10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (2675)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi segja hér nokkur orð um frv. um nýjan benzínskatt, þar sem lagt er til, að skatturinn hækki um 22 aura, úr 9 aurum í 31 eyri pr. lítra. Það, sem talið er, að réttlæti þetta, er, að ríkissjóð vanti fé og að þessi skattur sé lægri hér, en annars staðar. Ég efa ekki, að ríkissjóð vanti tekjur, en held, að hægt hefði verið að ná þeim með hagfelldara móti og svo, að hann hefði ekki íþyngt framleiðslunni svo mjög. Hæstv. ríkisstj. var ljóst, hvaða leið hún vildi fara, og gekkst ekki inn á aðrar leiðir. Það má vel vera, að svo sé búið um, að ekki þýði að andmæla eða bera fram brtt. af þeim ástæðum, að þingmeirihluti sé fyrir þessu. En þó að svo sé, ætla ég að leyfa mér að bera fram brtt., sem miðar að því að létta á skattinum á allri framleiðslu., ef till. verður samþ. Brtt. er við 2. gr. og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Við gr. bætist: Einnig skulu eigendur vörubifreiða, sem notaðar eru til aðdrátta og flutninga á framleiðsluvörum landbúnaðarins frá stöðum, sem eru 50 km eða meira frá höfn, fá endurgreidda 20 aura á lítra af sannanlegri benzíneyðslu við slíkan akstur.“

Ástæðan til þess, að ég tilgreini aðeins þær bifreiðar, sem eiga 50 km eða meira til hafnar, er sú, að þessi skattur er tilfinnanlegastur á bifreiðum, sem langt eiga til hafnar, svo sem mjólkurflutningabílum. Ef þetta er látið miðast við takmarkað svæði, rýrist tekjustofninn minna, en ef miðað væri við alla vörubíla. Ég hef því ekki treyst mér til að leggja það til, því að sigurvænlegra er að fá þetta fram en ef um víðtækari till. væri að ræða. Hins vegar flutti ég í fyrra till. ásamt hv. þm. N–Ísf. (SB) um tvenns konar verð á benzíni, en hún þótti svo fráleit, að hún fékk engan byr og hæstv. ríkisstj. vildi ekki líta við henni og þess vegna var hún ekki endurvakin. Hins vegar liggur í hlutarins eðli, að réttlátt er að láta óþarfaeyðslu borga meira en það, sem eytt er til gagns, þó að þessi till. okkar fengi engan byr í fyrra. Ef frv. verður samþ., hefur það í för með sér hækkun á mjólk og einnig framleiðsluvörum landbúnaðarins, þar sem flutningur á áburði og fóðurbæti hækkar og þetta hækkar landbúnaðarvísitöluna, þegar hún verður reiknuð út. Annaðhvort hækkar því dýrtíðin eða niðurgreiðslur aukast. Þess vegna flyt ég þessa till., sem mundi draga úr, að þessar vörur þyrftu að hækka, ef hún yrði samþ.

Mér hefði ekki fundizt óeðlilegt, að hæstv. ríkisstj. hefði um leið og hún bar þetta fram reynt að gera ráðstafanir til, að strandferðirnar bæru sig. Ríkissjóður gefur nú árlega með þeim stórfé. Þetta gat gengið meðan ríkið hafði nógar tekjur, en þegar fjárhagurinn er eins og hann er nú, finnst mér tímabært að afnema þessar meðgjafir og ekkert réttlæti í því að skattleggja flutninga á landi, en gefa stórfé með strandferðunum. Samtímis og benzínskattur er hækkaður, ætti því að hækka skatt á olíu til strandferðaskipanna og hækka flutninga og fargjöld með þeim, ef samræmi ætti að vera. Þeir, sem flytja vöru sína sjóleiðis, ættu að búa við það sama og þeir, sem flytja hana á landi. En það er ekkert gert til að reyna að losa ríkið við tap af strandferðunum eða reyna að græða á olíu til skipa. Ég vænti þess því, að till. mín verði samþ. og frv. þannig lagað, ef á að samþ. það. En ég er á móti frv., jafnvel þótt till. mín verði samþ.