03.12.1948
Sameinað þing: 24. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (2975)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil enn leyfa mér að bera fram kvörtun yfir því, að 24. og 25. mál þingsins hafa enn ekki verið tekin til umr. hér. Það er liðið alllangt síðan við nokkrir þm., ég held níu talsins, sendum hæstv. forseta skrifl. áskorun um það að taka þessi mál fyrir, en þau höfðu þá beðið alllengi. Síðan hafa þau verið sett á dagskrá nokkrum sinnum, en þó ekki komið til umr., sakir þess að hæstv. forseti hefur sett önnur mál framar á dagskrána, þótt síðar hafi verið fram borin hér í þinginu. Nú vil ég enn, með tilvísun til þessarar skrifl. áskorunar, sem hæstv. forseti hefur fengið fyrir alllöngu um þetta, beina þeirri kröfu til hæstv. forseta, að hann taki þessi tvö mál fyrst mála fyrir á næsta fundi í Sþ., sem væntanlega verður haldinn næstkomandi mánudag — eða á næsta fundi, hvenær sem hann verður haldinn.