10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (3816)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef flutt hér brtt. við þetta frv. á þskj. 647, og fjallar hún um það að færa 2. gr. frv. í sama horf og það var upphaflega, þegar hæstv. ríkisstj. lagði frv. fyrir þingið, þannig að sá embættismaður, sem ráðgert er, að verði skipaður, sé strax skipaður í það embætti og hafi sömu laun og skrifstofustjórar í stjórnarráðinu, eins og þar var gert ráð fyrir. Ég lít svo á, að það sé annaðhvort að stofna ekkert slíkt embætti sem hér er verið að ræða um eða þá að sá maður, sem þar er um að ræða, hafi fasta aðstöðu, sé fastur embættismaður og sem allra óháðastur hinum pólitísku sveiflum og hafi sem sterkasta aðstöðu til þessa eftirlits, sem honum er ætlað.

Það mun hafa verið árið 1934 eða 1935, að það voru samþ. hér l. á Alþingi um eftirlit með opinberum rekstri, og það var í því formi, að sett voru upp þrjú ráð, sem skipuð voru af öllum flokkum, og milli þeirra skipt ríkisstofnunum til eftirlits. Þetta stóð nokkur ár, en var svo afnumið og þótti hafa gefizt miður vel. Það kom í ljós, að þessi eftirlitsráð höfðu talsverðan kostnað í för með sér, en það sýndi sig, að ekki hafðist eins mikið upp úr starfi þeirra til athugunar og leiðréttingar á þeim misfellum, sem áttu sér stað, eins og til var ætlazt. Það var að sjálfsögðu mjög eðlilegt, að þessi skipun væri með öllu óheppileg, vegna þess að þessi ráð voru skipuð pólitískum fulltrúum og höfðu þess vegna mjög veika aðstöðu til að grípa á þeim hlutum, sem þar þurfti að fjalla um.

Ég held, að það hafi verið á þjóðstjórnarárunum, líklega árið 1940, að ég stakk upp á því við þáverandi forsrh., Hermann Jónasson, að við þyrftum að fá einn fastan starfsmann, er hefði eftirlit með því, að þeir menn væru látnir fara úr þjónustu ríkisins, sem sinntu ekki störfum sínum eins og vera bæri. Þessi hæstv. ráðh. tók þessari málaleitun vel og sagðist skyldu skipa mann í þetta starf, ef við gætum fengið til þess ákveðinn mann, sem við töluðum um. Þessi maður fékkst ekki, og varð ekkert úr þessu. Ég leit svo á og álít, að það geti verið að nokkru leyti enn, að sá maður, sem átti að hafa þetta starf með höndum, ætti jafnframt að vera skrifstofustjóri og formaður í endurskoðunardeild stjórnarráðsins. Nú var ekki að því horfið, og þeirri deild hefur verið falin fyrst og fremst töluleg endurskoðun allra reikninga ríkisins og stofnana þess.

Nú er það vitaður hlutur, að síðan þetta gerðist, á síðustu 9 árum, hefur ríkisstofnunum og fyrirtækjum verið fjölgað um fleiri tugi. Það hafa verið ráðnir tugir, ef ekki hundruð af nýjum starfsmönnum til allra þeirra stofnana, sem síðan hafa verið settar á fót. Reynslan hefur orðið sú, eins og nýlega hefur verið upplýst í umr. í sambandi við ríkisreikninginn, að sú stofnun, sem hefur með það að gera að endurskoða alla þessa reikninga, er mörgum árum á eftir tímanum, og það svo mörgum árum, að við yfirskoðunarmenn landsreikningsins höfum orðið að hlaupa fram fyrir, þó að við séum líka mörgum árum á eftir tímanum. Við teljum það skyldu okkar að hlaupa ekki langt fram fyrir endurskoðendur stjórnarráðsins varðandi einstakar stofnanir. Með þessum hætti verður endurskoðunarstarfið að miklu minni notum, en til er ætlazt og þarf að vera.

Ástæðan til þess, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, var lagt fram, er sú, að 1947 skipaði hæstv. ríkisstj. n. manna, sem kölluð var sparnaðarnefnd, og voru í henni skrifstofustjórar stjórnarráðsins, aðalendurskoðandi ríkisins og ríkisbókari. Ein afleiðingin af starfi þessarar n. varð það frv., sem hér liggur fyrir um ráðsmann ríkisins. Og ég get vel hugsað mér, að ef í þetta fengist reglulega duglegur maður, sem væri kunnugur starfsemi ríkisins og ríkisstofnana og yfirleitt, hvernig heppilegast er að reka skrifstofur þannig, að það sé gert á sem ódýrastan og heppilegastan hátt, þá gæti að þessu orðið mikill ávinningur, ekki einasta í starfsmannahaldi, heldur líka að reksturinn gæti orðið fullkomnari og betri. Nú er það að vissu leyti rétt, sem hv. þm. V-Húnv. tók fram að þetta eftirlit á í raun og veru að vera hjá fjmrn., og mætti segja, að ef ekki væri um að ræða nýtt fast embætti, þyrfti engin ný l. til, að fjmrh. gæti skipað slíkan mann sem hér er gert ráð fyrir. En annað mál er það, að til þess að svona maður geti haft það vald og það eftirlít og þau áhrif, sem nauðsyn ber til, þá verður þetta að vera fastur starfsmaður, fastskipaður maður, sem hefur mjög sterka aðstöðu til að beita sér og geta verið algerlega óháður pólitískum flokkum. Hluturinn er nefnilega sá, að það hefur komið ljós, einna gleggst síðan ráðh. var fjölgað svo mikið sem nú er, að fjmrh. er varnarlítill fyrir ásókn og kröfum annarra rn. eða miklu varnarminni, en þyrfti eða ætti að vera, og höfum við fyrir þessu mörg dæmi á liðnum árum. Og þegar það svo bætist við, sem við þekkjum, eins og verið hefur og ætla má, að verði framvegis, að fjmrh. eins og aðrir ráðh. er aðeins stutta stund í sínu starfi, þá lendir í miklu meiri glundroða í allri starfrækslu, en þarf og ætti að vera. Með tilliti til þessa get ég vel hugsað mér, að slíkur starfsmaður, ef val hans tekst vel, geti gert mikið gagn til sparnaðar fyrir ríkissjóð og stofnanir hans og komið í veg fyrir margvíslega þætti þeirrar spillingar, sem nú á sér stað í ríkisstofnunum og ýmsum þeim stofnunum, sem ríkið hefur á sinni könnu.

Ég held þess vegna, að hér sé um tvær leiðir að velja: annaðhvort að hafa þennan mann fastskipaðan mann, sem hafi sterka aðstöðu, skipa hann strax og láta hann hafa skrifstofustjóralaun og aðra aðstöðu, sem skrifstofustjóri hefur, eða vera ekkert að burðast með svona fyrirtæki og láta þetta frv. falla úr sögunni, daga uppi eða fella það, því að það þýðir ekkert að stofna til þessa embættis, nema maður geti gert sér von um, að það komi að því gagni, sem til er ætlazt af hæstv. fjmrh. og þeirri n., sem fyrir hans hönd hefur undirbúið málið.