21.02.1949
Neðri deild: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

141. mál, iðnfræðsla

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Iðnn. flytur þetta frv. um iðnfræðslu á þskj. 369 að beiðni hæstv. samgmrh. Hv. nm. hafa áskilið sér óbundnar hendur að öðru leyti. Málið hefur verið rætt á tveimur fundum n., en þó hefur hún enn ekki tekið ákvörðun. Hún mun taka frv. aftur til athugunar á milli 1. og 2. umr. og skila áliti sínu í einu eða tvennu lagi. En ég vildi leyfa mér að fara nokkrum orðum um sögu málsins, þar eð það hefur legið tvívegis fyrir áður, og skýra efni frv., ef það mætti verða hv. þdm. til nokkurrar glöggvunar, enda er hér að ýmsu leyti um merkilegt mál að ræða.

Frv. var fyrst flutt árið 1945. Var það þá samið af stjórnskipaðri n., og dregin saman gildandi ákvæði um iðnfræðslu. Í frv. voru þó ýmis nýmæli, t.d., að ákvæði voru sett um iðnfræðsluráð, sem starfa skyldi undir yfirstjórn ráðh. Í því skyldu sitja 2 af hendi meistara, 2 af hendi sveina og síðan formaður, er skipaður væri af ráðh. Iðnfræðsluráð skyldi löggilda meistara og ákveða, hversu marga nemendur mætti hafa í hverri grein. Samkvæmt gildandi skipun hefur það verið á valdi stéttarfélaganna sjálfra að kveða á um tölu nemenda.

Í hinu nýja frv. var losað um þessar takmarkanir og iðnfræðsluráðinu áskilinn réttur til að ákveða, hve margir megi vera við nám í hverri grein. Að öðru leyti var þar byggt á þeirri gömlu meginreglu, að nemendur ynnu hjá meisturum við nám sitt og yrðu að hafa unnið tiltekinn tíma til að mega ganga undir próf. Þetta frv. var afgr. til hv. Ed., en þar voru fluttar við það ýmsar brtt., og var þar m.a. samþykkt, að iðnfræðsluráð skuli skipað af Alþ. Frv. dagaði þó uppi í þeirri hv. d. Á þinginu 1946 er frv. flutt í Ed. sem stjfrv.hv. d. gerði enn breytingar á frv. og meiri en áður. Nú var gerð sú mikilvæga breyt., að bætt var inn í frv. nýrri gr., 14. gr., og má segja, að sú gr. hafi gerbreytt því. Er hér um að ræða nýtt sjónarmið, sem eigi hefur áður verið í l. En í gr., sem sett var í frv., er mönnum heimilað að ganga undir próf, þó að þeir hafi eigi stundað nám hjá ákveðnum meistara, en þó tekið fram, að auðvelt skuli vera að dæma um hæfni nemenda af prófúrlausnum þeirra. Með þessu var tekin upp ný stefna í iðnaðarmálunum, og þannig gekk Ed. frá frv. Þegar málið kom til n. í Nd., kom í ljós mikill ágreiningur í þeirri hv. n., sem ræddi málið mjög. Sumir hv. nm. voru fylgjandi stefnu Ed., sumir voru andvígir henni, en aðrir vildu miðla málum. Það voru einkum þrjú atriði, er umr. snerust um: Í fyrsta lagi ákvæði 7. greinar frumvarpsins, að iðnfræðsluráð ákveði tölu nemenda í hverri iðngrein. Þeir sem hafa litið takmarkanir á iðnnáminu hornauga, játa auðvitað, að ákvæði 7. greinar frumvarpsins eru til bóta. Aðrir álita þetta spor aftur á bak. Vilja þeir ákvæði gildandi l. um þessi efni. Sýndist því sitt hverjum. Í öðru lagi var rætt um það af ýmsum hv. nm., að þeim þótti óeðlilegt, að enginn möguleiki væri fyrir lagna menn að ljúka námi á styttri tíma, en áskilið er í frv. Væri því enginn möguleiki fyrir þá að njóta sérstakra hæfileika, er þeir kynnu að búa yfir. Svo var hitt, að sumum hv. nm. þótti nokkuð varhugavert að hverfa frá því, að menn skyldu hafa stundað nám hjá ákveðnum meisturum. Yrði hætt við því, að þetta yrði misnotað og kröfurnar lækkaðar. Hérna bar því mikið á milli. Í þriðja lagi var vandamálið varðandi gervimennina svokölluðu, en nú starfa allmargir svonefndir gervimenn í iðnaðinum án þess að hafa iðnréttindi, og hafa sumir þeirra unnið lengur, en krafizt er til prófs, en mega þó ekki ganga undir það, því að þeir hafa aldrei unnið skv. námssamningi. Var álitið óeðlilegt að meina þessum mönnum að ganga undir próf, þó að þeir gætu það. Hins gætti og, að óeðlilegt væri að hverfa frá gildandi reglu og heimila þessum mönnum að ganga undir próf, því að með því væri hallað á þá menn, sem ynnu skv. námssamningi. Var á það bent, að eigi væri hallað á gervimennina, því að þeir hefðu unnið fyrir fullu kaupi, þar sem hinir hins vegar væru á lægra kaupi, því að þeir, er vinni skv. samningi, hafi auðvitað nemendakaup. Með því þess vegna að hleypa öðrum að prófborðinu. væri þeim mönnum ívilnað, er eigi gengju þessa leið. Bar því mjög á milli í hv. iðnn., og mátti búast við sama ágreiningi í hv. d. Allmikil vinna var í það lögð í hv. n. að reyna að brúa bilið á milli skoðana manna í þessu efni, og hefur aðallega verið rætt um tvennt: í fyrsta lagi að umorða 14. gr. hv. Ed., þannig að í stað þess að heimila mönnum að ganga undir próf, þótt þeir hefðu engan samning gert, þá væri gr. orðuð svo, að ráðh. væri heimilt að leyfa mönnum þetta, ef þeir hefðu próf frá iðnskóla og vottorð frá meistara. M.ö.o. skuli ráðh. heimilt að veita slíkt leyfi í undantekningartilfellum. Leið sú, sem rætt var um til að leysa gervimannavandann, var að heimila þeim mönnum, sem við gildistöku l. hafa unnið tilskilinn tíma, að ganga undir próf, en eigi eftirleiðis. Enn var rætt um það í hv. n. að fella niður úr 7. gr. ákvæðið um, að iðnfræðsluráð skuli ákveða, hversu marga nemendur megi taka í hverja iðngrein. — Það reyndist þó ekki unnt að brúa bilið milli hinna andstæðu skoðana. Þeim, sem harðast héldu við sjónarmið hv. Ed., þótti of langt gengið til móts við málstað stjórnskipuðu n. og iðnstéttarinnar og hinum þótti slakað á meginreglum iðnfræðslunnar. Hvorugur aðili vildi sætta sig við meðalveg í málinu. Hæstv. ráðh. hélt fast við grundvöll þann, er frv. hans var byggt á, og taldi eigi fært að hvika frá honum. Varð síðan niðurstaðan sú, að málið sofnaði. Hv. n. skilaði engu áliti um frv., og varð það því eigi útrætt.

Á síðasta þingi var frv. ekki flutt, en nú er það flutt í þriðja skiptið. Vegna þess aðdraganda, sem málið hefur haft, þótti mér rétt að rekja hann hér nokkuð, ef verða mætti mönnum til leiðbeiningar. Ég endurtek svo, að einstakir hv. nm. hafa enga afstöðu tekið til málsins, og mun hv. n. taka það til nánari athugunar. Get ég því eigi sagt, hver afstaða hennar muni verða. Vil ég ítreka, að hv. iðnn. er þeirrar skoðunar, að málið verði að afgreiða og til þess megi eigi koma, að frv. dagi uppi í þriðja sinn. Ég leyfi mér svo að lofa því fyrir hönd n., að hún láti frá sér heyra við 2. umr. þessa máls.