31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (4512)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Það er aðeins til að svara fyrirspurn hv. þm. Siglf., sem endurtekin var af hv. 4. landsk. þm., um það, hvort ég hafi látið fangelsa skólastúlku, og er því skjótt til að svara, að ég hef engan látið fangelsa. Hitt er annað mál, að mér er sagt, að skólastúlka hafi verið tekin til yfirheyrzlu fyrir vissa árás á mig, en sú unga stúlka mun ekki sjálfráð gerða sinna, enda æst upp af sér verri mönnum, sem kannske — því miður sæta ekki þeirri ábyrgð, sem þeim bæri, en seinna munu þeir þó fá þá refsingu, sem þeim hentar. Ég vil svo aðeins benda hv. þm. á sagnaritun hv. 4. landsk. þm., þegar hann skýrir frá aðdraganda atburðanna í gær, og biðja þá að athuga, hversu mikið hún er sannleikanum samkvæm, en hún er í fullu samræmi við þann málstað, sem þessi hv. þm. berst árangurslaust fyrir hjá íslenzku þjóðinni.