25.04.1949
Neðri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (3123)

186. mál, eyðing refa og minka

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. landbn. þessarar d. hefur nú gefið yfirlýsingu um það, að með frv. því, sem hér liggur fyrir, um eyðingu refa og villiminka, eigi af hálfu n. að fylgja afgreiðsla á frv. því, sem við hv. 1. þm. Árn. fluttum hér snemma þings og vísað var til landbn. og búið er að vera þar þrjá mánuði eða lengur. Nú, þegar komið er að þinglokum, kemur fram þetta frv. frá landbn., sem felur í sér, eftir því sem mér virðist, ákaflega litla úrlausn að því er snertir útrýmingu villiminka. Aðalefni þessa frv. er að taka upp ákvæði, sem nú eru í gildi í sýslufundarsamþykktum um eyðingu refa og án þess að þar séu gerðar neinar verulegar breytingar frá því, sem víða gildir í landinu. Aðalkafli þessa frv., III. kaflinn, sem er um eyðingu villiminka, felur því ekkert í sér fram yfir það, sem nú er í framkvæmd, sem að vísu styðst ekki við nein lagaákvæði, heldur reglugerð, sem landbrh. hefur sett um það efni og hefur fengið viðurkenningu Alþingis fyrir með þeim hætti, að samþ. hefur verið fjárframlag til eyðingar villiminka. Í sambandi við þessa reglugerð er loðdýraræktarráðunaut falin framkvæmd þessa máls, þannig að í þessum III. kafla frv. er ekkert um framkvæmd þessa máls umfram það, sem nú er starfrækt. Raunar segir, að hreppsnefndir skuli hafa þessa framkvæmd á hendi — og mun það vera svo nú eftir þeirri framkvæmd, sem á þessu er, — og loðdýraræktarráðunautur setja reglugerð um þetta. Hreppsnefndaroddvitar, sem borga út þessi verkalaun, fá þau aftur endurgreidd fyrir milligöngu loðdýraræktarráðunautar. Mér finnst þess vegna, að hér sé að litlu leyti orðið við því, sem í frv. okkar felst og almennar óskir og kröfur landsmanna standa á bak við. Það eru ekki tekin upp nein bein ákvæði um það, hvernig haga skuli eyðingu þessa vargs, auk þess sem algerlega er fram hjá því gengið, sem segja má, að sé meginatriðið, ef nokkurn tíma á að takast að útrýma villiminkinum, en það er að útrýma minkaeldi í landinu. Því að þótt frsm. segi, að þessi dýr séu í traustum búrum, er traustleikinn ekki meiri en svo, að þau hafa sloppið úr búrunum og veldið sívaxandi tjóni, þannig að æðarvarp er að eyðileggjast gersamlega þar, sem það er á landi eða í eyjum, sem eru ekki svo langt undan landi, að sundfærni þessa vargs dugi ekki til. — Þannig les ég þetta frv. og get ekki annað úr því fengið.

Ég vil í sambandi við þetta benda á, að í okkar frv. er sagt í ekki færri en 10 gr. um það, hvernig útrýma eigi þessum skaðsemdardýrum. Þar eiga hreppsnefndirnar að hafa á hendi framkvæmdirnar, en sýslumaðurinn í hverri sýslu á að vera þar einnig að verki og aðstaða hans sú, að hann geti tryggt, að fram fari að minnsta kosti tvisvar á ári útrýmingarstarfsemi gegn þessum dýrum og hvar sem þeirra verði vart, skuli hreppsnefndir hafa tiltæka menn til þess að vinna á þeim. Það er þessi mikli munur þarna á, að við bættu því, sem ég minntist á áðan, að gengið er í þessu frv. fram hjá því, að banna skuli eldi villiminka. Það hefði þess vegna ekki þurft að taka svona langan tíma hjá landbn. að sinna þessu máli að því er villiminkana snertir, þar sem því eru ekki gerð svo mikil skil.

Eins og hv. 1. þm. Árn. minntist á hér, eru þau ákvæði sett inn í þetta frv., að sýslunefndir og bæjarstjórnir geti bannað minkaeldi. Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Árn., að ég tel lítið öryggi í því að fela bæjarstjórnum þetta atriði, einmitt vegna þess, eins og hann tók fram, að það snerta bæjarfélögin yfirleitt svo lítið þær skemmdir, sem stafa af villiminkum. Innan bæjarfélaganna flestra er þannig ástatt, að þar er litið af þeim nytjum, sem villiminkar verða að tjóni. Varplönd eru þar víðast engin og ekki heldur silungur eða laxár, þegar frá eru teknar Elliðaárnar hér í Rvík. Frsm. landbn. vildi halda fram, að bæjarstjórnir væru í nokkurri hættu í þessum efnum, en það er í svo hverfandi litlum mæli, enda ekki gert ráð fyrir í þessu frv., að bæjarstjórnir hafi á hendi framkvæmd á eyðingu refa eða villiminka, og sýnir það bezt álit landbn. á því, hve mikið sé í húfi fyrir þá, sem í bæjarfélögunum búa.

Við munum að sjálfsögðu reyna að koma fram endurbótum á þessu frv. við 3. umr., hvernig sem því kann nú að verða tekið af öðrum en þeim, sem í landbn. sitja. Við verðum að vænta, að fram komi hjá þeim betri skilningur á eðli þessa máls en ákvæði þessa frv. benda til, að finna sé hjá landbn.

Viðvíkjandi ákvæðum 10. gr., sem þeir deildu um hv. þm. Ak. og hv. frsm., þá vil ég taka undir það, að það sé síður en svo dregið úr ákvæðunum um eitrun fyrir refi, og það er vitanlega líka alveg sjálfsagt að gera það sem oftast og alltaf þegar nauðsyn krefur, til þess að halda þessum bitvargi í skefjum, sem að vísu er miklu viðráðanlegri en minkurinn, og auk þess er skaðsemi hans tengd við miklu þrengra svið en skaðsemi minksins, sem er jafnhættulegur bæði á landi og í vötnum.

Ég vil enn fremur benda á það í sambandi við 11. gr., sem lýtur að eyðingu villiminka, að það er nokkuð valt að ætla að byggja allt sitt traust á loðdýraræktarráðunautnum um leiðbeiningar um þetta efni, því að það er kunnugt, að uppi eru raddir um það, í sambandi við ráðstafanir til sparnaðar á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs, að leggja niður þessa starfsemi, sem nú er orðin mjög þýðingarlítil og svarar engan veginn til þess kostnaðar, sem af henni leiðir. Loðdýraræktin í landinu hefur mjög minnkað og sums staðar algerlega lagzt niður, og starf loðdýraræktarráðunautarins er ekkert orðið samanborið við það, sem áður var. Og verði þetta starf lagt niður, eru þessi ákvæði í frv. algerlega þýðingarlaus, því að þá er enginn, sem hefur neinar skyldur til þess að gefa bendingar eða ráðleggingar um það, hvernig haga skuli eyðileggingu á þessum vörgum. Til þessa verður að taka tillit í sambandi við lagasetningu um þetta efni, að framkvæmdin verður að byggjast á miklu traustari grundvelli en þarna hefur átt sér stað.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. að sinni. Eins og hv. 1. þm. Árn. hefur tekið fram, munum við reyna að gera hér á breyt. til batnaðar og freista þess, hvort við getum ekki fengið samkomulag við n. um að ganga nokkurn veginn sómasamlega frá þessum kafla frv. og svo frv. í heild.