13.12.1948
Neðri deild: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (3648)

96. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Það orkar ekki tvímælis að löggjöf í þessu landi varðandi aðbúnað fyrir vinnandi menn er í hinni megnustu óreiðu. Það er því ekki óeðlilegt, að menn reki augun í það, hversu mikið vantar á það, að verkamönnum, sjómönnum og öðrum vinnandi mönnum sé sköpuð aðstaða til að fyrirbyggja slys á vinnustöðum, enda hafa slík slys verið tiltölulega mörg hér á landi á vinnustöðum, miðað við það, að í mörgum tilfellum hafa menn, sem fyrir þeim hafa orðið, verið við tæki, sem lítil slysahætta stafar af. Það var með þetta fyrir augum, að flutt var 1946 og aftur 1947 frv. um öryggi verkamanna við vinnu. Sömuleiðis var af mér flutt þáltill. 1947 um að skipa nefnd til þess að gera undirbúning að breyt. á lögum og reglugerðum um eftirlit með verksmiðjum og vélum. Var hún samþykkt. Skipaði hæstv. samgmrh. síðan þá nefnd, sem þar var gert ráð fyrir í þál.n. hefur nú skilað áliti sínu í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. — Ég fagna því mjög, hve þessi n. í sameiningu hefur unnið vel að þessu máli. Þetta frv. er mjög ýtarlegt og gripur inn á flesta þá staði, þar sem helzt var þörf á frekari öryggisákvæðum varðandi vinnu. — Það væri freistandi að fara nokkuð yfir þetta frv. og taka það lið fyrir lið og ræða það, en ég mun ekki gera það við 1. umr. þessa máls. En ég vil aðeins nota tækifærið og þakka þeim mönnum, sem í n. þeirri hafa starfað, sem undirbúið hefur þetta frv., og sömuleiðis hæstv. samgmrh. fyrir val á þessum mönnum, sem hefur tekizt mjög vel, og láta í ljós mikla ánægju yfir því, að þetta frv. er fram komið, sem í heild er til mikilla bóta frá gildandi löggjöf. Hins vegar er það svo, eins og segja má um öll mannanna verk, að ýmsir gallar eru á því, sem væntanlega verður þá bætt úr í meðferð málsins.