11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (3829)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. nefndi nokkra starfsmenn ríkisins, sem hefðu undirbúið þær till., sem fram eru bornar í þessu stjfrv. Hann nefndi þrjá skrifstofustjóra stjórnarráðsins, ríkisbókarann og aðalendurskoðandann. Það sé fjarri mér að gera lítið úr reynslu og áliti þessara manna. En ég efast um, að hæstv. ráðh. hafi leitað álits þessara manna um till. þær, sem ég bar fram, og er þess ekki að vænta. Hæstv. ráðh sagði, að samkvæmt þeim yrði vald eftirlitsmannsins minna og starfið erfiðara. Ég mótmæli þessu. Eftir till. mínum er ekki dregið úr valdi hans. Hæstv. ráðh. sagði, að lögð hafi verið áherzla á, að hæfur maður veldist í starfið. Þannig er um þetta starf, að miklu máli skiptir, hver gegnir því. En ég verð að segja, að ég hef betri trú á þeim manni, er vill ganga hiklaust að viðfangsefnum sínum, án þess að honum sé tryggð staðan ævilangt, heldur en hinum, er vill, að honum sé tryggt embættið fyrir lífstíð eða svo lengi sem hann getur gegnt því. En sem betur fer eru margir menn, sem hugsa um annað, t. d. hæstv. fjmrh., sem er bæði ötull og starfsamur og þekktur fyrir fjármálastarfsemi sína og athafnir og hefur fengizt við margt, en aldrei verið embættismaður hjá ríkinu. Ég tel ráðh. ekki embættismenn ríkisins, því að það eru valtar stöður, eins og allir vita. Þannig mætti finna menn, sem beita sér við störf, þótt eigi sé um lífstíðarembætti að ræða. Hæstv. ráðh. segir, að með till. mínum sé farið inn á nýja braut. En hvað er við það að athuga? Og sízt ættu þeir menn, sem kenna sig við nýsköpun, að finna að því. Og ég gæti bent á dæmi þess, að betur hefði farið, ef svo hefði verið gert áður, að skipa menn ekki undireins í stöður, heldur ráða þá fyrst um sinn til reynslu. Ég nefni ekki dæmi, en gæti gert það.

Hæstv. fjmrh. gat þess, að undanfarið hafi í ýmsum mikilvægum málum verið gengið fram hjá fjmrh., og nefndi t. d. póststjórnina. Hins vegar gat hæstv. ráðh. þess ekki, að reynt hefði verið að fyrirbyggja slíkt eða hverjar ráðstafanir hefðu til þess verið gerðar. Hæstv. ráðh. segir, að til þessa þurfi sérstakan embættismann, er varið geti öllum tíma sínum til starfsins. Og ég vil, að ráðh. fái heimild til að ráða slíkan mann. Hv. þm. Borgf. talaði um þennan mann sem undirtyllu og hér þyrfti raunhæft eftirlit til þess að gagni kæmi. Það er ekkert dregið úr valdi þessa manns, þótt hann sé ekki skipaður né veiti forstöðu sérstakri deild. Það er eigi eins geyst riðið úr hlaði hjá mér, en valdið hið sama og í upphaflegu till. Hv. þm. Borgf. segir, að hægt sé að segja manni upp eða færa hann til, þó að hann sé skipaður. Segja má það, en slíkt er þó ekki gert fyrr en í síðustu lög, og hvenær hefur það verið gert? Hv. þm. Borgf. gat um ályktun, sem samþ. var á þ. eftir tillögum hv. fjvn. Á bak við þá samþykkt er vilji til sparnaðar. Hann segir, að enginn árangur hafi orðið af henni, fyrr en núverandi hæstv. fjmrh. tekur sig til og athugar þetta.

Um hvað er þetta frv? Það er um nýjan embættismann. Í einni sögu Halldórs Kiljans Laxness, sem ég var að lesa um daginn, stendur: „Allt verður að vera stæll“. Það er líka í stíl við allt annað, að þegar á að spara, þá koma fram till. um nýjar ríkisstofnanir og nýja embættismenn. „Allt verður að vera stæll“.