29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (4400)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki hægt að sjá, að þm. G-K. hafi verið forsrh. Hann kemur hér og grípur fram í og talar um skrípalæti, án þess að hafa hugmynd um, hvað verið er að tala um, — eða kallar hann það aðeins skrípalæti, þegar þm. er hindraður af lögreglumönnum í því að komast inn í alþingishúsið? Og svo ræðst hann á forseta fyrir að biðja afsökunar á slíku hneyksli og gefa loforð um að tryggja, að slíkt komi ekki fyrir aftur. Ef hv. þm. G-K. skilur ekki, að þetta er stórhneyksli, þá er hann orðinn sljóvgaður af því, sem er að gerast á Keflavíkurflugvellinum. Nei, það er sannarlega ástæða til þess að kalla lögregluna burt héðan, svo að hv. þm. geti verið í friði fyrir henni. Ég skil ekki, hvaða þýðingu það hefur að vera að þéttskipa hér allt af lögregluþjónum, ég veit ekki, hvort það er meiningin, að þeir taki mig líka. Það er ekki til neins fyrir þm. G-K. að vera að tala um skrípalæti. Hér er ekki um nein skrípalæti að ræða, heldur er þetta yfirgangur, — hneyksli.

Það er lögreglustjóra að biðja okkur afsökunar á þessu, og það er hans að tryggja það, að þetta komi ekki fyrir.