17.05.1949
Neðri deild: 113. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (3147)

186. mál, eyðing refa og minka

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta þetta mál fara þannig úr d., að ég veki ekki athygli á því, hversu gagnmerkar upplýsingar mátti fá af hinum löngu umr. um málið, en þær upplýsingar eru þannig, að niðurstaða mín kemur í bága við þetta frv., sem hér á að gera að lögum. Þeir, sem hér hafa talað gegn minkaeldi og villiminkum, hafa sannfært mig um, að þetta er sjálfsögð atvinnugrein og að hér eru ágæt skilyrði til þess, að þetta geti orðið álitlegur atvinnuvegur. Ég er sannfærður um, að allur ótti þessara manna um skaðræði þessara villidýra er algerlega ástæðulaus. Og eitt hafa þessar umr. sannfært mig um, og það er það, að starf þessara dýra er hin mesta friðun fyrir fiskiár landsins. Það vita sem sé allir, að helzti óvinur vatnafiskanna eru ýmsar andartegundir, sem ráðast á ungviðin og hrognin. Þetta hindrar minkurinn, og þó að hann drepi eitthvað, þá er það ábyggilega mjög lítið hjá því, sem hann friðar.

Á einu vil ég vekja athygli, og það er 18. gr. frv., en þar segir, að bæjarstjórnir og sýslunefndir geti bannað minkaeldi í héruðum sínum. Það er þó gott, að Alþingi vill einhvers staðar hafa héraðabönn, þótt það hafi aldrei viljað leyfa einstökum héruðum að friða sig fyrir áfengi með því að setja héraðabönn, en hér á að setja bönn við arðvænlegri og sjálfsagðri atvinnugrein. En er ekki með þessu verið að gefa bæjarstjórnum og sýslunefndum of mikið vald, og er ekki Alþingi að afsala sér valdi, sem því raunverulega ber? Og þar sem hér er um að ræða svipuð héraðabönn og áfengishéraðabönnin, þá má geta þess, að þar datt engum í hug að láta sýslunefndir eða bæjarstjórnir ákveða það, heldur átti að leggja þetta í vald kjósendanna í héraðinu. Ef þannig væri farið að hér, mætti segja, að þetta væri þó lýðræðislegt. Ég held líka, að það megi fullyrða, að þeir menn, sem að málinu standa, hafi ekki gert sér ljóst, hver kostnaður verður af framkvæmd þess og hvern bagga þeir eru að binda sveitarfélögum sínum með þessu. Og það væri hugsanlegt, að hv. þm. Borgf. (PO), sem er hreppstjóri, að því er ég ætla, og hv. 1. þm. Árn. (JörB), sem tekur mikinn þátt í störfum sveitarfélags síns, eða gerði það að minnsta kosti meðan hann var í Tungunum, og ég vona, að hann geri það líka eftir að hann er kominn á láglendið við Ölfusá, — það væri hugsanlegt, að þeir kæmu siðar og bæðu vel fyrir sínum hreppum.

Mér þykir ekki ástæða til að fjölyrða um þetta mál, en ugglaust fæ ég að heyra nokkrar sagnfræðilegar staðreyndir frá Breiðafjarðareyjum áður en lýkur, og hver veit nema það geti haft áhrif á afstöðu mína til málsins og breytt skoðun minni, því að hv. þm. hafa haft mikil áhrif á skoðanir mínar með þessum skýrslum, svo að ég held, að það væri þarft að fá ýtarlega skýrslu um það, hvernig þessu háttar á Breiðafjarðareyjum, og einnig ef hv. þm. Árn. gæfi skýrslu um það, hvernig þetta gengur fyrir sig við veiðiárnar fyrir austan. Kannske kemur þá fram eitthvað nýtt, sem breytti skoðun minni.