14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (2953)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að svara þessum fyrirspurnum þm. Siglf. — Við fyrri spurningunni vil ég segja það, að ég fyrir mitt leyti tel slíkt fjarstæðu og svara því spurningunni neitandi, enda er það margyfirlýst, að þetta samband er fyrirhugað sem varnarbandalag, en ekki sem árásarbandalag. Það á að verjast árásum annarra þjóða, og slíkt ætti ekki að vera ógnun við Rússa, nema með einu móti, og því getur þm. svarað sjálfur.

Við hinni spurningunni er það að segja, að íslenzka ríkisstj. taldi sér bæði rétt og skylt að afla upplýsinga um þennan fyrirhugaða sáttmála, að svo miklu leyti sem hann er ákveðinn. Og utanför ráðherranna var ákveðin af ríkisstj., en ekki eftir ósk annarra og allra sízt skipun.