21.02.1949
Neðri deild: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (4052)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1. þm. Árn. (JörB) leyft mér að flytja hér frv. um breyt. á lögum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Þetta mál liggur mjög ljóst fyrir, og tel ég ekki þörf á að fylgja því úr hlaði með mörgum orðum. Mun ég þó gera grein fyrir þeim rökum, sem að áliti okkar flm. hníga að því, að rétt sé að gera þessar breyt. á viðkomandi lögum.

Samkv. lögum falla 6 kvikmyndahús, sem nú eru rekin hér á landi, undir þetta undanþáguákvæði l. um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Í þessum sex kvikmyndahúsum eru 2.013 sæti. Tvö af þessum kvikmyndahúsum eru rekin af bæjarfélögum, en fjögur af félagasamtökum. Tvö þessara kvikmyndahúsa eru rekin hér í Rvík, en úti á landi skiptist skemmtanaskatturinn þannig, eins og hv. þm. er kunnugt, að 40% af honum renna til rekstrarsjóðs þjóðleikhússins, 10% til lestrarfélaga og kennslukvikmynda og 50‰ í hinn nýstofnaða félagsheimilasjóð. Það er auðsætt af þeim tölum, sem ég nefndi hér um sætin, sem skattfrjáls eru í kvikmyndahúsunum, að þeir aðilar, sem skatturinn rennur til, bíða mikið tjón við þessi skattfríðindi, og það er álit okkar flm., að þau séu óeðlileg. Kvikmyndahúsarekstur er yfirleitt mjög arðvænleg atvinnugrein, og þess vegna er ekki ástæða til þess að undanskilja nokkra af þeim, sem slíkan atvinnurekstur reka, greiðslu skemmtanaskattsins. Það hefur að vísu komið fram sú mótbára gegn því, að þessi fríðindi verði afnumin, að arði þessara kvikmyndahúsa, sem skattfrjáls eru, sé varið til menningarmála. Nú liggur að vísu ekki fyrir um það opinber skýrsla, að svo sé gert. En ég tel samt, að líkur séu til þess, að a. m. k. í sumum tilfellum sé það rétt, að arðinum af þessum kvikmyndahúsum, sem skattfrjáls eru, sé varið til einhvers konar menningarmála. En mér finnst, að Alþ. í þessu tilfelli eigi að meta, hvor nauðsynin sé meiri, að styrkja þessa menningarviðleitni, sem þessi skattfrjálsu kvikmyndahús kunna að standa undir, eða hins vegar þá menningarlegu nauðsyn og það menningarlega starf, sem félagsheimilasjóður fyrst og fremst á að standa undir og enn fremur þjóðleikhússjóður. En upplýsingar liggja fyrir um það, — og það er auðvelt að afla þeirra fyrir þá hv. þm., sem þurfa, — að mjög miklar líkur eru til þess, að sá síðast taldi sjóður muni ekki hrökkva til þess að standa undir rekstri þjóðleikhússins með þeim tekjum, sem hann hefur nú.

Ég þarf ekki að rökstyðja það hér, að félagsheimilasjóður á því hlutverki að gegna, sem er mjög þýðingarmikið. Og það kom greinilega fram hér á hæstv. Alþ., þegar l. um skemmtanaskatt og þjóðleikhús var breytt, að meiri hl. þm. var þeirrar skoðunar, að brýn nauðsyn væri á því að styrkja félagslegt samstarf úti í sveitum og kauptúnum landsins með því að láta þennan nýja sjóð fá verulegan hluta skemmtanaskattsins. Það er mín skoðun, að einmitt erfiðleikarnir á félagslegu samstarfi víðs vegar um land í sveitum og kauptúnum og jafnvel, kaupstöðum eigi ríkastan þátt í því að fæla fólkið, ekki sízt unga fólkið, burt úr byggðunum úti um landið, svo að það hópast saman hér í Rvík, þannig að byggðirnar úti um landið eru mergsognar að ungu fólki svo að segja um leið og það kemst á legg. Ég hygg, að þetta sé margviðurkennd staðreynd.

Árið 1948 renna 50% skemmtanaskattsins í félagsheimilasjóð, sem var stofnaður með lögum frá 1947. Allur skemmtanaskatturinn í ár má gera ráð fyrir, að nemi um það bil 2,3 millj. kr., og þar af féllu þá til félagsheimilasjóðs kr. 1.150.000,00. Það er gert ráð fyrir, að úthlutað verði í tvennu lagi tekjum sjóðsins. Á þessu fyrsta starfsári hans var úthlutað 590 þús. kr. til 25 aðila, en samt sem áður sóttu 105 aðilar um styrk úr sjóðnum. Áfallinn kostnaður við byggingar þessara 25 aðila er kr. 3.739.000,00, og 40% af þeim kostnaði yrðu um kr. 1.500.000,00, en áætlaður heildarkostnaður þessara 25 aðila er um kr. 7.578.000,00. Áætlaðar styrkþarfir til þeirra yrðu því um 3.030.000,00.

Þessar upplýsingar eru frá fræðslumálaskrifstofunni, íþróttafulltrúanum, sem er formaður stjórnar sjóðsins, að ég hygg. Ef miðað er við þá 105 aðila, sem sóttu um styrk úr félagsheimilasjóði á síðasta ári, má áætla, að heildarbyggingarkostnaður þeirra sé um 35 millj. kr., og þar í eru fólgnar umsóknir frá fjórum kaupstöðum, sem hafa undirbúið heildarfélagsheimili. En 40% af þessu, sem yrði styrkur félagsheimilasjóðs, yrði 14 millj. kr., sem sjóðurinn yrði þá að leggja fram. — Ég hygg, að þessar tölur, sem ég hef lesið hér og byggðar eru á upplýsingum frá stjórn félagsheimilasjóðs, sýni, hve örskammt möguleikar félagsheimilasjóðs nú hrökkva til þess að fullnægja þörfum í þessum efnum. Það er svo órafjarri því, að sjóðurinn hafi nægilegt bolmagn til þess, að hægt verði að koma upp svo miklu sem verulegum hluta af þeim samkomuhúsum og félagsheimilum, sem ráðagerðir eru nú um að byggja víðs vegar um land í sveitum og kauptúnum. Og ég álít, að það væri mjög óheppilegt, að það drægist mjög lengi að leysa þessa mjög aðkallandi þörf. Það er áreiðanlegur hlutur, að það er fátt, sem sogar unga fólkið úr byggðum landsins frekar til Rvíkur, en einmitt hinir miklu og fjölbreyttu möguleikar félagslegs samstarfs og skemmtanalífs, sem þar eru. Og það er ekki hægt fyrir löggjafarvaldið, þegar það hefur tök á að tryggja örari framkvæmdir í þessum efnum, sem ég hef hér að vikið, til að greiða fyrir meiri möguleikum fyrir félagslífi í byggðunum úti um landið, að láta það undir höfuð leggjast. Ég skil vel, að það koma mótbárur gegn þessu frv. frá þeim aðilum, sem njóta skattfríðinda í sambandi við skemmtanaskattinn og segjast líka vinna að framkvæmdum menningarmála, og sumir þeirra eru að því. En ég held bara, að nauðsynin sé meiri á hinn bóginn, og þess vegna hef ég ásamt hv. 1. þm. Árn. flutt þetta frv. hér. Og ég vænti, að það muni mæta sama skilningi og þær till., sem lögfestar voru á þinginu 1947 og miðuðu að skynsamlegri lausn og auknum stuðningi við þessa hlið menningarmála dreifbýlisins.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um frv. fleiri orðum, en leyfi mér að óska þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og menntmn.