13.10.1948
Sameinað þing: 2. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

Varamaður tekur þingsæti

forseti (JPálm):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf frá forseta Nd.

„Reykjavík, 12. okt. 1948.

Formaður Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins hefur í dag sent mér svolátandi bréf:

„Með því að herra alþingismaður Lúðvík Jósefsson verður fjarverandi næstu vikur sökum annríkis, hefur hann óskað þess, með skírskotun til 144. gr. l. nr. 80 1942, um kosningar til Alþingis, að varamaður, Arnfinnur Jónsson skólastjóri, taki sæti hans á Alþingi í fjarveru hans.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt til athugunar með tilliti til þess, að fundur í sameinuðu þingi verður á undan fundi deildarinnar í dag.

Barði Guðmundsson.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Þetta er tilkynning, sem ber að taka til greina. Kjörbréf þessa hv. varaþm. hefur áður verið rannsakað, svo að ég geng út frá því sem sjálfsögðu, að hann taki sæti á Alþingi.