17.12.1948
Neðri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Lúðvík Jósefsson:

Það verða aðeins örfá orð í sambandi við brtt., sem ég hef leyft mér að flytja hér. Ég hafði í raun og veru rökstutt þessar brtt. í umr. hér í gær og þarf því ekki að fara mörgum orðum um þær. En ég hef flutt hér aðrar brtt., sem ekki er búið að útbýta. Brtt. á þskj. 243 eru í fyrsta lagi um það, að ábyrgðarverð á fiski verði hækkað úr 65 aurum í 70 aura, og í öðru lagi, að tilsvarandi hækkun fari fram á ábyrgðarverði til frystihúsanna. Þessa verðhækkun rökstuddi ég nokkuð í umr. í gær, og félagssamtök útgerðarmanna hafa einnig rökstutt þetta mál ýtarlega í sínum grg. Og meðan það liggur ekki fyrir, að þetta gamla ábyrgðarverð, sem í gildi hefur verið, dugi til þess að tryggja rekstur útgerðarinnar, þá skil ég varla í því, að hæstv. ríkisstj. leggi í það að samþ. frv. í því formi, sem það nú er, nema því aðeins að hún gæti tryggt sér frá hlið þessara aðila, að rekstri fyrirtækjanna verði borgið. Ég álít, að sú hækkun, sem lögð er til í minni brtt., sé sú allra minnsta, sem hægt er að komast af með. — Þá legg ég einnig hér til, að ákvæðið í 2. gr. frv. um geymslukostnað á frystum fiski gildi ekki aðeins fyrir vetrarfrystan fisk, heldur allan fisk og verði aðeins miðað við það, hvað fiskurinn hefur verið geymdur lengi, og gangi það jafnt Yfir alla, en ekki þetta hlutdrægnislega ákvæði eins og það er nú í frv. og hefur verið í l. síðasta ár. — Þá hef ég lagt til, að meginhlutinn af kaflanum um skuldaskil, en það eru 13.—17. gr., verði felldur niður, og vísa ég þar til þeirra raka, sem ég færði fram hér í gær, að þessi skuldaskil mundu koma illa við og verða illa liðin af útgerðarmönnum og gerð alveg þvert ofan í samþykkt þeirra um þessi mál. Það verður að teljast alveg einstakt ofbeldi að ætla að taka menn þannig til gjaldþrotameðferðar án nokkurs samstarfs við þá aðila. Ég tel þess vegna rétt að fella niður þennan kafla eða að minnsta kosti að fresta að samþ. hann, þar til rætt hefur verið um þessi mál við þá aðila, sem hlut eiga að máli, og ætti að verða nægur tími til þess að taka þessi mál til athugunar eftir áramótin. — Þá er sú brtt., sem ég flyt hér, en hefur ekki verið útbýtt enn, en ég vildi með leyfi hæstv. forseta skýra efni hennar, sem er, að bátum verði gefinn kostur á því að fá gjaldeyri, senn nemur helmingi af aflaverðmæti því, sem viðkomandi útgerð hefur aflað á árinu 1949, miðað við gildandi innanlandsverð aflans, og skal heimilt að nota þennan gjaldeyri til kaupa á hvers konar útgerðarnauðsynjum, án þess að til þeirra kaupa þurfi önnur leyfi, og einnig, að heimilt sé að hagnýta þennan gjaldeyri til innkaupa á öðrum vörum, sem inn má flytja samkv. gildandi innflutningsáætlun, að fengnu samþykki innflutningsyfirvaldanna, og verði nánari reglur settar um þetta í reglugerð, og skulu samtök útvegsmanna hafa rétt til tillagna um þá reglugerð. Ég vil í þessu sambandi benda á, að önnur útgerð í landinu hefur þegar fengið þessi fríðindi. Togaraútgerðin hefur öll þessi fríðindi. Togarar, sem sigla með farm sinn til útlanda, mega nú þegar taka af gjaldeyrssölu sinni það, sem þeir þurfa til veiðarfæra og nauðsynjakaupa. En bátaútvegurinn hefur ekki haft þessi hlunnindi og hefur orðið að sætta sig við að kaupa allar sínar nauðsynjar, í hvaða formi sem er, í gegnum hendur heildsala og smásala og jafnvel fleiri milliliða, og hefur þetta vitanlega stórkostlegan kostnað í för með sér fyrir bátaútveginn. Þegar á nú að fara að gera sérstakar ráðstafanir til þess að styrkja bataútveginn, virðist ekkert eðlilegra en að einmitt þetta atriði sé tekið til athugunar og honum séu veitt þessi, hlunnindi og þar með gert jafnt undir höfði og togaraútgerðinni í landinu. Í brtt. felst ekki annað en það, sem sanngjarnt er, að veitt verði þessum atvinnurekstri, bátaútveginum, þegar miðað er við aðra útgerð í landinu, og ef þessar brtt. mínar verða samþ., má telja nokkurn veginn tryggt, að útgerðin muni starfa af fullum krafti, og þá má búast við, að afkoma bátaútvegsins verði sæmileg.

Hv. þm. Borgf. flytur brtt. á þskj. 242 um nokkur gjaldeyrishlunnindi til handa bátaútveginum, eins og þar segir. Ég skal viðurkenna, að það er að vísu til bóta, en ég kann ekki við að fara þá leið, sem þar er gert ráð fyrir. Þar er aðeins gert ráð fyrir að taka 10 millj. kr. af þeim erlenda gjaldeyri, sem bátaútvegurinn aflar, gegn viðbótargjaldi, er nemi 100% af leyfisfjárhæð. Veita skal 1/4 hluta þessara leyfa á hverjum ársfjórðungi. Gjald þetta skal viðskiptanefnd innheimta við afhendingu leyfanna. Leyfi má ekki veita fyrir gjaldeyri þessum til innflutnings á þeim vörum, sem verðlagsvísitalan tekur til, nema því aðeins að færðar séu sönnur á, að slíkur innflutningur valdi ekki hækkun á vísitölunni. Þetta er að vísu nokkur bót fyrir útgerðarmenn og sjómenn, en ég tel þetta ekki æskilega eða eðlilega leið, og útvegsmenn telja sér það miklu meiri hagnað að mega selja nokkuð af framleiðslunni og ráðstafa gjaldeyrinum fyrir það, og þá leið kysi ég fremur. Ég mun verða með brtt. hv. þm. Borgf. að minni brtt. felldri.

Mér þykir heldur erfitt að ræða þessi —mál, þar sem nál. frá minni hl. n. hefur ekki komið fram.