09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í C-deild Alþingistíðinda. (3901)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Ólafur Thors:

Ég þarf engu að bæta við þau rök, sem hafa verið færð fram af hendi hv. 1. flm., og hefði því ekki farið að tala hér, ef ekki hefði svo illa til tekizt, að ég varð svo slysinn; þegar ég settist í dyragáttina hér í næsta herbergi, að hv. 4. þm. Reykv. var að tala, eins og oft vill verða. Hann var að ögra okkur flm. frv., að við hefðum ekki talað í málinu, heldur hefðum við eldri og menntaðri þm. látið þennan unga 1. flm. einan vera okkar málsvara. Í þessu lýsir sér mat hv. þm. á öðrum æskumönnum en honum sjálfum. (GÞG: Ég nefndi ekki æsku í ræðunni.) Ég held, að það væri bezt fyrir hann að taka allt aftur smátt og smátt, en það væri þó enn þá betra ráð fyrir hann að vera ekki símalandi. Það er nokkuð gott ráð að vera ekki alltaf að tala, þegar ekki er neitt að segja og þar að auki talað svo leiðinlega, að deildin tæmist. Þetta er sagt sem vinsamleg bending frá einum af þessum eldri mönnum, sem hann er að tala um af svo mikilli virðingu, ekki menntuðum, en einum af þeim eldri.

Ég get látið mér nægja í þessu máli þau rök, sem flutt voru fram af þessum unga manni Sjálfstfl., sem þessi ungi maður Alþfl. talaði um með svo miklu yfirlæti og kenndi hann í þeim tilgangi við æsku. Þessu litla, sem var ósvarað af því, sem hv. 4. þm. Reykv. talaði um, hefur hv. 2. þm. Skagf. gert full skil. Hann stakk svolitlum prjóni í belginn, svo að út fór allur vindurinn. Það kom mér engan veginn á óvart og þarf engum að koma á óvart, þannig eru ræður þessa hv. þm.

Mig undrar hins vegar, hvað þetta mál sætir miklum andmælum hér í d., því að þetta getur í hæsta lagi verið álitamál, hvort hér sé um réttlætismál að ræða. Ég held, að það sé ekki hægt fyrir neinn mann, sem nokkra reynslu hefur fengið í lýðræðislegum eða félagslegum efnum, að mæla gegn slíku frv. með þeim ofsa, sem hér hefur verið gert. Þeir munu sanna það, þessir hv. þm., að þeir munu síðar iðrast þessara orða sinna og skilja, að þetta er eitt af þeim málum, sem lífið ber fram til sigurs. En þeirra framkoma er ekki verri en annarra, sem gert hafa slíkt. Ég hef líka stritazt á móti málum, sem lífið hefur síðan kennt mér, að var skammsýni að vera ekki með frá öndverðu, eins og togaravökul. Þetta er ekkert einsdæmi. Menn spyrna á móti góðum málum, en það er engum til ánægju og ekki heldur til sóma.

Ég get tekið undir það, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, að ég mundi helzt kjósa, að þessi ákvæði gætu náð fram að ganga á þann hátt, að verkalýðsfélögin samþ. þetta fyrirkomulag hjá sér sjálf, og ef þetta frv. gæti orðið til þess að tryggja þessa skipan þannig eða skapa líkur fyrir því, þá yrðum við flm. ánægðir með það.

Ég stend svo við það, sem ég sagði, þegar ég greip fram í ræðu þessa hv. þm., að við meðflm. þessa frv. gerum okkur ánægða með forustu hv. 1. flm. og þurfum þess vegna engu við að bæta. Ég þarf því ekki að lengja mál mitt. Ég sé hins vegar ekki eftir því, að ég fór að gripa fram í fyrir þessum hv. þm., því að mér sýnist honum hafa runnið í skap. Það er ný hlið á honum. Það minnir mig á, að hann er karlmaður, það sýnir, að það er þó töggur í honum. Það er gleðilegt að sjá nýja hlið á mönnum, sem gefur von um, að það geti rætzt úr þeim með tímanum, þó að menn hafi ekki getað haft þær hugmyndir um þá.