07.05.1949
Efri deild: 100. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vildi nú leyfa mér að óska þess, að ekki yrði fundið upp á nýjum og nýjum innskotum til þess að tefja þetta mál, sem svo mjög varðar afgreiðslu fjárl., og mér þykir leitt, ef það á að taka upp á öllum mögulegum og ómögulegum ráðum — því að ég kalla þetta ómögulegt — til þess að vefjast þarna fyrir. Það er opin leið á þinglegan hátt að taka fyrir þessa málaleitun hv. 4. landsk. án þess að blanda henni inn í þetta mál. Og ef endilega þarf að taka hana fyrir í sambandi við þetta mál, væri það hægt í Nd. Ég vil því beina því til hæstv. forseta, að þar sem komið er fram að helgi og ætlazt er til, að þing ljúki störfum næstu daga, en fjárlög eru enn óafgreidd, þá er það ósk mín, að ekki verði staðið svo upp frá borðum hér í dag, að málið hafi ekki fengið afgreiðslu.