16.12.1948
Neðri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú lýst innihaldi þessa frv. Eins og þegar hefur verið tekið fram og algerlega að óþörfu — það gefur auga leið — þá er það ekki mótað af neinum einum flokki, þar sem fleiri flokkar standa að stj. Þetta er samkomulagsmál, og vitanlega hefði það litið öðruvísi út, eins og hæstv. menntmrh. tók fram, ef það hefði verið mótað af einhverjum aðilanum einum. Yfirlýsinga er lítil þörf í því efni, svo eðlilegt sem þetta er. Á sama hátt hefur Sjálfstfl. ekki staðið einn að samningu þessa frv. Hann hefur og lagt til hliðar önnur sjónarmið til þess að þjóna aðaltilgangi frv., þeim að freista að gera ráðstafanir, sem ætla mætti, að gengju langt í því að tryggja það, að aðalatvinnuvegir okkar geti starfað. Um fjáröflunarleiðir gildir það sama, að persónulegar skoðanir hafa ekki allt að segja um það, heldur það, hvað hægt er að fá samkomulag um. En ég vildi benda á það — og undirstrika það sérstaklega, að tekjuöflunin verður að vera það mikil, að ekki reki í strand að standa við þau loforð, sem gefin eru með þessu frv. og öðrum slíkum. Ég tek undir það með hæstv. forsrh., að fyrir þessu verður vel að sjá. Þeir, sem því kynnu að vilja rýra þessar tekjuöflunarleiðir, verða að taka tillit til þess, að á þeim hvílir þá sú skylda að benda á jafnöruggar leiðir í staðinn.