01.03.1949
Neðri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (4072)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. var að undrast, að ég skyldi hafa dregið kvikmyndahúsið á Ísafirði inn í þessar umr. Sannleikurinn er nú raunar sá, að það gerði sá hv. þm. sjálfur, en að vísu af miklum misskilningi. Hann sagði, að flokkur minn á Ísafirði hefði rekið kvikmyndahúsið svo illa fyrir eina tíð, að tap hefði orðið á rekstrinum. Það er rétt, að á sínum tíma var húsakosturinn svo þröngur, um 120 sæti, að með þeim kostnaði, er síðar varð, var engin von til þess, að það gæti borið sig. Hins vegar var það ætlunin að láta skemmtanaskattinn ganga til menningarsjóðs Ísfirðinga, en það tókst ekki að sleppa við að borga skemmtanaskattinn.

Nú hefur hv. 1. flm. mjög í ummælum sínum hér blandað saman ágóða af bíórekstri og skemmtanaskatti og er alltaf að rugla um þetta, m. a. í sambandi við bíóið í Hafnarfirði, og sagði, að það væri nóg að hafa ágóðann af bíórekstri, þótt borgaður væri skemmtanaskattur. Hefur hann ekki gert sér ljóst, að það er allur munurinn, hvort skemmtanaskattur er greiddur eða ekki? Segjum, að kvikmyndahúsið í Hafnarfirði ætti að borga á milli 120 og 130 þúsund á ári í skemmtanaskatt, án þess að ég viti, hvað það yrði. Væru ekki 130 þús. kr. góð undirstaða fyrir elliheimilið þar, og væri víst, að nokkuð yrði afgangs til elliheimilisins, ef þessa upphæð yrði að greiða á ári hverju í skemmtanaskatt? Ég hygg, að það séu ekki undir 600 sæti í bæjarbíóinu í Hafnarfirði, og í kvikmyndahúsinu á Ísafirði munu vera 212 sæti, og það hefur borgað 40 þús. kr. á ári í skemmtanaskatt. Ég vil vekja athygli 1. flm. á því sérstaklega, að ef þessi upphæð hefði runnið til sjúkrahússins á Ísafirði á undanförnum árum, þá væri það í sæmilegu standi. Skemmtanaskatturinn er svo mikill, að ef ekki þyrfti að greiða hann, væri miklu meira hægt að gera og stundum ekkert hægt að gera, ef standa þarf straum af honum. Alþýðuhúsið á Ísafirði borgar t. d. 26% af brúttótekjum sínum í skemmtanaskatt.

Hv. þm. N-Ísf. vildi koma því svo fyrir, að Alþýðuflokksmenn á Ísafirði hefðu viljað misnota sér aðstöðu sína í sambandi við kvikmyndahúsíð þar. Ég vil upplýsa í því sambandi, að eftir að brann á Ísafirði, var þar ekki eftir stærra samkomuhús, en fyrir 150 manns eða svo, og var því mikil nauðsyn á að koma upp samkomuhúsi. Verkalýðsfélögin unnu að því með miklum dugnaði með hv. núverandi 3. landsk. þm. í broddi fylkingar, og unnu með þessu mikið menningarstarf. Á móti þessu samþykkti bæjarstjórnin síðar að veita þeim einkaleyfi til kvikmyndahúsrekstrar um 20 ára skeið. Enginn skyldi þó halda, að sá rekstur sé gjaldlaus. Hærra rekstrarútsvar ber ekki annað fyrirtæki á Ísafirði, kvikmyndahúsið greiðir 10–15% í rekstrarútsvar. Ég vil, að hv. 1. flm. nefni dæmi um það, að annað fyrirtæki greiði hærra útsvar á Ísafirði eða um það, að alþýðuhúsinu þar hafi á nokkurn hátt verið ívilnað í útsvarsgreiðslum. Nefni hann dæmi um það, ef hann treystir sér til.

Hv. þm. spurði, hvað verkalýðsfélögin hefðu grætt á kvikmyndahúsrekstrinum. Mér er ekki annað kunnugt en að þau borgi niður húsið, hafi útvegað sæmileg tæki, og að reksturinn sé í góðu lagi. Hins vegar lögðu félögin ekki fram mikið fé í húsið fyrst og hafa sennilega ekki haft beinar tekjur af húsinu að nokkru ráði. En þau hafa fengið vexti af því fé, sem þau lögðu fram, og látið þá ganga upp í húsið og hafa þar af leiðandi margfaldað eign sína í því.

Ég hef nú að undanförnu verið að velta því fyrir mér, hvað hafi eiginlega komið hv. þm. N-Ísf. til þess frumhlaups að flytja þetta frv. Og ef vel er að gáð, mætti ráða það af broti úr ræðu hans, að einhver velviljaður maður Alþfl. á Ísafirði hafi stungið því að honum, að alþýðuhúsið á Ísafirði borgaði ekki skemmtanaskatt af sýningum og samkomum, sem þar eru haldnar, og ágóðanum af rekstri þess væri varið til styrktar pólitískri starfsemi flokksins, og hafi þessi hv. þm. því hugsað sér að hitta þetta hús alveg sérstaklega fjárhagslega með þessu frv., eða þá öllu heldur Alþfl. á Ísafirði. Þetta má einnig ráða af grg. frv., því að þar segir, að í þeim kvikmyndahúsum, sem njóta undanþágu frá greiðslu skemmtanaskatts, séu rúmlega 2.000 sæti, og sú tala fæst ekki nema alþýðuhúsið á Ísafirði sé talið með. Eins nefndi hann í fyrstu ræðu sinni, að þessi hús væru 6 að tölu, og hann fær þau ekki upp í 6 nema telja kvikmyndahúsið á Ísafirði með, enda var hann að tæpa á því í ræðu sinni.

Hv. þm. hefur m. ö. o. hlaupið eftir gróusögu einhvers kunningja síns, sem hefur sagt honum, að alþýðuhúsið á Ísafirði borgaði ekki skemmtanaskatt. Nú upplýsti ég í fyrri ræðu minni, að það hefur alltaf borgað skemmtanaskatt og borgar hann af öllum kvikmyndasýningum og skemmtisamkomum, nema af barnaskemmtunum um jólin, sem eru ekki skemmtanaskattskyldar. Það er því algerlega úr lausu lofti gripið, að húsið sé notað án þess að greiddur sé skemmtanaskattur og að ágóðinn af rekstri þess renni til pólitískrar starfsemi. Hv. þm. hefur orðið það á að hlaupa á sig, og þetta er frumhlaupsfrv. Ég hef gert honum greiða með því að gefa þessar upplýsingar um kvikmyndahúsið á Ísafirði, en vilji hann halda áfram umr. um það, skal ég ekki skorast undan þeim. Ég satt að segja kenni í brjósti um þennan hv. þm., hann hefur gerzt ginningarfífl sér verri manna. Ég held, að honum væri gerður mestur greiði með því að láta þetta mál sofna þegar við þessa umr. Það væri að vísu leið fyrir hann að gera yfirbót, ef hann hefði vilja á því, og leiðrétta það, sem hann hefur ranglega gert. Hann var að gefa í skyn, að hann væri ásamt mér reiðubúinn til að leggja sjúkrahúsinu á Ísafirði allt lið, er hann mætti. Ef hann vildi nú leggja því til fastan tekjustofn, væri vegur til að breyta þessu frv., ef það kemst lengra, í þá átt, að þeir bæir, sem óskuðu eftir því, gætu fengið skemmtanaskatt af kvikmyndahúsum innan sinna vébanda eftirgefinn til byggingar sjúkrahúsa á hverjum stað eða til elliheimila. Og ef hv. þm. vildi nú gera svo vel og lýsa því yfir við þessa umr., að hann væri fáanlegur til ásamt mér að standa að þeirri breyt. á frv. við 2. umr., sem færi í þessa átt, þá mundi ég greiða atkv. með málinu við þessa umr. Það færi vel á, að við sameinuðumst um þetta, hann sem forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar og ég sem þm. kaupstaðarins, jafnframt því sem hv. 1. flm. fengi um leið tækifæri til að gera þetta til yfirbótar frumhlaupi sínu.