08.04.1949
Neðri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (3158)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Síðan við fimm; Einar Ól. Sveinsson, Pálmi Hannesson, Klemenz Tryggvason, sr. Sigurbjörn Einarsson og ég, skrifuðum hæstv. forseta Nd. bréf í fyrradag með beiðni um leyfi til að sækja hv. þm. G-K., Ólaf Thors, til saka fyrir ummæli í ræðu, hefur það gerzt, að þingskrifari hefur skilað handriti sínu að umræddum ummælum. Við höfðum tekið þau upp úr Morgunblaðinu, og þar sem þau höfðu staðið þar í nokkra daga óleiðrétt, þá hefði mátt ætla, að þau væru rétt tilfærð, en nú hefur þingskrifari skilað handriti að ræðunni, sem þau eru í, og þá kemur það í ljós, að ummæli þm. eru mun alvarlegra eðlis, en kom fram í Morgunblaðinu. Hv. þm. segir svo, samkvæmt handriti þingskrifarans — með leyfi hæstv. forseta:

„Í marga mánuði hefur þjóðin verið æst upp og henni sagt, að verið væri að svíkja föðurlandið. Og ég segi fyrir mig, að ef ég væri ungur maður og tryði því að einhverjir væru að svíkja föðurlandið, þá mundi blóð mitt hitna. Og menn eins og Sigurbjörn dósent Einarsson, Pálmi Hannesson rektor, Klemenz Tryggvason, Einar Ólafur Sveinsson og Gylfi Þ. Gíslason — þessir menn hafa æst bálið, og á þeim hvílir þung ábyrgð um þá atburði, sem hér urðu í gær. Það kann að vera, að þeir hafi ekki ætlazt til, að við værum drepnir. En þeir ætluðu að halda fund til þess að hindra ákvarðanir löglegs meiri hluta á Alþingi, en þeir gugnuðu á því, og kommúnistar komu svo sjálfir til fundar.“

Þetta eru ummælin, svo að augljóst er, að talsvert hefur verið dregið í land, annaðhvort af hv. þm. sjálfum eða þingfréttaritara Morgunblaðsins, ef treysta má skrifum þingskrifarans, og hygg ég, að þau séu nærri lagi. Nú má að vísu segja, að þetta sé ekki verra en ýmis blaðaummæli, sem birzt hafa nú undanfarið, en hér er þess að gæta, að hér er ekki um blaðaummæli einhvers blaðamanns að ræða, heldur ummæli viðhöfð á Alþ. af formanni stærsta þingflokksins, form. utanrmn. og frsm. hennar í mikilvægu máli, fyrrv. forsrh. Íslands. Jafnframt er þess að gæta, að ummælum þessum er ekki beint gegn þm., heldur gegn 4 utanþingsmönnum, þar af 3 embættismönnum. Þegar málavextir eru þannig, þarf enginn að undrast, að ekki sé yfir þessu þagað. Menn í stöðu hv. þm. G-K. verður að taka alvarlega. Í ummælunum felst það, að borið er á 5 nafngreinda menn, að þeir beri ábyrgð á óeirðum þeim, sem urðu hér úti fyrir Alþ. fyrir skömmu.

Hv. þm. hefur gefið í skyn, að ekki sé útilokað, að við höfum ætlazt til, að þingmenn væru drepnir. Ég hygg, að það undri engan mann, þótt við viljum ekki una slíkum ummælum af hendi manns í jafnábyrgðarmikilli stöðu og hv. þm. G-K. er. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. G-K., hvort hann vilji standa við það, sem þingskrifarinn hefur skrifað hér eftir honum. Mér hefur virzt hv. þm. vera svo gunnreifur í blöðunum núna síðustu daga, að ég vona, að hann staðfesti það, sem ég hér hef lesið upp.