukonur né læknar, og er þá komið langt upp í töluna, a.m.k. ef bílarnir eru enskir. Ég get ekki fallizt á það með hv. þm. Barð., að þessi úthlutunaraðferð sé til hins verra. Ég skal benda á það, að þegar Pétur Ottesen, Steingrímur Steinþórsson og Bjarni Ásgeirsson úthlutuðu jeppum Búnaðarfélagsins, kostaði það ekkert, en nú má ætlast til, að nokkur kostnaður verði af bréfaskriftum til þeirra, sem úthlutað verður.

Ég vona nú, að hv. þm. Barð. skilji, hvað við eigum við með „bílar til landbúnaðarþarfa“ og sjái, að við erum ekki að seilast til úthlutunar á öllum flutningabílum, eins og hann lét skina í gegn.