28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (4289)

21. mál, jeppabifreiðar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil aðeins segja hér örfá orð í tilefni af því, sem hv. þm. Barð. hélt fram. Ég veit, að hv. þm. taka ekki mark á því, sem hann segir, og þess vegna þeirra vegna ástæðulaust að leiðrétta það, sem hv. þm, sagði. En ef hér kynnu að vera einhverjir menn, sem ekki þekkja hv. þm. Barð. eins vel og við, sem á þingi sitjum, þykir mér ástæða til að leiðrétta hann. Að svo miklu leyti sem hægt var að skilja það, sem hann sagði, þá var hann að reyna að halda því fram, að ég hefði verið sérstakur mótstöðumaður þess, að hætt væri bílainnflutningi, sem þannig væri framkvæmdur, að menn fengju innflutningsleyfi fyrir bílum, en sköffuðu sér svo sjálfir gjaldeyri til að greiða bílana með. Ég sagði, að það væri haugalygi, að ég hefði talað um mál þessi í þessa átt. Ég hef hvað eftir annað gert till. um, að það væri lagt fyrir viðskiptanefnd og innflutningsaðilana að veita engin innflutningsleyfi fyrir neinni vöru, án þess að gjaldeyrísleyfi fylgdu, nema fyrir lægju sannanir um það, að vörurnar væru borgaðar með löglega fengnum gjaldeyri. Upp á þessu hef ég stungið vegna þess, að mér hefur verið kunnugt um, að það hafa verið gefin út leyfi, eins og hv. þm. Barð. segir, án þess að gjaldeyrisleyfi fylgdu með. Þetta er sannleikurinn um afskipti mín af þessu máli. Hitt, sem hv. þm. var að rugla um, er annað mál. Þegar stjórnin, sem nú situr, tók við, var mikið af bílaleyfum í umferð, bæði innflutnings- og gjaldeyrisleyfum saman. Þá kom til athugunar hjá ríkisstj., hvort stöðva ætti þennan bílainnflutning alveg, þó að fyrir þeim væru til lögleg leyfi. Ég hélt þeirri skoðun fram, að það væri rétt að leyfa innflutning á þeim bílum, sem komnir væru til hafna erlendis, áður en skrúfað yrði alveg fyrir. Sá bílainnflutningur á ekkert skylt við þann innflutning, sem hv. þm. Barð. var að bendla mig við áðan. — Viðvíkjandi jeppunum, sem voru hér til umræðu, vil ég aðeins taka það fram, að mér finnst meira en skrýtið, þegar hv. þm. Barð. heldur því fram, að það hafi orðið að taka jeppaúthlutunina af Búnaðarfélagi Íslands og hreppabúnaðarfélögunum til að tryggja það, að þeir færu í þau sveitarfélög, þar sem vegirnir eru verstir. Það er ekki hægt að komast lengra í því að ganga á móti sannleikanum en að halda þessu fram, því eins og hv. þm. Borgf. hélt fram, þá var lausnin síðan að taka úthlutunina af Búnaðarfélagi Íslands, til þess að bílarnir færu í kaupstaðina. Ásakanir hv. þm. Barð. í sambandi við Búnaðarfélag Íslands og hreppabúnaðarfélögin eru stórfelldar, þegar hann segir, að þau hafi beitt hlutdrægni. Þarna eiga hlut að máli allar hreppabúnaðarfélagsstjórnir landsins, mörg hundruð manns. Það má vel vera, að það hafi komið fyrir mistök við úthlutunina gegnum hreppabúnaðarfélögin, en hitt er víst, að sú úthlutun var ábyggilega miklu réttlátari og eðlilegri en úthlutunin hjá nýbyggingarráði, því að hún var sannarlegt hneyksli.