09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (3644)

20. mál, skipulag kaupstaða og kauptúna

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Mér dettur ekki í hug að vefengja það, sem hæstv. samgmrh. sagði, að bæjarstjórn Reykjavíkur eða hafnarnefnd hefði á sínum tíma farið fram á, að skipulagsn. hefði ekki afskipti af hafnarskipulaginu í Reykjavík. Hitt skil ég ekki, hvernig hægt var að verða við þeirri ósk. Mér skilst, að skipulagsn. hafi borið að gera skipulagsuppdrætti að Reykjavíkurbæ, eins og öðrum bæjum, og þá m. a. að skipulagi við höfnina og því, hvernig hafnarskipunin er tengd við sjálft skipulag bæjarins.