03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (4341)

22. mál, landbúnaðarvélar

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er ástæða til að gleðjast yfir, hvað mikill áhugi er ríkjandi um innflutning landbúnaðarvéla, og er gott fyrir ríkisstj. að fá slíkan stuðning og þá sérstaklega þann hluta stj., sem starfar að því og beitir sér fyrir, að slíkt verði gert. Það hefur sýnt sig, að talsverðir örðugleikar eru á, að þetta verði gert, en þessi till., sem hér er komin fram og væntanlega verður samþ., er þó viljayfirlýsing og er til stuðnings fyrir þá, sem sérstaklega beita sér fyrir þessum málum. En á það vil ég benda hv. þm., að ég hygg, að ekki verði litið á þessa till. sem l., þó að hún verði samþ., heldur sem viljayfirlýsingu, því að l. samkv. ber þessi mál undir ríkisstj.

En það var ýmislegt í ræðu hv. flm., sem mér virtist byggt á nokkuð miklum misskilningi. Hann eyddi löngum tíma í það að bera saman áætlanir frá Búnaðarfélaginu og verkfæran. og sýna fram á, að þeim bæri ekki saman. Nú get ég sagt hv. þm. það, að það væri sama, hvað margir kæmu fram og hvað mikla þekkingu sem þeir hefðu á íslenzkum landbúnaði, þá gætu þeir aldrei samið pöntunarlista, sem væri hægt að fara eftir, því að það er svo margt í óvissu, sem getur breytzt á næstunni. Þess vegna er eðlilegt, að menn líti misjöfnum augum á, hvað þurfi af vélum til landsins, og þessar áætlanir á ekki að skoða sem pöntunarlista, heldur aðeins sem áætlun, sérstaklega sem undirbyggingu undir gjaldeyrisáætlanir, hve miklu þurfi að verja til þess á næstu árum. Pöntunarlisti verður ekki fullbúinn, fyrr en bændur eða búnaðarfélög eru búin að leggja fram pöntun til viðkomandi verzlunar um það. En þessu verður slegið föstu, eftir því sem tímar líða og pantanir koma fram. Þess vegna er það aðalatriðið nú að gefa gjaldeyrisyfirvöldunum einhverja hugmynd um, hve mikinn gjaldeyri þurfi til þessara hluta. En það er nokkur hluti vélanna, sem nokkur vissa er um, en það eru hinar stórvirku vélar, sem eiga að fara í ræktunarsamböndin. Nú er verið að stofna þau, og það er vitað, hvaða vélar þau vantar. Sá þáttur er mjög auðleystur. Ef hv. þm. ber saman þann hluta innflutningsáætlunarinnar frá þessum tveimur stofnunum, þá sér hann, að þar skeikar sama sem engu. Tiltölulega munar það mikilli upphæð hjá verkfæran. og Búnaðarfélaginu, en það kemur til af þeirri einföldu ástæðu, að verkfæran. setur útsöluverð á þær vélar, sem hún óskar eftir, að pantaðar verði, en Búnaðarfélagið innkaupsverð. Í því liggur munurinn.

Í sambandi við þetta mál vil ég aðeins hreyfa því, að það er sennilegt, að bændur krefjist þess nú á skömmum tíma að fá allar þær fljótvirku vélar, sem unnt er að fá inn í landið til aukinnar framleiðslu, en þær vélar allar mundu kosta svo mikla upphæð bæði í gjaldeyri og eins í fé frá einstaklingum, að við getum gert okkur ljóst, að við höfum engan veginn ráð á að fullnægja þeirri þörf á næstu árum, nema eitt atriði komi þar inn í, sem hefur ekki verið nægur gaumur gefinn, en það er það, að bændur verða að hefja samvinnu og sameign um slíkar vélar. Það væri útilokað, að bændur gætu fengið ræktunarvélar inn í landið, eins og þeir þurfa, ef þeir sameinuðust ekki um notkun þeirra. Stofnun ræktunarsambandanna hefur sannað þetta, að því er snertir hinar stóru ræktunarvélar. Ég er sannfærður um, að sömu leið verður að fara a. m. k. með allar hinar dýrari heimilisvélar. Við þurfum ekki að sitja lengi við að reikna, hvað slíkar vélar mundu kosta, ef hver ætti að eiga þær fyrir sig, til að sannfærast um, að slíkt er með öllu ókleift, bæði fyrir þjóðfélagið og einstaklinga. Ég get sagt frá því hér, að fyrsta sporið í þessa átt hefur þegar verið stigið, þar sem bændur í Búnaðarfélagi Mosfellssveitar eru nú að athuga sín á milli, hvaða vélar þeir þurfi að fá inn í sveitina og hvað margir geti verið um hverja vél og hvernig þeir eigi að skipta sér niður utan um vélarnar. Þó að þáltill. fjalli ekki um þetta, þá vil ég í sambandi við hana benda á, að það er stórt spursmál, hvort ekki er rétt af fjárhagsráði og viðskiptan. að láta þá ganga fyrir, sem bindast samtökum um slíka félagsnotkun á vélunum. Einmitt þetta atriði getur líka haft áhrif á vélaþörfina í framtíðinni. Þess vegna verður það aldrei nema lausleg áætlun, sem við getum gert fram í tímann um einstaka vélaflokka. Hitt er aðalatriðið, að við getum gert grein fyrir, hve mikil gjaldeyrisþörfin muni vera, og það tel ég, að hafi verið gert með áætlunum Búnaðarfélagsins og verkfæran., þó að þeim beri ekki alveg saman.