07.05.1949
Efri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (2643)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna ræðu hv. þm. Barð. (GJ), sem er talsvert mikið fyrir það að gerast siðameistari hér í d. Hann er vafalaust orðinn þingvanur eftir langa þingsetu, enda ber mikið á því, að hann álítur, að enginn kunni að haga sér á Alþ. nema hann. Honum hættir talsvert mikið til þess að tala við aðra þm., bæði mig og aðra, eins og við værum krakkar á skólabekk og hann væri skólameistarinn. Ég ætla að láta hv. þm. Barð. vita það, að ég tek ekki við svona lærisetningum frá honum. Það getur vel verið, að ég sé ekki eins þingvanur og hann og ekki eins þingríkur, en slíkar ákúrur, sem hann gefur mér og gefur yfirleitt hér á Alþ., ætti hann sjálfs sin vegna að leggja niður. Áð ég ekki nenni að lesa? Hvers konar málflutningur er þetta? Ég hef lesið gr. eins vel og hann. Það getur vel verið, að ég leggi annan skilning í hana, en hann gerir. Og að það sé stirðbusaskapur, þó að ég vilji ekki hlaupa til og kalla saman nefndarfund, hvað lítið sem við ber, þó að einhver þm. þurfi að athuga þetta eða hitt atriði í máli, sem n. er búin að skila af sér. Ég skal láta hv. þm. Barð. vita það, að ég tel þessa ábendingu hans ekki þess virði, að hún sé tekin til athugunar í n., og kemur mér því ekki til hugar að kalla saman fund á þessu stigi málsins, meðan ekki liggur annað fyrir en það, sem hv. þm. sagði.