25.01.1949
Sameinað þing: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (4311)

21. mál, jeppabifreiðar

Hallgrímur Benediktsson:

Eins og við vitum, hefur verið gerð ákaflega ströng fyrirskipan í öllum viðskiptamálum þjóðarinnar, og Alþ. hefur skipað hverja n. eftir aðra til þess að sjá fyrir þeim nauðsynlegu þörfum, sem okkar land þarf og sérstaklega þá þegar gjaldeyrisskortur er fyrir hendi. Ég vildi eindregið taka undir þau ummæli hv. þm. Barð., að þessi till. yrði athuguð betur. Það er alveg rétt, að það hefur margt breytzt síðan þessi till. kom fram í þinginu, og það er daglega haldinn fundur með ríkisstj. og þeim mönnum, sem bera ábyrgð á innflutningnum, um það, hvað sé nauðsynlegast, og það hefur komið hvað skýrast fram nú á síðustu mánuðum, að það eru kannske ýmsar aðrar bráðnauðsynlegar vörur, svo sem fatnaður og ýmis heimilisáhöld, sem líka þarf að taka tillit til. Ég vil ekki mæla móti því, að nauðsynlegt sé fyrir bændur að fá þessi tæki, en ég vil bara segja, að við dag eftir dag verðum að hnitmiða niður, hvernig við getum skipt okkar gjaldeyri fyrir því nauðsynlegasta. Og viðskipti okkar eru nú þannig, að við erum svo að segja hraktir land úr landi á þann veg með okkar viðskipti, að við verðum að selja okkar fisk og afurðir í þeim löndum, þar sem við svo verðum að sætta okkur við að taka vörur fyrir og það með margföldu verði, eins og hv. 5. þm. Reykv. minntist líka á. Þetta er ekki eins auðleyst mál og margur hyggur, en það er verið að reyna að leysa úr þessu á einn og annan veg, og við vitum líka, að það hefur aldrel verið eins litið til af vörubirgðum á Íslandi eins og nú, og það einmitt af bráðnauðsynlegum vörum. Ég vildi hreinlega gera það að minni till., enda þótt ég viti, að þessi tæki séu bráðnauðsynleg fyrir bændur, — og ég veit að þessi tæki koma á sínum tíma, — að þetta mál yrði nú athugað betur, og virðist slíkt vera mikil þörf, ekki sízt eftir þær upplýsingar, sem hæstv. viðskmrh. hefur gefið. Ég vil á þessu stigi málsins ekki ræða meira um þessa till. En það liggja svo margar beiðnir fyrir um nauðsynlega hluti til innflutningsyfirvaldanna, að við verðum að taka þetta allt með meiri jöfnuði milli þess allra nauðsynlegasta. Eitt vil ég taka fram, en það er, að ef Alþingi ætlar sér að hafa með höndum alveg sérstaka úthlutun á vörum, eftir að það er búið að koma á stofn jafn íburðarmiklum og fjölmennum ráðum og nefndum og raun ber vitni, sem maður getur ekki þverfótað fyrir, en það kom fram hér, að tekið er jafnvel í mál að fara svo langt að fara til slíkra stofnana til þess að fá úthlutað einni jeppabifreið, þá vil ég, að eins verði farið að hér á Alþingi um þau áhöld, sem eru nauðsynleg og til léttis fyrir húsmæðurnar, enda hefur verið tekið undir þær kröfur víða í sveitum, jafnhliða því sem raforkan kemur meir og meir í notkun um hinar dreifðu byggðir, að þetta er liður, sem líka ber að athuga. Tilmæli mín til frsm. og n. í heild eru þau, hvort ekki væri rétt að yfirvega þetta ofurlítið betur, enda hefur það nú t. d. komið fram, að hv. 1. þm. Skagf. er þeirrar skoðunar, að n. muni ekki ætlast til, að þessi innflutningur fari fram eins og till. er orðuð.

Það væri mikill ávinningur að fá allt þetta skýrt fram, og vildi ég aðeins beina þessum tilmælum mínum til hv. n., hvort hún vildi ekki athuga þetta dálítið nánar.