25.11.1948
Efri deild: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (4207)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm., að þeir hafa veitt sérstaka undanþágu, að þetta geti komið til dagskrár í dag, því að ég geri ráð fyrir að fara af landi burt á laugardagsmorgun.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, gengur í þá átt að létta á einstaklingsrekstri í landinu. Það er nú svo komið, að einstaklingsreksturinn á miklu erfiðara uppdráttar, en annar atvinnurekstur, sökum þess, hve þungum búsifjum hann verður fyrir af hálfu hins opinbera í skattheimtu, og er komið svo langt, að einstaklingsrekstur er svo að segja að hverfa úr sögunni, vegna þess að menn fá ekki staðið undir þessum kringumstæðum. Hins vegar tel ég það mjög illa farið, að einstaklingsrekstur þurfi að víkja fyrir félagsrekstri, því að ég er sannfærður um það, að einstaklingsreksturinn er að öllu samanlögðu bezti reksturinn í landinu, því að hann er rekinn með mestum dugnaði og mestri ábyrgðartilfinningu í starfinu. Þess vegna nær það ekki neinni átt, að skattal. séu þannig í landinu, að þau útrými þessari starfsemi einstaklinganna.

Eins og kunnugt er, verða þeir menn, sem hafa einstaklingsrekstur með höndum, að telja fram fyrir sig og rekstur sinn í einu lagi, og árangurinn verður sá, að toppurinn á tekjum þeirra fer í skatta, og skal ég í þessu sambandi leiða fram mjög áberandi dæmi, sem sýnir, hvernig þetta stendur nú. — Það er einstaklingsfyrirtæki, sem hefur haft í skattskyldar árstekjur 220 þús. kr., m. ö. o. nokkuð mikill rekstur. Í alla skatta og útsvar greiðir þessi skattþegn 163 þús. kr. Eftir eru þá 57 þús. kr., sem þessi atvinnurekandi á að lifa af sjálfur. Með öðrum orðum, hann á að lifa á 57 þús. kr., en það er ekkert afgangs fyrir reksturinn til þess að safna sjóðum eða grundvalla að nokkru leyfi. Ef þessi skattgreiðandi mætti telja fram á svipaðan hátt og gert er ráð fyrir í frv., eða á svipaðan hátt og hlutafélög að öðru leyti en því, að með frv. eru honum ekki ætluð þau hlunnindi, sem hlutafélög hafa nú, sem eru hlunnindi vegna hlutafjár og varasjóða, þá reiknast mér til lauslega, að fyrirtækið mundi greiða 95–100 þús. kr. í skatta, ef það hefði 160 þús. kr. í tekjur. En ef eigandanum væri ætlað í kaup 60 þús. kr., eða svipað og hann hefur fengið í sinn vasa, mundi hann að líkindum greiða um 9 þús. kr. í skatta. Hann og fyrirtæki hans mundu þá greiða á að gizka 110 þús. kr. í stað þess að verða nú að greiða 160 þús. kr. með því fyrirkomulagi, sem nú er. Þetta er svo auðsæ rangsleitni gagnvart þessum mönnum, sem reka atvinnurekstur í þessu formi, að slíkt getur ekki gengið til frambúðar, og tel ég það þess vegna beina skyldu Alþingis að taka í l. ákvæði eins og þetta til þess að vernda þá menn, ef einstaklingsreksturinn er svo ofsóttur með sköttum, að þeir geti ekki sinnt þessari starfsemi.

Ég ætla ekki að fara neitt út í skattamálin í heild, þau eru allt of langt mál til þess að ræða þau í sambandi við þetta. Eins og kunnugt er, starfar mþn. að endurskoðun skattalaganna, og er búizt við, að hún skili áliti áður en langt um líður, sem ég vona, að reynist rétt, því að skattal. eins og þau eru í dag eru þyngri byrði á atvinnurekstri þjóðarinnar og á öllum einstaklingum, en þeir geti borið með góðu móti.

Ég vildi svo leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.