29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (4421)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Áki Jakobsson:

Ég vænti þess, að hæstv. forseti leyfi mér að tala nokkuð lengur en í korter, því að mér er ómögulegt að gera grein fyrir máli mínu á svo stuttum tíma, en skal hins vegar vera eins stuttorður og ég get. Annars er ég hissa á, hversu mikið kapp er lagt á að skera niður umræður, sérstaklega þar sem þingið var mikið til starflaust í vikunni sem leið, þótt allt væri tilbúið til að láta þessar umræður fara fram, og það er ríkisstj. algerlega að kenna, ef hún er komin í eindaga með þetta mál. Í öllum þeim umræðum, sem hér hafa orðið um þetta mál, hefur alltaf verið gengið fram hjá því atriði, sem ég álít langþýðingarmest. Það kom sérstaklega fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv., að hann gerir sér ekki grein fyrir því, í hverju aðalhættan er fólgin við þennan samning. Hann heldur því fram, að skyldur okkar séu ekki þjóðréttarlegs eðlis, heldur siðferðilegs eðlis, en þetta sýnir bezt, hversu yfirborðskenndur lestur hans á samningnum hefur verið. Það er einmitt öfugt. Það er stofnað til þjóðréttarlegrar skyldu, en ekki siðferðilegrar. Hins vegar skiptir það ekki svo miklu máli gagnvart okkur Íslendingum, þótt við leggjum ekki fram her, því að það er algerlega útlátalaust fyrir hvaða stórveldi sem er, þótt við leggjum engan her fram, því að hann yrði alltaf svo hverfandi lítill. Við getum aðeins orðið hernaðaraðili með einu móti, og það er með því að lána land okkar um leið og stríð brýzt út. Hv. þm. sagði, að hann sæi ekkert athugavert við þetta frá alþjóðlegu sjónarmiði, og það væri ekki undarlegt, þótt eitthvað væri gert til þess að stemma stigu fyrir útþenslu Rússa. En öll hernaðarbandalög hafa verið stofnuð sem varnarbandalög. Þýzki herinn hét t. d. Wehrmacht. Þetta bandalag er stofnað gegn Rússum. Nú álít ég það persónulega mikinn skaða, ef Rússland yrði eyðilagt, en það er annað mál. En ég veit, að Rússar geta slegið frá sér og ef stríð skellur á þá, verður það ægilegur hildarleikur, þar sem við Íslendingar verðum eins og peð milli tveggja jötna. Og það er þetta, sem ætti að geta sameinað alla Íslendinga. Íslendingum er talin trú um, að með þessu sé verið að tryggja þeim öryggi, en ég get ekki séð, að í slíkum leik geti verið um neitt öryggi að ræða. Eða hvernig á að tryggja öryggi fyrir flugvélaárásum eða rakettusprengjum, sem hægt væri að skjóta frá meginlandinu?

Það er alveg rétt, að hlutleysi er ekkert öryggi, en það er þó það skásta, sem við höfum, og ég er ekki frá því, að hlutleysið hafi hjálpað okkur í síðustu styrjöld eða í það minnsta ekki skemmt. En aðalatriðið er, að við ráðum ekki sjálfir, hve nær við förum í stríð, þótt svo standi að nafninu til í samningnum, því að það er svo um hnútana búið, að við höfum afsalað okkur þeim rétti. Ástæðan fyrir því, að hver ræður, hve nær hann fer í stríð, er sú, að Bandaríkin vita, að án þeirra verður ekkert stríð. Þetta ákvæði er eingöngu til góða fyrir Bandaríkin, og þau hafa sjálf áskilið sér þennan rétt. Þetta sýnir bezt, að bandalagið er hópur ríkja, sem Bandaríkin hafa safnað saman til að nota í stríði, þegar þeim sýnist. Þetta er þeim auðvitað til mikillar aðstoðar, því að það er fásinna að halda, að Bandaríkin færu í stríð án Evrópu, en nú geta þau það. Þannig liggja allir þræðir í hendur Bandaríkjanna. En öll hervarnarbandalög eru skref í áttina til árása og í því liggur aðalhættan.

Nú segja sumir, að við séum í hernaðarbandalagi. Því er það til að svara, að við gengum í Sameinuðu þjóðirnar, þjóðir, sem komu sér saman um, að stefna Þjóðverja, Ítala og Japana væri glæpastarfsemi og að útrýma bæri þeirri stefnu, og við gengum í það til þess að útrýma þeirri stefnu. En þá gengu allir út frá því, að ekki væri hætta á stríði milli aðila í Sameinuðu þjóðunum. Nú er þetta aftur á móti öðruvísi. Bandaríkin draga nú í blökk þá aðila, sem þau geta, og hinir gera eins. Þannig er verið að stíga skref í áttina til stríðs. Það má kannske segja, að í augum vissra manna sé til mikils að vinna að útrýma Sovétríkjunum, en aðalatriðið er, hvort við Íslendingar verðum ekki þurrkaðir út í þeim átökum. Þá er og eitt atriði enn, sem er mjög athugunarvert fyrir okkur, og það er það, að ef við gerumst hernaðaraðili, þá missum við auðvitað allan rétt til skaðabóta, bæði á fjármunum og mönnum, og þótt segja megi, að aldrei sé hægt að bæta mannslífin, þá er þó alltaf nokkurs virði að fá fjárbætur.

Afstaða hv. 4. þm. Reykv. virðist mér furðuleg. Mér skilst hann vera algerlega sammála utanrrh. og form. Sjálfstfl. og er raunverulega hissa á því, að hann skuli binda atkvæði sitt nokkrum skilyrðum. Hann telur þetta vera nokkurs konar fóstbræðralag, sem stofnað sé til með siðferðilegum skuldbindingum til útrýmingar einhverri ógurlegri hættu. Hins vegar lýsir hann því yfir á fundi í miðstjórn Alþfl., að nokkrir menn vilji samþykkja að ganga í bandalagið, ef nokkrum skilyrðum sé fullnægt, og 1. skilyrðið er, að viðurkennd verði af samningsaðilum sú sérstaða Íslands, að það geti aldrei háð stríð. Ef þetta er meint í fullri alvöru, þá bara greiðir hann atkvæði móti samningnum. En ef tekið er tillit til þess rökstuðnings, sem hér hefur komið fram, þá er slíkur fyrirvari í ósamræmi við samninginn. Hér hefur verið bent á skyldleikann milli Keflavíkursamningsins, Marshallsamningsins og þessa samnings. Þessi þm. taldi Marshallsamninginn mjög góðan og tjáði sig fylgjandi honum, en sá samningur var ekkert annað, en hagfræðilegur undirbúningur undir þennan samning. Þannig er framkoma hv. þm., og ég verð að segja, að hún kemur mér mjög undarlega fyrir sjónir.

Ég mun svo ekki fjölyrða meira um þetta, en ég vil aðeins benda á það, að þótt samningurinn sé fallega orðaður, þá er raunar allt í höndum Bandaríkjanna. En reynslan sýnir, að stjórnir þær, sem standa með Bandaríkjunum, eru leppstjórnir, sem hlýða Bandaríkjunum í öllu, og höfum við gleggst dæmi um það hér á Íslandi, eins og kom fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv. í sambandi við Keflavíkursamninginn. Það er þetta, sem er hættulegast, að Bandaríkin geta skipað stj. að gera hvað sem þeim sýnist, og þótt þeir heimti hálfa eða alla stj. til Washington, þá er þeirri skipun hlýtt.