31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (4511)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil fyrst ítreka þá fyrirspurn hv. þm. Siglf., hvort það sé rétt, að 17 ára telpa hafi verið sett í fangelsi fyrir að löðrunga hæstv. forsrh. Einhvern veginn hefur hæstv. forsrh. enn þá láðst að svara þessu.

Ég er sammála því, að það sé óþarfi að hafa þessar umr. miklu lengri. Það má segja, að nú séu hér sólarlitlir dagar í sólskininu, og er það raunar táknrænt eftir þau mestu landráð í sögu Íslands, sem framin voru hér í gær. Það sagði einhver áðan, — ég held það hafi verið hæstv. núv. menntmrh., — að þjóðin væri seinþreytt til vandræða, og er það rétt, og að það, að afhenda sjálfstæði landsins erlendu stórveldi, skuli ekki hafa vakið enn þá meiri andstyggð og viðbjóð, sýnir einmitt, að þjóðin er seinþreytt til vandræða. Það, sem hæstv. menntmrh. sagði, var táknrænt og eftir hinni amerísku kokkabók. Hann talaði um, að undirbúin hefði verið árás á Alþingi. Þetta er nákvæmlega sama aðferðin og nazistar beittu, t. d. í sambandi við ríkisþingsbrunann, og Bandaríkjamenn hafa nú tekið upp, enda má búast við því, að hæstv. ríkisstj. telji sig þurfa á slíkum próvókasjónum að halda til þess að fá átyllu til ofsókna gegn Sósíalistaflokknum og verkalýðshreyfingunni.

Hæstv. ráðh. hafa talað um það, að stofnað hafi verið til æsinga með því að segja fólkinu frá því, sem gerðist hér í húsinu, að okkur þm. sósíalista var bannað að fara út. Þetta var það, sem gerðist, að þegar við vildum fara út, fengum við það ekki. Við þurftum ekkert að óttast, við höfðum ekkert fyrir okkur gert, en hæstv. ráðh. voru hræddir og lokuðu sig inni, og þess vegna létu þeir einnig loka okkur inni til að fela skömm sína, og það sýnir bezt taugaæsingu þeirra, að þegar hv. 8. þm. Reykv. skýrir fólkinu frá því, að stjórnarflokkarnir hafi hundsað kröfu þess um þjóðaratkvæði, þá rýkur hæstv. utanrrh. upp og segir, að honum skuli vera munað þetta og hann fundinn í fjöru síðar. — Annars er rétt að rekja gang málanna í heild. Byrjunin er, að formenn stjórnarflokkanna skora á fólk að mæta á Austurvelli. Svo kemur fólkið, og safnast mikill mannfjöldi hér fyrir utan. Þegar líður að atkvgr., gengur hv. þm. G-K. út að glugga, gefur fyrst forseta merki um að hinkra við með atkvgr., en gefur svo annað merki, og skiptir það engum togum, að þá ræðst lögreglan og Heimdallarskríllinn á fólkið, og þegar skríll þessi hafði gert árásina, byrjaði grjótkastið. Það var eftir signal þetta frá hv. þm. G-K., að árásin byrjaði. Þetta sá fólkið, og að þessu eru tugir vitna. Þar næst gerist það, að piltur nokkur hlær að einum lögregluþjóni, sem þá missir alla stjórn á sér, ræðst á piltinn og leggur hann niður og ætlar að misþyrma honum, og er talið, að hann hafi þá verið í slíkum ham, að hætta hafi verið á, að hann dræpi piltinn. Þeir, sem nærstaddir voru, komu til hjálpar og björguðu piltinum, og á þessu byrjar slagurinn við lögregluna. Þannig hófust óeirðirnar í gær. Trylltur skríll nazista og Heimdellinga var látinn misþyrma fólkinu, enda var afleiðingin sú, að milli 10 og 20 voru lagðir á spítala, og enn er ekki upplýst, hve mikil meiðslin voru, en sum voru mjög alvarleg. Svo er táragassprengjum hent á fólkið án þess að vara það við. Næg vitni eru til að staðfesta það, sem ég hef nú sagt, og ef réttarrannsókn verður látin fram fara, þá mun þetta koma í ljós. Fyrir þessa atburði lýsi ég sök á hendur lögreglustjóra og hæstv. ríkisstj.