09.02.1949
Neðri deild: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (3022)

120. mál, menntaskólar

Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti. Á þskj. 302 eru fimm þm. úr Norðlendingafjórðungi og einn þm. úr Austfirðingafjórðungi, sem leyfa sér að bera fram breyt. á l. um menntaskóla frá 1946 með ákvæði til bráðabirgða um Menntaskólann á Akureyri. Eins og hv. þm. muna, var með l. um menntaskóla ákveðið 1946, að gagnfræðadeildir þeirra skyldu lagðar niður. Nú mun mönnum fljótt á litið verða þannig við, að hér sé lagt til að gera allverulega röskun á fræðslukerfinu, en það er ekki. Hér er aðeins farið fram á, að sett sé ákvæði til bráðabirgða um að fresta framkvæmd l. hvað snertir Menntaskólann á Akureyri. Menntmrh. hefur gefið undanþágur undanfarin 2 ár um frestun á framkvæmd þessara l. hvað þennan skóla snertir, og hefur hann starfað í sama formi og áður.Og eftir því sem menn færast nær því marki, að gagnfræðadeildin verði afnumin, hefur slegið nokkrum ugg í menn, því að mönnum er sárt um að missa þessa gagnfræðadeild, a.m.k. að svo komnu máli, eins og yfirlýsingar bæjarstj. á Akureyri og sýslunefnda Norðlendingafjórðungs, Kaupfélags Eyfirðinga, stjórna félagasamtaka, m.a. fjórðungssambands Norðlendinga, bera með sér. Það hefur vaknað ákaflega mikill áhugi fyrir því að fá að halda þessu fyrirkomulagi fyrst í stað. Það er tekið fram í flestum þessum yfirlýsingum, að þeir skori á menntmrn. að sjá um, að framlenging fáist eða frestun á framkvæmd l. Menntaskólinn á Akureyri er óskabarn þess bæjar og hefur verið það þau 20–30 ár, sem hann hefur starfað sem menntaskóli. Hann setur svip sinn á bæinn, og honum hefur líka verið stjórnað með frábærum dugnaði, og mun óhætt að segja, að hann sé í hinu mesta áliti um land allt, og stjórn þess skóla hefur farið svo vel úr hendi, að til fyrirmyndar er. Sýslun. Eyjafjarðarsýslu bendir á, að verði gagnfræðadeildin flutt úr menntaskólanum, eigi utanbæjarnemendur ekki kost á heimavistardvöl á Akureyri, en miklir örðugleikar eru á húsnæði í bænum og það svo dýrt, að lítt kleift er efnalitlum nemendum að standa straum af því. Það er víst, að verði þessi tengsl slitin nú sem stendur, verður ekki í mörg hús að venda fyrir utanbæjarnemendur. Munurinn á menntaskólanum hér og á Akureyri er, að hér hefur ekki verið heimavist síðan fyrir aldamót, en það hefur alltaf verið heimavist fyrir 50–60 nemendur í Menntaskólanum á Akureyri. Nú hefur verið ráðizt í smiði á heimavistarhúsi við menntaskólann. Er það veglegt stórhýsi. Þar eiga að vera heimavistir fyrir 150 nemendur. Er þá gert ráð fyrir að leggja niður heimavistina í skólahúsinu, og skapast þá aðstaða til, með viðráðanlegum kostnaði, að fá nokkrar kennslustofur til viðbótar, þannig að þær geti orðið 16–18 alls. Eins og margar sýslun. benda á, yrði það til mikils kostnaðarauka fyrir nemendur og óhagræðis, ef gagnfræðadeildin yrði lögð niður, þó alveg sérstaklega fyrir utanbæjarnemendur, sem sækja til Menntaskólans á Akureyri úr fleiri sýslum landsins og jafnvel úr Reykjavík og Hafnarfirði.

Það þarf ekki að hafa langa framsögu um þetta mál, það liggur svo ljóst fyrir, en ég vil taka það skýrt fram, að við förum ekki fram á annað, en að þetta ákvæði, sem við viljum fá inn í l., verði aðeins sett til bráðabirgða.

Ég vil svo óska eftir, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.