09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (3642)

20. mál, skipulag kaupstaða og kauptúna

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð, þ. e. út af skipulagsnefnd ríkisins. Það hefur verið bent á það af hæstv. forsrh., að þessi embætti, sem gert er ráð fyrir, að ráði vali um menn í þessa n., séu þess eðlis, að ætla megi, að þeir menn, sem embættin skipa, hafi eitthvað til málanna að leggja, hvað skipulagið snertir, og nefndi hann í því sambandi sérstaklega embætti húsameistara ríkisins og embætti vitamálastjóra, en eins og kunnugt er, heyra hafnargerðir undir embætti vitamálastjóra. Það er alveg rétt, að hafnargerð og samband hafnarinnar við vegakerfið í bænum og bæjarskipulagið yfirleitt er ákaflega þýðingarmikið atriði í þessu máli, og verður aldrei of mikil áherzla lögð á það. En ef við ætlum að vitna til reynslunnar þarna, þá er það nú svo, að í þessari n. hefur setið vitamálastjóri, og er það hann, sem hefur með hafnarmálin að gera. Og hingað til hefur þetta verið valdanefnd, en ekki aðeins ráðgefandi n., eins og hins vegar hér er gert ráð fyrir í þessu frv. Og ef við lítum svo á árangurinn hér í Reykjavík viðkomandi skipulaginu víð höfnina, ber sá árangur fyrirkomulaginu ekki góðan vitnisburð. Það getur verið, að bæjaryfirvöld Reykjavíkur eigi einhverja sök á þessu. Ég skal ekki segja um það. En svo má heita, að það sé sambandslaust milli austurhluta og vesturhluta hafnarinnar, þannig að það þarf að fara miklar krókaleiðir frá austurhluta hafnarinnar, til þess að komast að vesturhluta hafnarinnar, sem er í byggingu. Mér finnst því ekki, að reynslan bendi á, að vitamálastjóri, hver sem hann er, hafi þarna mikil áhrif í þá átt að tengja hafnarskipulagið með eðlilegum hætti við sjálft bæjarskipulagið.

Annars sé ég ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að fara frekar út í þetta. En ég vil ítreka þetta: Væri ekki eðlilegra að fela t. d. félagi sérfróðra manna, félagi verkfræðinga og félagi húsameistara og félagsskap annarra sérfróðra manna á þessu sviði að tilnefna menn í þessa n. heldur en að binda þetta við ákveðin embætti ?