06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Af því að ég er einn af nm., sem flytja þetta mál, vil ég taka fram örfá atriði viðvíkjandi málinu.

N. flytur frv., eða a.m.k. geri ég það sem nm. vegna þeirrar venju, sem skapazt hefur, að neita ríkisstj. ekki um að flytja frv., hvað sem líður skoðun nm. á frv.

Um þetta frv. er það að segja, að fært hefur verið fram af hæstv. fjmrh., að þetta fé eigi að nota til brúa- og vegagerða. En það vita allir í þessari hv. d., að þetta er í raun og veru þannig, að það er verið að afla ríkissjóði tekna almennt vegna þess skorts á fé, sem þar er fyrir hendi sökum þess almenna ástands, sem er í landinu, og þeirrar fjármálastefnu, sem nú ríkir. Það er meira fyrirsláttur, að þetta fé eigi að fara til brúa og vega, því að það framdag hefur hingað til verið greitt af öðrum tekjum ríkissjóðs að verulegu leyti, og þess vegna er þessi uppsetning í grg. ekkert annað, en til þess að láta líta svo út, að þetta fé eigi að fara til þessara mannvirkja og framkvæmda. En þetta út af fyrir sig skiptir ekki svo miklu máli nema að því leyti, að blærinn á frv. með uppsetningu þess í grg. er að nokkru leyti annar en tilgangur frv. er í raun og veru. Það mundi engum koma til hugar að afla tekna á þennan hátt, ef það væri ekki vegna hreinna fjárhagsvandræða ríkissjóðs, og það hefði verið gert áður að afla ríkissjóði á þennan hátt tekna til vega- og brúargerða, ef það hefði þótt fært. Vandkvæðin á þessu hafa þótt svo mikil, að um þessa leið var talað þegar í haust, en hefur ekki þótt fært nema vegna sárustu fjárhagsvandræða ríkissjóðs. Þetta er það rétta í málinu.

Það er rétt, að ríkissjóður þarf tekjur, og einhvern veginn þarf með þessari fjármálastefnu að afla þessara peninga. Það er sagt, að benzín sé selt hærra verði erlendis en hér tíðkast og því ekki eðlilegt, að við getum haldið því verði, sem við höfum, miðað við þær álögur, sem eru hér að öðru leyti. Þetta er rétt, og það eru nokkur rök, en eins og gengur og gerist, bíla þau á ýmsa lund, fyrst og fremst vegna þess, að hér á landi eru bifreiðarnar járnbrautir fólksins, þær eru þau almennu flutningatæki fyrir þungavöru. Í annan stað vitum við, að járnbrautirnar eru þau farartæki, sem mest eru notuð erlendis af almenningi. Bifreiðarnar eru þar aftur á móti notaðar meira af þeim, sem meiri hafa efnin, og þar af leiðandi er þetta ekki hliðstætt nema að nokkru leyti.

Það er líka svo, að þessi skattur, sem hér er lagður á, er að sumu leyti alveg eðlilegur lúxusskattur og réttlátur lúxusskattur að því er snertir sumar tegundir bifreiða, en að öðru leyti er hann mjög varhugaverður skattur, og að þriðja leyti er skatturinn einhver sá allra ósanngjarnasti skattur, sem hægt er að leggja á landsmenn. Það er vegna þess, að það er sanngjarnt að leggja skatt á bifreiðar, sem notaðar eru meira og minna í óþarfa, svo sem einkabifreiðar eru vissulega að verulegu leyti. Það er hins vegar óneitanlega nokkuð varhugavert, þar sem kemur til þeirra bifreiða, sem almenningur notar. Þar er þetta skattur á landslýðinn, sem leiðir af sér hækkun farmgjalda, og þess vegna hefur hann í för með sér þá skrúfu, sem verið hefur einkenni á fjármálum okkar seinustu árin, því að hér er lagður skattur á til að lækka dýrtíðina. Þessi skattur verður síðan til að hækka vöruverð og þar með dýrtíðina, og það verður til þess, að næsta ár verður að leggja á nýja skatta til að mæta þeirri hækkun. En skatturinn er mjög ranglátur að því, er snertir allar heyvinnuvélar bænda. Þær eru nú undantekningarlítið reknar með benzíni. Þessi skattur leggst því þungt á framleiðslu þeirra. Það er hliðstætt því, ef skattlögð væri hráolía, sem aflvélar báta eru reknar með og sjávarútvegurinn hefur við sinn atvinnurekstur. Það er enn fremur vitað mál, að þessi skattur leggst verulega þungt á alla flutninga til bænda og frá, sérstaklega á flutningana frá þeim. Það er ekkert smáræði sá benzínaustur, sem á sér stað í sambandi við vöruflutninga bænda, einkum flutninga á mjólk, t.d. ofan úr Borgarfirði og austan yfir Hellisheiði. Þetta verður á sama hátt og þó enn meira en sú hækkun, sem gerð var á farmgjöldum með strætisvögnum og almenningsbifreiðum. Það verkar þannig, að afurðirnar verða að hækka, og það hefur þau áhrif, sem eru öllum of kunn til að það þurfi að rekja það í þessari d. Og þá verður að leggja á nýja skatta á næsta ári, hækka þessa skatta eða finna einhverja nýja skatta, sem leggjast á framleiðsluna og hækka framleiðsluvörur og svo koll af kolli. Ég segi fyrir mig þykkjulaust og í þeirri einlægni, sem ég á til, að mér er ómögulegt að taka þátt í þessum leik. Með þessum aðgerðum er stefnt að því að gera krónuna verðlausa og koma ríkissjóði út í gjaldþrot. Það er það, sem verið að gera með þessum aðgerðum. Það er hrein og bein kleppsvinna að leggja alltaf á nýja skatta og tolla, sem á að nota til að greiða niður dýrtíðina: Þessir skattar og tollar hafa með sér hækkun á dýrtíðinni, og síðan verður að leggja á nýja skatta til að bera uppi þá hækkun og svo koll af kolli. Því hefur verið skrökvað upp á sjúklingana á Kleppi, að þeir væru látnir bera sand og hvolfa honum í trekt. Sandurinn hryndi niður, en þeir tækju hann þar aftur og bæru hann upp á ný og svo áfram og áfram og þetta ætti að vera nokkurs konar gáfnapróf á þá. Þetta er ósatt, þetta er ekki gert, en þetta er það, sem hér er verið að gera, það er sams konar hringrás. Þessu er ómögulegt að halda áfram, því að hvað á að gera á næsta ári, þegar þessi benzínskattur er búinn að hækka vöruverð og sú hækkun er komin inn í vísitöluna? Hvað á þá að gera annað, en leggja á nýja skatta? Ef halda á áfram sams konar fjármálapólitík, hvar endar þetta? Til hvers á að halda þessu áfram?

Ég vil bara, af því að mér finnst þetta frv., sem er ekki öðruvísi en sum önnur, vera það mikil bending um stefnuna í þessa átt, sem ég hef alltaf verið mótfallinn og er mótfallinn og hef reynt að vara við, láta það koma fram, að mér finnst þetta svo glöggt spor í þessa átt. Mér finnst rétt að taka þetta fram á þessu stigi, þó að það þýði ekki, þetta eigi allt að hafa sinn gang, því að það lítur út fyrir, að það eigi að halda áfram á þessari leið, þangað til ekki verður lengra komizt, og við vitum allir, hvað það er, þegar ekki verður komizt lengra.