14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Út af þeim ummælum í ræðu hv. 2. þm. Reykv., þar sem hann talaði um, að ég hefði aðeins lýst því yfir, að ríkisstj. hefði ekki borizt Atlantshafssáttmálinn, þá innti hann eftir því, hvort íslenzka ríkisstj. hefði fengið sent frá þeim aðilum, sem þar um ræðir, uppkast að slíkum sáttmála. Ríkisstj. hefur ekki fengið slíkt uppkast í sínar hendur. Ég vil taka þetta skýrt fram.

Í annan stað, út af orðum þessa hv. þm., vil ég taka það fram, að ég tel enga skyldu bera til þess, eftir ákvæðum, sem gilda í þingsköpum um utanrmn., að ræða við hana, þó að ríkisstj. óski eftir og vilji afla sér vissra upplýsinga með sendiferðum til erlendra ríkja. Það er ekkert í ákvæðum um utanrmn., sem bendir til þess, að ríkisstj. þurfi að bera slíkt undir hana. Hitt er annað mál, eins og að nokkru leyti kom fram í ræðu hv. þm. S-Þ., að ríkisstj. hefur ekki sérstaka tilhneigingu til að bera ráð sín saman við þá menn, sem tilheyra þeim alþjóðasamtökum, hvers forustumenn hafa lýst því yfir hver í kapp við annan, að þeir mundu berjast gegn sínum eigin þjóðum, ef annars vegar séu Rússar. Við slíka flokka er í rauninni lítið semjandi og lítið undir eigandi í utanríkismálum yfirleitt.