07.02.1949
Efri deild: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

17. mál, kjötmat o.fl.

Björn Kristjánsson:

Ég er ekki sammála hv. frsm. n., sem talaði hér áðan og sagði, að þetta bráðabirgðaákvæði væri til mikilla skemmda á frv. Ég verð að játa með kinnroða, að ég athugaði þetta ekki nógu vel, þegar frv. var á ferðinni hér í Ed., einmitt þetta atriði, sem bráðabirgðaákvæðið fjallar um, og ég verð að segja, að ég tel það til stórmikilla bóta. Það er nú þannig víða um landið, meðal annars þar sem ég er kunnugastur, að ef ætti að fara eftir frv., eins og það var, þá yrðu eigendur stórgripa, sem þá vilja selja, kosta mjög miklu til, ef ætti að skylda þá til þess að fara með þá gripi til sláturhúsa, það yrði þá oft að fara með þá langar leiðir og það kannske langt úr leið á sölustaðinn. Þannig stendur á í mínu héraði. Menn selja þar töluvert af stórgripum, bæði til Akureyrar og Raufarhafnar um síldveiðitímann t.d. Oft kemur fyrir t.d. á Raufarhöfn, þegar 15ður á síldveiðitímann og veður eru farin að versna, að mikill fjöldi skipa liggur þar inni, stundum allt að því 100 skip. Það gefur að skilja, að allur sá fjöldi manna, sem á þessum skipum er, þurfi á miklu kjöti að halda. En ef ætti að skylda alla þá, sem selja kjöt til Raufarhafnar, að fara með gripina til sláturhúss, mundi það hafa mjög mikinn kostnað í för með sér, og sé ég þá ekki betur, en að þetta ákvæði geti þar bætt mikið úr. Ég gæti bezt trúað, að þetta ákvæði, ef það verður að l., verði til þess að auka sölu á kjöti á Raufarhöfn, sem er mjög nauðsynlegt fyrir síldveiðiflotann. Ég vil eindregið mæla með því, að frv. verði samþ., og ég sé ekki ástæðu til þess að vísa málinu til n. aftur, þetta er ekki svo flókið mál.