08.04.1949
Neðri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (2813)

141. mál, iðnfræðsla

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi bæta við nokkrum orðum um brtt., einkum út af ummælum þeim, sem hæstv. iðnmrh. hafði um hana. Hann telur, að verði till. samþ., þá sé frv. stofnað í fullkomna hættu og tilgangi þess að verulegu leyti raskað. Út af þessu vil ég minna á það, að á síðustu árum hefur Alþ. afgr. víðtæka löggjöf um skólamál, svo víðtæka, að mönnum hefur fundizt nóg um allar þær skyldur og kvaðir, sem hún hefur haft í för með sér, en í allri þessari löggjöf er það meginregla, að mönnum er heimilt að lesa utanskóla og þreyta síðan próf við skólana. Standist þeir þessi próf, öðlast þeir sömu réttindi og þeir, sem nám hafa stundað í skólunum sjálfum. Þá vil ég minna á það, að í l. þessum er gert ráð fyrir verknámsdeildum, og gilda hinar sömu reglur um þær, að mönnum er heimilt að afla sér þekkingar annars staðar og þreyta síðan próf við deildina og öðlast þannig sama rétt og reglulegir nemendur. Hér er því aðeins farið fram á, að þetta haldist einnig um iðnfræðsluna. Hæstv. ráðh. sagði, að engin trygging væri fyrir því, að nemendur hefðu lært nógu mikið. En mér skilst, að prófin ættu að vera trygging fyrir kunnáttu nemenda þarna eins og annars staðar. Ég hygg, að menn, sem ekkert hafa lært, geti ekki staðizt próf, en standist nemandi, sem ekki hefur lært hjá meistara, prófið, hygg ég, að kunnátta hans sé jafnhaldgóð og varanleg og hins. En nú er það svo um námið hjá meisturum, að það hlýtur fremur að vera kennsla, en starf og vinna, og ef svo er, hlýtur að vera erfitt að afla sér sambærilegrar menntunar utanskóla, svo að þetta mundi varla vera notað mikið. Fáir taka stúdentspróf utanskóla vegna þess, hve það er erfitt, og eins hygg ég, að raunin mundi verða um iðnfræðsluna, ef þetta væri samþ. Ég vil láta það koma fram, að nú er svo ástatt í landinu, að manni, sem hafði leyst af hendi iðnnám, eins og að setja upp vatnsaflstöð, sem staðizt hefur próf reynslunnar um tugi ára, er bannað að freista að taka próf, þó að hann hafi til þess kunnáttu og hæfni. Þetta brýtur algerlega í bága við þá meginreglu, sem ríkir í skólamálum okkar, og vil ég stuðla að því, að slíku verði ekki til að dreifa í framtíðinni.