22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (3780)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 1. landsk. virðist nú hafa einkennilega afstöðu í þessu máli, því að hann hefur frá upphafi lýst sig algerlega móti öllum tilgangi frv., og er vikanlegt, að hans tilgangur með því að biðja um, að málinu sé frestað, er enginn annar en sá að eyðileggja það. Að því er snertir brtt., sem hann talaði um, þá hefur hann ekki boðað hana, heldur hv. 7. landsk. þm., og það er mjög langt síðan. Og ég hef margsinnis gengið eftir því við þann hv. þm., að sú till. verði lögð fram. Og ég hef nú í seinni tíð beðið um frestun á málinu, af því að þessi viðkomandi hv. þm. var ekki búinn að leggja þessa brtt. fram. Ég bað um frestun á þessu máli, meðan hæstv. dómsmrh. var í utanför. En síðar bað ég um frestun einmitt af því að hv. 7. landsk. þm. var ekki búinn að leggja fram brtt., sem hann hafði boðað. Hann lofaði mér í hvort tveggja skiptið, sem ég gerði þetta fyrir hann, að hann skyldi koma með þessa brtt. Hún er ekki komin fram enn. Ég skal ekki segja það, hve mikils virði það er, að ríkisstj. leggur áherzlu á, að málið sé ekki tafið að nauðsynjalausu. En ég sé ekki annað en að það mætti vel ganga frá þessu máli nú. Ég get gefið þá yfirlýsingu gagnvart 5. gr., að það er alls ekki til þess hugsað, að þessi ráðsmaður ríkisins skipti sér af daglaunafólki, heldur fastlaunuðu fólki hjá ríkisstofnunum.

Ég harma það, að hv. 7. landsk. þm., sem vikum saman er búið að bíða eftir brtt. frá við þetta mál, skuli hvorki hafa komið með þessa brtt. fram né er heldur mættur hér á þessum fundi. Menn geta haft misjafnar skoðanir um mál þetta sem önnur. En ég vil, að úr því sé skorið, hvort menn vilja þetta mál fram eða ekki. Ég legg svo afgreiðslu þessa máls nú á vald hæstv. forseta. Hann hefur heyrt mínar óskir, og hann hefur heyrt það, sem komið hefur fram frá hv. 1. landsk. þm. og hv. 7. landsk. þm.