18.12.1948
Efri deild: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Þegar verið er að ræða um það frv. hæstv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, þá er naumast hægt að komast hjá því að minnast nokkrum orðum á svokallaða baráttu ríkisstj. gegn dýrtíðinni, sem hún hefur talið sitt höfuðverkefni. Hv. þm. muna það eflaust allir, er hæstv. ríkisstj, tók við völdum, að hún taldi það sitt höfuðverkefni að lækka dýrtíðina, sem þrátt fyrir það lætur ekkert á sjá og er reyndar ekki minni en þá, ef að er gáð. Það vill nefnilega svo undarlega til, að raunverulega hefur barátta hæstv. ríkisstj. miðað að því einu að auka dýrtíðina, í fyrsta lagi með því að gera stöðugt ráðstafanir til þess að hækka vöruverðið; í öðru lagi með því að binda kaupgjaldsvísitöluna við 300 stig, hvað sem raunverulegri verðlagsvísitölu liði, lækka á þann hátt laun allra launþega og gera þeim erfiðara og erfiðara fyrir að kaupa þær lífsnauðsynjar, sem þá á annað borð er unnt að fá.

Eitt fyrsta verkefni hæstv. ríkisstj. var það að fá samþykktar gífurlegar tollahækkanir í ársbyrjun 1947. Þær voru síðan framlengdar fyrir árið, sem nú er að líða, og enn eru nú gerðar ráðstafanir til þess að láta þær enn gilda, gera þær að fastri reglu og tekjustofni. Það lætur nærri, að hækkunin á vöruverðinu nemi um 50 millj. vegna tollanna á ári. Þá hefur ríkisstj. líka beitt sér fyrir söluskatti á allar neyzluvörur. Var hann áætlaður um 17 millj. kr. um s.l. áramót. Og nú beitir hæstv. ríkisstj. sér fyrir því að hækka hann um helming, eða í 34 mil1j., og þó sennilega öllu meira. Þessi uppskrúfun öll hlýtur að koma fram sem hækkað vöruverð. Það má nefna benzínskattinn til dæmis. Það er augljóst, að endanlega verkar hann mjög í þá átt að hækka vöruverðið og þá einkum á landbúnaðarvörum.

Síðast en ekki sízt eru í þessu frv. hæstv. ríkisstj. ákvæði um það, að teknir skuli nýir skattar, sem nema 14–18 millj. kr. og verka líka til hækkunar á vöruverðinu. Það nemur þannig þegar á annað hundrað millj. kr., sem ráðstafanir ríkisstj. hafa hækkað vöruverðið. Þar við bætist svo, að á tolla af aðfluttri vöru er innflytjendum leyft að leggja ásamt vöruverðinu, svo að þessar verðhækkanir munu nema mjög mikið á annað hundrað millj: kr. og sést þá árangurinn af baráttu hæstv. ríkisstj. við dýrtíðina. Það er einkennandi, að árangurinn er svo stórkostlega hækkað vöruverð. Hins vegar er svo með löggjöf lækkað kauplaunþeganna með bindingu vísitölunnar. Og það verður ekki annað sagt en að þetta frv., sem hér er til umræðu, gangi í sömu átt og áður hvað þessa stefnu ríkisstj. snertir.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. En þar sem það hefur verið látið í veðri vaka af ríkisstj. og málgögnum hennar, að þessar ráðstafanir þurfi að gera til að bjarga atvinnuvegunum og fyrst og fremst vélbátaútveginum, þá get ég ekki stillt mig um að benda á, að það virðist hafa verið lögð áherzla á að móta umræður um þetta mál svo, að allar þessar álögur séu nauðsynlegar til þess að bjarga þessum vesalings atvinnuvegi. Einkum kemur þessi tilhneiging greinilega fram í Vísi frá í dag. Ríkisstj. hefur ákveðið að hlaupa undir bagga með vélbátaútveginum, og í því augnamiði þykist hún verða að afla 70 millj. kr. með nýjum álögum á ári. Og í þessu sambandi er lögð áherzla á það, hve mikill ómagi vesalings bátaútvegurinn sé á landslýðnum og honum verði ekki bjargað nema með „drastískum“ aðgerðum. Nú er þetta hins vegar gersamlega rangt. Sú fjárhagslega aðstoð, sem veita á bátaútveginum, er aðeins lítill hluti af þeirri upphæð, sem áætlað er að taka af landslýðnum með frv. Hæstv. fjmrh. hefur a.m.k. áætlað, að ekki þurfi nema 14–15 millj. kr. til að standa undir þeirri ábyrgð, sem í ár var tekin á fiskinum. Í umr. í Nd. hefur því verið haldið fram með sterkum rökum, að ekki sé ólíklegt, að þessi upphæð yrði ca. 10 millj. kr. Hæstv. ráðh. hefur auk þess viðurkennt, að 14–15 millj. kr. áætlunin hafi verið gerð áður en samið var um Marshallsöluna, og hann hefur ábyggilega reiknað með að verðbæta það, sem þá var eftir af frosna fiskinum, en það þurfti svo ekki að gera, þegar til kom. En hvor talan, sem rétt er, — 10 eða 14 millj., er það þó tiltölulega lítill hluti af þeim 70 milljónum, sem í ráði er að taka af landsmönnum með þessu frv. .... Ég er að tala um umr. almennt og málgögn hæstv. ríkisstj. og var að lesa úr einu áðan. En ég vil mótmæla því, að verið sé að gera þessar ráðstafanir til að bjarga útgerðinni, hér er fyrst og fremst um almenna tekjuöflun fyrir ríkissjóð að ræða. Bátaútvegurinn þarf nokkra aðstoð, og hún er að nokkru veitt í frv., og á ég þar fyrst og fremst við I. kaflann. Og það er nauðsynleg aðstoð, sem vélbátaútvegurinn verður að fá til þess að geta starfað, einkum með tilliti til vinnuafls. Sósfl. hefur alltaf staðið að slíkum málum, þegar þau hafa komið fram, og lagt fram frv. um þessi efni. Það, sem við höfum einkum að athuga við þetta frv. er, að of skammt sé gengið með ábyrgðinni, og að hún sé ekki nægilega há, 65 aurar, eins og verið hefur tvö undanfarin ár. Þetta er ekki nægilegt fyrir vélbátana, en að sjálfsögðu má deila um, hve há hún skuli vera. Útvegsmenn vilja hana 88 aura og sósíalistar 70 aura í stað 65 aura. Nú mun ríkisstj. hafa fengið nokkra vitneskju um það, eftir að frv. kom fram, að útvegsmenn eru fyllilega þeirrar skoðunar, að þetta muni ekki nægja, og að nokkur tvísýna sé á, hvort útgerðin muni fara af stað, verði þetta 65 aura verð lögbundið. því var sú breyting gerð á frv. á síðustu stundu í Nd., sem hæstv. sjútvmrh. nú hefur lýst, að til viðbótar við 65 aura ábyrgðina sé nú ríkisstj. heimilað að verja allt að 5 millj. kr. til lækkunar á framleiðslu sjávarafurða. Ef fallizt hefði verið á tillögur sósíalista um 70 aura ábyrgðina, hefði sá mismunur orðið 61/2 millj. kr. Það hefði sem sé kostað ríkissjóð 61/2 millj. kr., ef farið hefði verið eftir till. sósíalista. En nú hefur ríkisstj. eftir samningana við útvegsmenn ákveðið að heimila 5 millj. kr. aukaframlag. Það, sem á milli ber, er því aðeins 11/2 millj. kr., eða einber hégómi. Það getur því ekki verið um það að ræða, þegar hæstv. ríkisstj. vildi ekki hækka ábyrgðarverðið um 5 aura, heldur eitthvað annað. Það er nokkuð auðséð, að það er handhægara fyrir hæstv. ríkisstj. að hafa þessa heimild, 5 millj. kr., sem hún getur ráðstafað að vild, þar sem í lögum felast engin ákvæði um, hvernig þeim skuli varið. Það er óvenjulegt, að Alþ. gefi slíka heimild, þar sem ekkert liggur fyrir um það, hvernig skipt skuli. Það hefði verið miklu sæmra og þinglegra, þegar hæstv. ríkisstj. sá, að útgerðarmenn vildu ekki fallast á þetta verð og hún varð að hækka upphæðina um 5 millj., að hækka ábyrgðarverðið í 70 aura, eins og sósíalistar höfðu lagt til. En svo er vert að minna á annað í þessu sambandi, að jafnvel þótt ríkissjóður hafi orðið að taka á sig nokkrar greiðslur fyrir útgerðina, þá hefði verið hægt að komast hjá þeim, ef afurðasalan hefði verið öðruvísi. Því hefur verið haldið fram, að hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir sjávarafurðir og létta þannig þessari upphæð af ríkissjóði, og um leið hefði útveginum verið tryggt, að hann gæti sjálfur staðið undir sér.

Á síðasta þingi fluttu sósíalistar frv., sem stefndi að því að lækka kostnað á meða1bát um 50–80 þús. kr., og hefði það verið nægilegt til þess, að útgerðin hefði verið fjárhagslega tryggð, og um leið létt verulega á ríkissjóði. Sósfl. hefur enn lagt frv. fram, en í fyrra vildi hæstv. ríkisstj. ekki líta við því og svo fer sennilega einnig nú. En hún getur þá sjálfri sér um kennt, ef útgjöldin verða hærri, en efni standa til. Sósfl. hefur bent á, að hægt er að lækka framleiðslukostnaðinn, þannig að bátaútvegurinn geti komizt af án aðstoðar ríkissjóðs, sem nú er talið nauðsynlegt.

Og það er leiðin, sem fara á. Í þessu frv. eru fleiri ráðstafanir en þessi ábyrgð, sem taldar eru mikils virði. II. kaflinn fjallar um aðstoð til síldarútvegsmanna. í þessum kafla er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé gefin heimild til að gefa þeim útgerðarmönnum, sem síldveiðar hafa stundað síðan 1945 og orðið hafa fyrir skakkaföllum, upp skuldir, þ.e. að gefa þeim upp bráðabirgðalán, sem ríkið veitti 1945 og 1947 og sjóveðskröfur, sem innleystar verði eftir heimild á Alþ. nýlega. Upphæð þessi mun nema um 15–16 millj. kr. Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að minnast á, hvernig ríkisvaldið hefur komið fram gegn síldarútvegsmönnum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvernig ríkisstj. hefur hagað sölu á afurðum þeirra síðan hæstv. núverandi ríkisstj. tók við. Það vita allir, 8ð síldarlýsið er ein útgengilegasta varan, sem við Íslendingar höfum, og er bókstaflega slegizt um að fá hana keypta. Þessa vöru hefur hæstv. ríkisstj. selt lægra verði, en hægt var að fá. Tonnið var selt á ca. 95 pund, þegar frjálst verð á tonninu var ca. 130 pund. Með þessu móti hefur ríkisstj. tekið af síldarútvegsmönnum um 900 kr. af hverju tonni, sem út er flutt. Framleiðslan 1946 og 1947 mun hafa verið um 45–50 þús. tonn hvort árið. Ég veit ekki nákvæmlega um framleiðsluna á þessu ári, en í september var búið að flytja út um 45 þús. tonn, — ég veit ekki nákvæmlega, hve mikið hefur þá verið eftir, en þykir sennilegt, að það hafi verið um 5 þús. tonn. Þetta þýðir, að ríkisstj. hefur tekið 4550 millj. kr. af síldarútvegsmönnum, sem hún hefur síðan ráðstafað til að bæta aðra vöru til að firra ríkissjóð ábyrgð gagnvart öðrum. Eða með öðrum orðum, þegar verið er að tala um, að gefa eigi síldarútvegsmönnum 15–16 millj. kr., þá er verið að skila þeim aftur nokkrum hluta þess, sem þeir áttu, eða verið að láta þá hafa fé til baka, sem þeir siðferðislega eiga hjá ríkissjóði, eða um 1/3 hluta þess, sem af þeim var haft með þeim ráðstöfunum, sem ég nefndi áðan. Það er eftirgjöfin! En það er ekki gert án skilyrða. Í 13. gr. er talað um skilyrði þau, sem fullnægja þarf til þess að fá eftirgjöf, skilyrði til að fá aftur sína eigin peninga. Fyrsta skilyrðið er, að útgerðarmaður sé vel hæfur að dómi skilanefndar. Ekki er gott að vita, hvaða eiginleika hann þarf að hafa til að bera til að njóta þessara hlunninda. Varla þeir, sem eru ábyrgðarlausir, eins og sagt er um stjórnarandstöðuna, sem svo sterk orð eru höfð um. Ef útgerðarmenn eru stjórnarandstæðingar, fá þeir því varla eftirgjöf. Í 4. tölulið þessarar gr. er sett sem skilyrði, að útgerðarmaður fái nægilegan afslátt, eins og stóð í frv., hjá öðrum lánardrottnum sínum. Ef það ekki tækist, átti að vera heimild til að taka útgerðarmanninn til lögbundinna skuldaskila. (Fjmrh.: Þeir verða að óska þess sjálfir.) Já, því var breytt til batnaðar, svo að nú er það ekki hægt, nema þeir óski þess sjálfir. En ef þeir óska ekki eftir slíkri gjaldþrotameðferð, verða þeir ekki aðnjótandi hlunnindanna. Athuga verður við skuldaskilin, að samkv. 18. gr., áður 17. gr., ná skuldaskilin ekki yfir skuldir, sem tryggðar eru með veði, eins og segir í 5. tölulið. Það þýðir, að bankarnir eiga ekki að gefa eftir sínar skuldir. Það, sem hæstv. ríkisstj. virðist vera að seilast eftir með frv.þessu, er að þvinga fram eftirgjöf á lausaskuldum bátaútvegsins, þvinga fram vanskil við þá, sem bezt hafa treyst útgerðarmönnunum og ekki heimtað tryggingu. Það virðist vera markmið hæstv. ríkisstj. með kafla þessum eins og hann er byggður upp. Nú, það virðist vera í samræmi við skoðun og túlkun stj., sem kom fram í sambandi við annað frv. hér nýlega, sem var afgreitt og er orðið að lögum, þar sem haldið var til streitu, að gefinn yrði gjaldfrestur um ákveðinn tíma á lausaskuldum útgerðarmanna til að reyna að pína fram eftirgjafir á þeim hjá þeim aðilum, sem útgerðarmönnum er nauðsynlegt að hafa góð samskipti við. Ef útgerðarmenn glata trausti þessara aðila, eru miklir erfiðleikar fram undan fyrir útgerðina í landinu, og það er mjög hætt við, að svo verði vegna þessara aðgerða. Ég álít, að sú hjálp, sem talin er felast í II. kafla þessa frv., geti verið mjög hæpin, enda er vitað, að sá kafli er settur inn án nokkurs samráðs við samtök útvegsmanna, meira að segja þvert ofan í samþykktir samtaka þeirra á undanfarandi fundum og þingum þeirra, og fer ekki hjá því, að stj. sé kunnugt um þær samþykktir, enda mun það fyllilega hafa komið í ljós, eftir að farið var að ræða þetta frv. hér í þinginu, að útvegsmenn hafi látið til sín heyra, bæði út af fyrsta og öðrum kaflanum, og hefur það orðið til þess, að stj. hefur þó orðið að gera nokkrar breytingar á frv. síðan það kom fram, og er þó ekki langt síðan.

Ég álít, að fiskábyrgðin sé ófullnægjandi og að sú aðstoð, sem talin er í II. kafla, sé enn þá hæpnari og að það hefði þurft allt aðrar aðferðir til úrbóta. Ég álít réttmætt, að síldarútvegsmenn hefðu fengið eftirgefin þau kreppulán, sem þeir eru taldir skulda ríkinu, það er raunverulega siðferðisleg skylda, og þá hefði ekki þurft skuldaskil þau, sem um ræðir í þessum kafla. Hins vegar hefur Sósfl. lagt fram sitt frv. um þetta efni, og bent á sínar leiðir, sem koma útvegsmönnum og útgerðinni til hjálpar í raun og veru. Í fyrsta lagi er þar gert ráð fyrir hærra fiskábyrgðarverði, eins og ég hef minnzt á. Önnur aðaltillaga Sósfl. er sú, að útvegsmenn fái nokkurn hluta þess gjaldeyris, er þeir afla; til eigin ráðstöfunar, en eins og kunnugt er, þá eru fiskafurðir og fiskur mjög mikill hluti af allri útflutningsframleiðslu landsmanna. Ég heyrði hv. þm. Ísaf. nýlega segja það í hv. Nd., og hann er manna kunnugastur þessum málum, að útflutningsverðmæti það, sem bátaútvegurinn skapar, væru þrír fjórðu hlutar af öllum útflutningstekjum þjóðarinnar. En jafnvel þó að svo væri ekki, þá er hitt þó staðreynd, að hér er um verulegan hluta af gjaldeyristekjum þjóðarinnar að ræða. Það virðist því engin fjarstæða, að útvegsmenn fái a.m.k. nokkurn hluta af þessum gjaldeyristekjum til ráðstöfunar, það gæti verið þeim mjög verðmæt aðstoð í þeim þrengingum, sem þeir eiga nú í og m.a. eru kallaðar yfir þá af ríkinu sjálfu. í fyrsta lagi gætu útvegsmenn notað þann gjaldeyri, sem í þeirra hlut kæmi, til að kaupa nauðsynjavörur til útgerðarinnar, og þá fyrír mun lægra verð en ella, og þannig sparað rekstrarútgjöld sín að verulegu leyti. Í öðru lagi er svo ráð fyrir gert, að þeir megi nota nokkurn hluta af þeim gjaldeyri, sem þeir fá til umráða, til að kaupa aðrar vörur, en beinlínis þarf til atvinnurekstrarins og njóta hagnaðarins af sölu þeirra, og er það auðvitað bundið því skilyrði, að innflutningsyfirvöldin leyfi það. Munurinn er þá sá frá því, sem er, að útvegsmönnum er gefinn kostur á nokkru af þeim hagnaði, sem aðrir, þ.e. heildsalarnir, fá nú. Og þegar athugað er, hve gífurlegur gróði er að ýmiss konar innflutningi og að sá gróði rennur í vasa auðugustu manna þjóðarinnar, en ekki til þeirra, sem skapa mest af gjaldeyrinum, þá sýnist ekki óeðlilegt að aðstoða aðþrengda útvegsmenn í þessu formi, taka nokkurn hluta gjaldeyrisins úr vörzlu heildsalanna og fá hann útgerðarmönnum í hendur. Ég held, að það yrði ekki illa séð meðal alþýðu manna, þótt ofur lítill spónn væri tekinn úr aski heildsalanna og fenginn útvegsmönnum, sem mest hafa til matarins unnið. Í þriðja lagi hefðu útvegsmenn með þessum aukagjaldeyri sömu möguleika og stj. er nú að reyna að notfæra sér til að selja þennan gjaldeyri svo að segja á svörtum markaði. Það er að vísu álitamál, hvort slíkt er heilbrigt yfirleitt, en það er a.m.k. ekki vítaverðara af útvegsmönnum en ríkisstj.; sbr. t.d. 29. gr þessa frv. Með þessu frv. er stj. komin inn á þá braut að selja gjaldeyri til ákveðinna nota á svartamarkaðsverði, það þarf að greiða allt að tvöfalt verð fyrir gjaldeyrinn, svo að hér er raunverulega ekki um annað en svartamarkaðsverð að ræða. En þó að þessi leið væri ekki æskilegust til aðstoðar útvegsmönnum í erfiðleikum þeirra, tel ég það a.m.k. ekki vítaverðara að leyfa þeim að fara hana en að stj. sjálf skuli lögleiða svartamarkaðsverð. En það, sem við sósíalistar leggjum áherzluna á til aðstoðar útvegsmönnum auk þess, er ég hef nefnt um gjaldeyrinn, er það, að komið verði á verulegum sparnaði á rekstrarútgjöldum bátanna. Það væri hægt að spara 50–60 þús. kr. á bát, og þar með væri í flestum tilfellum komið í veg fyrir, að þeir væru reknir með halla, og er þessu lýst með rökum í tillögum okkar sósíalista. Í öðru lagi sé farið inn á þetta nýmæli, að veita útvegsmönnum hlutdeild í ráðstöfun gjaldeyrisins, og hagnast á því beint og óbeint. (Fjmrh.: Þessu var ég að halda fram í fjárlagaræðu minni.) Þá hefur hæstv. fjmrh. horfið frá því. Þær hugmyndir, sem hann mun þá hafa verið að tæpa á, voru óskýrar og allt aðrar en hugmyndir okkar sósíalista með þessu. Með okkar tillögum er verið að tryggja afkomu bátaútvegsins á raunverulegan hátt. Ríkisstj. þarf ekki að úthluta styrkjum handa útvegsmönnum, heldur er það hennar hlutverk að koma þessum mikilvægasta atvinnuvegi landsins á heilbrigðan og rekstrarhæfan grundvöll, og það er það, sem útgerðarmenn vilja. Þótt hugmyndir manna hafi kannske verið meira eða minna á reiki um það, hvernig að þessu ætti að fara, þá hefur þetta verið grundvallarsjónarmið útgerðarmanna.

Sósfl. hefur að íhuguðu máli lagt fram sínar tillögur í þessu efni, þær tillögur, sem hann telur heilbrigðastar og happadrýgstar. Og þær eru áreiðanlega haldbetri en allar tillögur þessarar stj. fyrr og nú í þessum efnum, allar tillögur hennar, sem hér hafa verið til umræðu eða afgreiddar.