21.10.1948
Sameinað þing: 6. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

Marshallaðstoðin

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að svara svo að nokkru nemi því, sem fram hefur komið af hálfu stjórnarandstöðunnar í ræðu hv. 2. þm. Reykv. í gær, því að að svo miklu leyti sem þeim ráðh., er flutt hafa skýrslu ríkisstj. í sambandi við þetta mál, þykir ástæða til að fara inn á þessa ræður munu þeir að sjálfsögðu gera það. Ég vil það eitt um þá ræðu segja, sem var bæði mjög löng og ýtarleg, að rökin og samræmið var ekki í réttu hlutfalli við hina löngu ræðu. En ég vildi með nokkrum orðum minnast á þann stórpólitíska bakgrunn, sem blasir raunverulega við í átökunum hér í sambandi við Marshallaðstoðina.

Það er ekkert launungarmál, heldur fullkomlega auðséð af öllum þeim, sem nokkuð fylgjast með í alþjóða stjórnmálum, að frá því fyrsta að stjórn Bandaríkjanna boðaði þessa hugmynd sína um að styrkja af sinni hálfu efnahagslega viðreisn Evrópu, hefur Evrópa skipzt í tvennt. Annars vegar kommúnistasamtökin og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst þeir, sem eru ráðandi austan járntjaldsins, og svo einnig kommúnistar Vestur-Evrópu, sem hafa gert það, sem þeir hafa haft dug til, en hins vegar eru svo yfirleitt allir lýðræðisflokkarnir. Hæstv. utanrrh. drap á það í ræðu sinni, að sum ríki Evrópu önnur en þau, sem þátt hefðu tekið í aðstoðinni, hefðu gjarna viljað verða þessarar hjálpar aðnjótandi, ef þau hefðu verið sjálfum sér ráðandi, eins og t. d. Tékkóslóvakía og Finnland, sem fengu ekki að taka þátt í þessari samvinnu Vestur-Evrópu, með aðstoð Bandaríkjanna, vegna þessa ofurkapps, sem á það var lagt af hálfu Sovét-Rússlands og kommúnista að hindra, að þetta næði fram að ganga. — Fyrsta spurningin, sem blasir við, þegar þessi staðreynd er höfð í huga, að þannig skiptist afstaða manna í Evrópu til Marshallaðstoðarinnar, að annars vegar eru kommúnistar með Sovét-Rússland að bakhjarli og hins vegar lýðræðisflokkarnir, — sú spurning er þessi: Af hverju mótast afstaða hins alþjóðlega kommúnisma til þessa máls? Hún getur ekki mótazt af því, að það séu nokkrir auðjöfrar Vesturheims, sem séu að koma fjárfúlgum sínum fyrir í Evrópu sér til aukins ávinnings. Og hún getur ekki heldur mótazt af því, að verkalýðurinn líti ekki vonaraugum til þessa endurreisnarstarfs, sem samtök Vestur-Evrópuríkjanna taka þátt í með aðstoð Bandaríkjanna. Það getur af hvorugu þessu mótazt. Ályktunin hlýtur því að verða sú, sem dregin hefur verið hiklaust og skýrt, að hinn alþjóðlegi kommúnismi með Rússland að bakhjarli óski þess ekki, að hafin verði fjárhagsleg endurreisn í Evrópu. Og hvers vegna óska þessi öfl í austri, að þetta takist ekki. Þeirri spurningu verður ekki heldur svarað nema á einn veg: Þetta er ekki vegna andúðar alþýðunnar í þessum löndum, heldur vegna þess, að þeir telja, að áhrif kommúnismans verði minni meðal þessara þjóða, ef þessi fjárhagslega endurreisn tekst. Þessar eðlilegu ályktanir eru dregnar af hinni hatrömmu andstöðu allra kommúnista í hvaða landi sem er gegn viðreisnaráformum samtaka Vestur-Evrópuríkjanna með Bandaríkjaaðstoð að bakhjarli.

Ég sagði áðan, að það væri blekking ein, þegar því væri stundum haldið fram af andófsmönnum þessarar hugmyndar, að það væri auðvald Ameríku, sem fylgdi fram þessari hugmynd. Þetta er mjög fjarri sanni. Í Bandaríkjunum eru vaxandi verkalýðssamtök, sem nú telja um 16 milljónir manna. Þessi samtök hafa styrkzt á síðastliðnum árum, og það er sá þáttur í Bandaríkjunum, sem harðast hefur barizt með hugmyndinni um Marshalláætlun og aðstoð, sem að sjálfsögðu kom þó fyrst fram hjá víðsýnum og lýðræðissinnuðum bandarískum stjórnmálamönnum. Ég get því nefnt dæmi um það, að því er snertir yfirlýsingar og skoðanir verkalýðssamtaka í Bandaríkjunum um þetta mál, og ég ætla að drepa á raddir tveggja forustumanna úr hópi verkalýðssamtakanna. Annar þeirra hefur sagt: „Verkalýðshreyfing Bandaríkjanna styður Marshallaðstoðina af öllu afli, af því að hún (verkalýðshreyfing Bandaríkjanna) óskar þess eindregið, að verkalýður Englands geti búið við sem bezt kjör og haft fullt frelsi. Ef England getur tryggt íbúum sínum fjárhagslegt öryggi, er það bezti stuðningurinn að varanlegum friði. Verkalýðurinn hlýtur að styðja að öllum áformum, sem tryggja frið í heiminum og farsæld almennings“. Ameríkumaður hefur látið svo um mælt: „Bandarískur verkalýður hefur frá upphafi stutt meginstefnu Marshalláætlunarinnar. Öll verkalýðssamtök hinna frjálsu ríkja Evrópu standa óskipt að baki Marshalláætluninni“.

Það má einnig láta þess getíð, að þau tvö eða þrjú verkalýðsfélög í Bandaríkjunum, sem nokkuð kveður að, hafa heitið fullum stuðningi sínum við framkvæmd Marshalláætlunarinnar, og einn af aðalframkvæmdastjórum Marshalláætlunarinnar, Hoffmann, hefur sagt: „Það er óhætt að fullyrða, að frá upphafi Marshalláætlunarinnar hefur engin stétt Bandaríkjanna veitt henni jafneinróma stuðning né unnið jafndyggilega að henni í framkvæmd og ameríska verkalýðshreyfingin“.

Við vitum það einnig, sem fylgjumst með og látum ekki blekkjast af moldviðri hins alþjóðlega kommúnisma, að þeir, sem vildu draga úr Marshallaðstoðinni, voru flestir hinir mestu auðjöfrar Bandaríkjanna. Af þessu sést greinilega, að það eru ekki þau öfl í Bandaríkjunum, sem kommúnistar vilja vera láta, sem mest styrkja Marshallaðstoðina og vilja, að hún geti sem mest og bezt notið sín.

En hvað segja þá yfirleitt verkalýðssamtök Vestur-Evrópu, sem eru ekki háð kommúnistum? Þau segja nákvæmlega sama og verkalýðssamtök Vesturheims. Ég get nefnt nokkur dæmi því til stuðnings. — Eins og menn vita, þá voru hin fornu verkalýðssamtök í Frakklandi undir stjórn kommúnista. En þegar þar fyrir áhrif kommúnista var farið að gera pólitísk verkföll, m. a. til þess að hindra framkvæmd Marshallaðstoðarinnar, þá klofnaði þetta sterka verkalýðssamband Frakklands. Það myndaðist þá nýtt verkalýðssamband, og einn forustumaður þess hefur sagt, að hið nýja verkalýðssamband hafi lýst yfir eindregnum stuðningi sínum við Marshalláætlunina.

Sama er að segja um þau verkalýðssamtök á Ítalíu., sem líku máli gegnir um. En ég vil taka til dæmis forustumann verkalýðssambands eins Norðurlandanna, þ. e. Svíþjóðar, en meðlimir þess sambands telja á aðra milljón af þeim tæpum 7 milljónum, sem búa í Svíþjóð. Forseti þess, Axel Strand, sem margir hér á landi kannast við frá því að hann kom hingað til lands, hefur sagt á þessa leið: „Við í sænsku verkalýðshreyfingunni teljum Marshalláætlunina vera stórkostlega og öfluga tilraun til þess að tryggja fjárhag Evrópu, tryggja verkamönnum aðstöðu til nægrar atvinnu og koma á heilbrigðu, bættu skipulagi meðal þjóðanna. Sænska verkalýðshreyfingin styður þessi samtök af alhug“.

Forseti hollenzka verkalýðssambandsins hefur gefið yfirlýsingu á þessa leið: „Öll verkalýðshreyfing Hollands er mjög þakklát fyrir hina amerísku aðstoð og telur skyldu sína að vinna af öllu afli að framkvæmd Marshalláætlunarinnar og viðreisn allrar Evrópu“.

Ég hef aðeins nefnt þetta sem dæmi um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar í Bandaríkjunum annars vegar og verkalýðshreyfingar Vestur-Evrópu hins vegar til þessa máls, sem hér er rætt af Alþingi Íslendinga. Og skýrast enn þá betur áform hins alþjóðlega kommúnisma í sambandi við þetta mál, og línurnar í þessum efnum skýrast æ betur og betur, en nokkru sinni fyrr. Hringekja kommúnismans sem byrjaði 1930 á höfuðhringnum, er nú komin aftur á sama stað í hringnum og hún var þá. Þá voru jafnaðarmenn höfuðandstæðingarnir, sósíalfasistar, höfuðstoð auðvaldsins. Þetta breyttist seinna í samfylkingar- og samvinnuskraf. En svo snerist ekjan áfram í hring og er nú komin á sama stað og 1930. Þannig eru starfsaðferðir hins alþjóðlega kommúnisma. Jafnvel hér í okkar litla og fátæka þjóðfélagi er hópur manna í þessari hringekju og tekur þátt í því að fara hringinn, vilja dansa eftir tóninum að austan. Það er ekkert vafamál, heldur fullkomin staðreynd, að það var ríkið í austri, Sovét- Rússland, sem hóf harða baráttu gegn framkvæmd Marshallaðstoðarinnar. Það er heldur ekkert vafamál, að Kominform, hin nýju alþjóðasamtök kommúnista, sem raunar formlega telja ekki innan sinna vébanda nema nokkur ríki í Evrópu, hafa skorið upp herör gegn þessum framkvæmdum. Og þegar austur á aðalstöðinni er skorin upp slík herör, bergmálar það í öllum löndum heims, þar sem angi er til af þessari hreyfingu. — Ég held, að enginn hafi í raun og veru skýrt þetta betur, en einn af fremstu og að mörku leyti reyndustu forustumönnum í verkalýðshreyfingu Norðurlanda, sem er formaður danska kommúnistaflokksins, í mjög langri ræðu, sem hann hélt þar í landi 18. sept. s. l. Sú ræða hefur verið birt orðrétt í kommúnistablaðinu „Land og Folk“, en auk þess verið gefin út sérprentuð, en þetta blað, „Land og Folk“, er höfuðfréttalind Þjóðviljans á Íslandi, því að þeir, sem lesa bæði þessi blöð, sjá greinilega hið nána samband, sem er á milli þessara tveggja höfuðmálgagna íslenzkra og danskra kommúnista. — Þessi forustumaður segir m. a.: „Stefna Sovét-Rússlands er sú eina rétta“. Það er í raun og veru fyrsta undirstöðuboðorðið, sem útibúin eiga að fylgja að staðaldri. Hann bætir við seinna: „Flokkur Lenins og Stalins er persónugervingur hinnar fullkomnu reynslu og beztu þekkingar. Við teljum kommúnistaflokk Sovét-Rússlands vera hinn mikla læriföður. Við vitum, að stjórnmálastefna hans er rétt og til gagns fyrir mannkynið.“

Hér er sagt hispurslaust og rétt frá. Það er ekki nokkrum vafa bundið, að íslenzkir kommúnistar hafa tekið afstöðu gegn Marshalláætluninni á Íslandi vegna þess, að sú afstaða var tekin upp í Rússlandi, og af engu öðru. Og það er þeim mun hörmulegra til þess að vita, þar sem það eru margir greindir og gegnir menn, sem skipa þennan flokk og meðal annars sitja hér á Alþingi og hljóta að sjá það, ef þeir eru ekki slegnir fullkominni blindu, að barátta gegn Marshallaðstoðinni er hvað Ísland snertir barátta gegn hagsmunum íslenzku þjóðarinnar og fyrst og fremst barátta gegn hagsmunum íslenzkrar alþýðu. Enginn á meira undir því en alþýðan, í hvaða landi sem er, að hægt verði að koma á öruggu atvinnulífi, útrýma atvinnuleysi og halda atvinnunni öruggri. Það er grundvallarhugsunin í Marshallaðstoðinni að byggja svo upp fjárhagskerfi Vestur-Evrópu á 4 árum, að eftir þann tíma verði þessar þjóðir sjálfbjarga og sjálfum sér nægar. Og ég verð að segja það, að þegar litið er til þeirrar áætlunar, sem íslenzka ríkisstj. hefur látið gera sem sinn undirbúningsþátt í sambandi við Marshallaðstoðina, þá mega það vera menn slegnir mikilli blindu og ofstæki, sem berjast gegn þessu máli. Ég vil ekki segja af illvilja eða vegna þess, að þeir vilji alþýðunni illt eða þjóðinni illt, heldur vegna ofsatrúar sinnar og blindrar trúar á forustu ákveðins stjórnmálaflokks austur í Evrópu.

Um sjálfan Marshallsamninginn þarf ég ekki að ræða, því að það væri að bera í bakkafullan lækinn, eftir að hæstv. utanrrh. hefur glöggt og skýrt greint frá honum hér á Alþingi Íslendinga og hrakið verstu firrurnar og blekkingarnar, sem hafðar hafa verið í frammi í baráttunni gegn Marshalláformum og Marshallaðstoð. Ég ætla ekki heldur að fara inn á þá áætlun, sem hæstv. viðskmrh. rakti hér í umr. í fyrradag, að gerð hefði verið að tilhlutan ríkisstj. En ég vil segja það í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Reykv., að það kemur að sjálfsögðu margt til greina í sambandi við það, hvernig hægt verði að framkvæma þessa risaáætlun. Ég vil segja, að m. a. séu það 3 atriði. Það er það, að við fáum þá aðstöðu út í frá, sem við vonum og gerum ráð fyrir í sambandi við Marshallaðstoðina. Það er það, að við höfum nægilegt fjármagn innanlands til þátttökunnar, og í þriðja lagi, að við höfum nægilegt vinnuafl, án þess að tekið sé frá neinum framleiðslugreinum, til þess að framkvæma þessa stóru áætlun. Einnig má bæta því við, sem 1. þm. Reykv. benti á, að til þess að framleiðslan geti gengið og vonir geti staðið til, að nýjar verksmiðjur, ný skip og nýjar vélar geti notið sín, þurfa að verða þær breytingar í íslenzku þjóðfélagi, að hægt verði að framleiða með því verði, að vörurnar verði seljanlegar á erlendum markaði. Sú ríkisstj., sem nú situr, hefur viljað gera sitt til þess, að svo gæti orðið, og hún mun, meðan hún situr, gera sitt til þess, að svo geti orðið, hvernig sem það kann að takast. Ég vil segja það líka, að ég tel, að ég geti lýst yfir því, að ríkisstj. muni gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að framkvæma þá merkilegu áætlun, sem hér hefur verið skýrt frá, í hvaða röð sem framkvæmdirnar yrðu, og án þess að ég geti sagt um það. hvort hægt væri að framkvæma þetta út í yztu æsar. En eitt er nauðsynlegt í því sambandi, og það er, að frjálslynd, 1ýðræðissinnuð öfl í landinu vinni saman að framkvæmd þessarar áætlunar. Það þarf ekki að gera því skóna, að ó-vinir þessa máls vilja spilla fyrir framkvæmd þess á allan hugsanlegan hátt. Ég vildi vona, vegna íslenzku þjóðarinnar og Íslands, að þau frjálslyndu, lýðræðislegu öfl geti orðið nógu sterk í landi hér til þess að framkvæma þessa áætlun, og ég er öruggur um það, að með henni er hægt að tryggja þjóð vorri betri og blómlegri framtíð en áður. Það er tilgangur okkar, sem að henni vinnum, og tilgangur allra þeirra, sem vinna að framkvæmd hennar víðs vegar um heim, hver fyrir sína þjóð, og það er von mín, að þeim tilgangi verði náð.