29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (4401)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég þykist sannarlega hafa tilefni til þess að standa hér upp og svara nokkuð hv. þm. G-K. Hann geysist hér fram í fundarsalinn og fer að tala um það, sem hann hefur ekki neitt vit á. Hann kom ekki fyrr en of seint, svo að hann heyrði ekki það, sem hér hefur gerzt. Það er því mesti misskilningur af honum að vera að finna að við forseta og skipta sér af því, þó að hann bæði afsökunar á því, sem komið hefur fyrir mig, og lofaði því að sjá til þess, að slíkt kæmi ekki fyrir aftur.

En af því að hv. þm. heyrði ekki, hvað ég sagði hér í upphafi, þá get ég vel endurtekið það fyrir hann, svo að hann viti, um hvað verið er að tala. Ég var að kvarta undan því, að þegar ég kom hingað í morgun, þá var ég stöðvaður af lögregluþjóni, og mér var neitað um að fá að fara inn í húsið. Það var svo ekki fyrr en eftir nokkurn tíma, að einn af starfsmönnum hússins kom á vettvang og þekkti mig, að hægt var að kippa þessu í lag. (ÓTh: Gaztu ekki sagt, hver þú værir?) Það stóð ekki á mér að segja, hver ég var. Ég sagði það. En ég vil bæta því við, að þegar svona atvík eiga sér stað, þá er ekkert öryggi fyrir því, að lögreglan stöðvi ekki fleiri þm. og neiti þeim um inngöngu. En ef það er meiningin að passa ákveðna menn, þá verður að gera þær kröfur til þeirra, sem eiga að passa þá, að þeir þekki þá. En ég fyrir mína parta hef ekki beðið um að verða passaður, og ég verð að segja það, að mér þykir það hart aðgöngu í svona máli að geta ekki farið ferða minna í friði fyrir þessum mönnum.