09.11.1948
Efri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í C-deild Alþingistíðinda. (4203)

57. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga o. fl.

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. 1. gr. frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 76, felur það í sér, að niður skuli falla 1. tölul. í 1. gr. l., sem samþ. voru hér á Alþ. í fyrra vetur um bráðabirgðabreytingu á nokkrum l., en þessi tölul. þeirra l. er á þá leið, að „ákvæði III. kafla l. nr. 44 1946 varðandi fjárframlög og lánveitingar af hálfu ríkissjóðs til sveitarfélaga koma því aðeins til framkvæmda, að sérstök heimild sé veitt til þess í fjárlögum hverju sinni, enda nær skylda sveitarfélaga til íbúðarhúsabygginga samkvæmt tilvitnuðum kafla laganna ekki framar en tilskilinn styrkur eða lánveiting af hálfu ríkissjóðs kemur til.“

Efni þessa máls, sem hér liggur fyrir, er það, — sem hv. þm. mun þegar ljóst, — að árið 1946 voru fyrir forgöngu þáv. ríkisstj. sett l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Í III. kafla þessara l., sem hér er sérstaklega um að ræða, voru ákvæði um það, að til þess að gera bæjar- og sveitarstjórnum kleift að útrýma heilsuspillandi íbúðum, sem vera kynnu fyrir hendi á viðkomandi stöðum, á sem stytztum tíma eða 4 árum eins og þá var talað um, þá tók ríkisvaldið á sig þá skyldu að sjá þeim sveitarfélögum, þar sem svo var ástatt, fyrir mjög hagkvæmum lánum til þess að koma fram þeim byggingum íbúða, sem til þyrfti til að útrýma þeim heilsuspillandi íbúðum, sem vera kynnu á hverjum stað. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. muni aðalatriði þeirra ákvæða, en þau voru þau, að ríkið skyldi útvega viðkomandi sveitarfélagi lán, sem næmi 75% af byggingarkostnaði þeirra íbúða, sem þar um ræðir. Það lán skyldi vera til 50 ára og með aðeins 3% vöxtum. Til viðbótar við þetta skyldi ríkið leggja fram vaxtalaust lán, sem næmi 10% af byggingarkostnaði viðkomandi íbúða. Það lán skyldi einnig vera til 50 ára og vera afborgunarlaust fyrstu 15 árin, en greiðast síðan með jöfnum greiðslum á 35 árum, og enn fremur voru í sambandi við þetta vaxtalausa lán þau ákvæði, að ef viðkomandi sveitarfélag tæki ákvarðanir um, vegna erfiðra ástæðna eiganda, að gefa eftir 15% þess byggingarkostnaðar, sem bæjarfélagið sjálft hefði lagt fram, þá hafði ríkisstj. einnig heimild til þess að gefa eftir það vaxtalausa lán, 10%, sem lánað hafði verið til þessara framkvæmda. Eins og menn sjá, er þarna um mjög hagkvæma og mikla aðstoð að ræða, sem átti að vera til þess samkvæmt tilgangi l. að gera bæjarfélögum kleift að létta af sér þeim vandræðum og í raun og veru þeirri smán, að verulegur hluti íbúa á ýmsum stöðum væri neyddur til að búa í húsnæði, sem samkvænt yfirlýstu vottorði læknis teldist til tjóns fyrir heilsu viðkomandi fólks. Það var þess vegna eðlilegt, að fólkið, sem hér átti í hlut, fátækasta fólkið á hverjum stað, sem ekki hafði bolmagn til þess að koma sér sjálft upp viðunandi húsnæði, tæki lögum þessum fagnandi, og sömuleiðis var það eðlilegt, að bæjarfélögin, þrátt fyrir það að þau hefðu ekki að eigin frumkvæði ráðizt í að útrýma þessum heilsuspillandi íbúðum, — sem þó hefði verið eðlilegt, — að þau tækju fegins hendi undir það, þegar ríkið sjálft byði fram slíka aðstoð sem hér var um að ræða til þess að útrýma þessum íbúðum. Það mun hafa orðið reyndin í mörgum bæjarfélögum, — því miður hef ég ekki í höndum skýrslur um það, ef tilskildar skýrslur um heilsuspillandi íbúðir eru fyrir hendi, — að það kemur fram um þá aðstoð, sem ríkið hefur skuldbundið sig til að láta í té samkvæmt þessum l., að það hefur farið svo, að þegar til framkvæmdanna átti að koma af hálfu ríkisvaldsins, þá hafi orðið minna úr þeim en æskilegt hefði verið og lofað var með þessum lögum. Mér er ekki nægilega vel kunnugt um það, í hve mörgum tilfellum og hve mikla aðstoð það hefur veitt á grundvelli þessara laga. Það mun vera yfirleitt miklu minna en efni stóðu til, og ríkið mun engan veginn hafa orðið við þeim óskum, sem fram komu frá bæjar- og sveitarfélögum víðs vegar á landinu. Svo líður aðeins 1 ár eftir að þau eru sett, þangað til núverandi hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir á síðasta Alþ., að í staðinn fyrir að lögð yrði enn meiri áherzla á framkvæmd laganna, þá væru sett inn í lögin ný ákvæði um það, að þessi III. kafli l. um aðstoð ríkisins við íbúðarbyggingar bæjar- og sveitarfélaga kæmi ekki til framkvæmda nema þannig, að teknar væru sérstakar ákvarðanir um það í hvert sinn, þ. e. a. s. að Alþ. veitti til þess fé á fjárlögum hvert ár fyrir sig. Þetta var, eins og ég tók fram áður, samþ. á síðasta Alþ., og þar sem í fjárl. voru ekki settar neinar fjárveitingar í þessu skyni, hefur hæstv. ríkisstj. ekki talið sér skylt að veita neina slíka aðstoð, og nú til viðbótar þessu hefur verið lagt fram fjárlagafrv. fyrir næsta ár, og þar er heldur ekki tekin upp nein fjárveiting til þeirra framkvæmda, sem hér er um að ræða. Ég geri ráð fyrir, að það beri að skilja þannig, að ríkisstj. ætlist ekki til, að neinar slíkar ákvarðanir verði teknar við setningu fjárl. fyrir næsta ár, sem þýðir það, að þessi kafli l. komi ekki að neinu leyti til framkvæmda nú á næsta ári.

Þegar þessi bráðabirgðabreyting nokkurra l. var samþ. í fyrra, beitti Sósfl. sér eindregið á móti því, að þetta atriði yrði samþ. og III. kafli l. felldur úr gildi. Sósfl. taldi, að það hefði verið fullkomin nauðsyn fyrir hendi, þegar lögin voru sett 1946, og að sú nauðsyn hefði ekki verið minni á s. l. ári, þegar flutt var till. um að fella þennan kafla úr gildi, og hann barðist gegn því, að það væri gert. Ég álít, að sú nauðsyn, sem var fyrir hendi um þetta árið 1946, hafi einnig verið það 1947 og sé enn þá fyrir hendi. Það er enn þá mikill fjöldi íbúða á landinu, sem eru mjög heilsuspillandi og gera það að verkum, að bæði frá heilbrigðislegu sjónarmiði og siðferðislegu sjónarmiði er ekki verjandi að, að engu séu gerðar þær ráðstafanir, sem búið er að lögbjóða til þess að vinna bug á þeim. Ég hef þess vegna séð ástæðu til þess að gera enn þá eina tilraun til þess að fá þessu síðasta ákvæði breytt þannig, að felldur sé niður þessi tilgreindi liður, sem mundi þýða það, að aftur kæmi í fullt gildi ákvæði III. kafla l. frá 1946 um aðstoð ríkisins við byggingu íbúðanna. Ég vildi freista þess að flytja þetta, þar sem snúið var aftur á þeirri braut, sem þá var ákveðið að ganga. Ég skal nú ekki segja, hversu mikil von sé til, að þetta fáist nú samþ. Hér sitja nú á Alþ. allir sömu mennirnir sem felldu ákvæðið í fyrra; en raunar eru það sömu menn og samþykktu það 1946 — og úr því að þeir gátu þá snúizt algerlega á einu ári, er ef til vill ekki vonlaust um að þeim snúist enn hugur og vildu nú stuðla að því, að ákvæðið frá 1946 öðlist aftur gildi og framkvæmdir verði með meiri snerpu en þær voru þann skamma tíma, sem ákvæðið var í lögum.

Í 2. gr. frv. er farið fram á, að 5. tölul. í sömu gr. verði felldur niður. En svo er mál með vexti, að 1939 voru sett lög um gjald af innlendum tollvörutegundum, og ná þau til alls konar vörutegunda, sem ýmsir telja ekki svo nauðsynlegar, að ekki sé rétt að hafa á þeim nokkuð háan toll. Ég álít þó sumar þessar vörutegundir þess eðlis, að rétt sé að tryggja, að almenningur geti neytt þeirra. Hins vegar er skattur á þeim svo hár, að það nær engri átt. Til dæmis um þessar vörur skal ég taka suðusúkkulaði. Má vel vera, að sumir telji það óhófsvöru, en ég álít, að svo sé ekki, enda mun það víðast hvar talið til nauðsynlegra fæðutegunda. Ég álít því ekki rétt að hindra almenning frá því að neyta þessarar vörutegundar. En til þess að sýna fram á, hvernig ríkisvaldið leggur allt kapp á að hækka þessa vöru í verði, skal ég rekja hækkanirnar, sem orðið hafa á henni undanfarin ár. 1939 var lögfest tollahækkun á þessari vörutegund 1.05 kr. á kg. Með lögum nr. 121 frá 1947 var þetta hækkað um 50% og tollurinn þá kominn upp í 1,58 kr. Síðan er í fyrra með lögum nr. 18 1948 gerð sú breyting á, að gjaldið hækki um 100% og er þá tollurinn af 1 kg orðinn 3.16 kr. Nú þótti þetta ekki nóg, og enn er samþ., að í stað 100% hækkunar komi 200%. En þá er tollurinn á 1 kg af suðusúkkulaði orðinn nærri 5 kr. Og á sumum vörutegundum er hann nærri helmingi hærri.

Þetta dæmi ætti að nægja til að sýna, að ríkið er komið þarna út í hreinar öfgar, og það er ástæða til að fella a. m. k. niður síðustu hækkunina. — Það kann að vera, ef farið yrði að ræða um tollaálagningu almennt, að margt kæmi í ljós, sem meiri ástæða væri til að breyta, en réttmæti þessarar breytingar finnst mér eigi að síður augljóst. Hins vegar er aðstoð ríkisins við byggingu íbúðarhúsa aðalatriði þessa frv., og á það legg ég megináherzlu.

Ég geri ráð fyrir því, að ekki þýði að fara fleiri orðum um þetta, en ég vil leggja til að lokum, að frv. fari til hv. heilbr.- og félmn. — Það kynni máske að verða einhver ágreiningur um það, til hvaða n. því ætti að vísa, því að þarna er líka um að ræða skatt til ríkisins, en þar sem ég tel meginefni frv. í 1. gr., álít ég rétt, að því verði vísað til umræddrar nefndar, og legg það til.