28.01.1949
Neðri deild: 54. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (3624)

44. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef hlustað með ánægju á þá skýrslu, sem flutt hefur verið af flm. þessa máls, um þjóðgarðinn og verndun hans, en hins vegar er ég alveg á móti því, að Alþ. setji lög, sem heimila innflutning, er fjárhagsráð og viðskiptan. hafa synjað um. Í fyrsta lagi er það í beinni andstöðu við þá ákvörðun Alþ. að þessar stofnanir skuli sjá um þessi mál, og svo í öðru lagi gæti það leitt til þess, að mikil brögð yrðu að því, að óánægðir menn, sem ekki fengju leyfi hjá viðkomandi stofnunum, færu að leita til einstakra þm. og biðja þá að flytja frv. um slík leyfi, en slíkt væri varla æskilegt.

Út af þessu erindi 5. þm. Reykv. við umræddar stofnanir og þeirri synjun, sem hann hefur ekki viljað sætta sig við, er rétt að taka það fram, að þessi ráð og nefndir hafa vissar reglur til að fara eftir, og í sambandi við þetta mál hefur viðskiptanefnd það sér til afsökunar, að á innflutningsáætlun ársins var enginn gjaldeyrir ætlaður fyrir jeppabifreiðum, og ef n. hefði veitt leyfi fyrir einni bifreið, þá voru fjöldamargir aðrir, sem áttu eins mikinn rétt til að fá bifreiðar og sú stofnun, sem hér um ræðir. Nú horfir þetta mál allt öðruvísi við, því að á þessu ári er gert ráð fyrir að verja 3 millj. kr. í þessu skyni, og þar af leiðandi er það misskilningur hjá flm., að það sé þýðingarlaust að vísa þessu máli til ríkisstj. nú, þó að forsrh. hafi ekki getað leyst það á síðasta ári.

Þjóðgarðurinn er alls góðs maklegur, enda hefur enginn mótmælt því hjá flm., að mikil þörf væri fyrir bifreið við vörzlu garðsins, en hitt tel ég varhugavert, að Alþ. fari að veita leyfi fyrir slíkri bifreið og brjóta með því lög, sem það hefur sjálft byggt upp. Ég held, að flm. ætti að sætta sig við, að málinu verði vísað til stj., því að nú er aðstaðan allt önnur en á síðasta ári og fullvíst, að stj. mun ekki bera hlut þjóðgarðsins fyrir borð.