18.05.1949
Sameinað þing: 76. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (4548)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Pétur Ottesen:

Það eru nú 3 dagar síðar atkvgr. um brtt. við fjárlögin var lokið hér á Alþingi og rösk klst. síðan endanleg atkvgr. um fjárlögin fór fram. Fjárlögin voru afgr. þannig, að útgjöldin voru 287.772 þús. kr., og skilst mér, að þetta sé um það bil 40 millj. kr. hærra en ákveðið var fyrir árið 1948. Það er búið að sitja lengi yfir afgreiðslu þessara fjárlaga. Þingið hefur staðið í 7 mánuði, og fjárlögin voru lögð fyrir það 10–20 dögum eftir, að það kom saman. Þetta er því alllangur tími, og mér skilst, að mest hafi staðið á að finna leiðir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Eins og hæstv. fjmrh. lýsti yfir, bæði er hann lagði frv. fyrir þingið og í útvarpsumræðunum við afgreiðslu fjárl., hafði hann sett sér það mark að afgr. fjárl. tekjuhallalaus og hafði vonazt eftir samstarfi við þingið um það. Útgjöldunum vegna brtt., sem fjvn. flutti nú að síðustu að ósk ríkisstj., en aðrar till. flutti n. ekki, átti svo að mæta með þeirri tekjuaukningu, sem ráðh. flutti till. um á síðustu stundu. Hæstv. fjmrh. var þó hrakinn út af þessari braut, þar sem nú er halli á sjóðsyfirliti fjárl. ½ millj. kr. Það var eðlilegt, að hæstv. ráðh. harmaði þetta og það því frekar sem samstarfsmenn hans í ríkisstj. og flokksmenn hans studdu hann ekki í því að koma fram þeirri stefnu sinni, að tekjur mættu útgjöldunum. Svona stendur þetta þá. Nú skildist mér á ræðu hæstv. fjmrh., að þrátt fyrir það að ýmsar lækkanir á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs hafa verið samþykktar, þá væri hann hræddur um, að sumar þeirra mundu ekki reynast raunhæfar og af því yrði þá aukinn halli.

Nú hefur verið settur hér fundur, einni klst. eftir að afgreiðslu fjárl. lauk, og er þar til umr. till. til þál., sem felur í sér, ef hún verður samþykkt, 4 millj. kr. halla á fjárlögum auk þess halla, sem fyrir var, og allra hinna vafasömu lækkana. Í greinargerðinni fyrir till. er sagt, að engin till. sé gerð um, hvernig mæta skuli þessum útgjöldum, og í áframhaldi grg. er bent á, að óráðstafað sé nokkrum hluta eignaraukaskatts og megi því grípa til þess fjár, og mér skilst, að vonir standi til, að þarna sé um jafnháar upphæðir að ræða. Ég verð að segja það, að það er undraverð fáfræði, sem kemur fram hjá flm. till. hvað þetta snertir. Hv. 1. landsk., sem var frsm., rökstuddi þetta með því, að hvergi væru ákvæði í lögum um það, hvernig ætti að ráðstafa þessu fé. Þetta kalla ég furðulega fáfræði. Í lögum um dýrtíðarráðstafanir og eignaraukaskatt segir svo: „Skal sá skattur renna í framkvæmdasjóð ríkisins, smbr. lög nr. 55 1942“, og þar er bætt við, að ef stofnaður verði afla- og hlutatryggingasjóður, þá skuli skatturinn skiptast jafnt milli hans og framkvæmdasjóðs. Þannig er þessu fé ráðstafað í framkvæmdasjóð ríkisins, og um þann sjóð segir svo: „Hlutverk sjóðs þessa er að veita fé til nauðsynlegra framkvæmda í þarfir atvinnuveganna.“ Mér vitanlega er því hér um að ræða fé, sem búið er að ráðstafa, og það þýðir það, að ekkert fé er til, til þess að mæta þessum 4 millj. kr. útgjöldum. Eftir þær yfirlýsingar, sem hæstv. fjmrh. hefur gefið um, að hann vilji fá hallalaus fjárl., er ekki hægt að skilja þennan hluta grg. öðruvísi en svo, að verið sé að reyna að stjaka hæstv. fjmrh. út úr ríkisstj. Ef þessi till. verður samþykkt, er ekki sýnna, en hæstv. fjmrh. verði að grípa til þess ráðs að segja skilið við ríkisstj. og taka þannig afleiðingum orða sinna, og vissulega væri það karlmannlegra, en að láta bjóða sér þetta. Aðstaða ríkisstj. til þess að mæta þessum útgjöldum er önnur hlið þessa máls. Hin hliðin er sú, hver nauðsyn er á að veita starfsmönnum ríkis og bæja þetta.

Það er vitað, að þegar hæstv. ríkisstj. lagði fram till. og fékk samþ. að stöðva vísitöluna í 300 stigum, þá var það gert til þess að koma í veg fyrir og geta staðið í móti launakröfum almennt, einnig frá starfsmönnum ríkis og bæja. Að því leyti sem hæstv. ríkisstj. kann því að standa á bak við þessa till., sem að vísu hefur ekki komið fram hér í nótt, en eitthvað hef ég heyrt um að, að minnsta kosti stæði einhver hluti hennar að till., þá er það hrein uppgjöf um, að þessi binding vísitölunnar nái tilgangi sínum, þar hafi ríkisstj. algerlega misst marks. Ég verð að segja, að ég er mjög óánægður, þar sem við erum búnir að sitja hér á þingi í 7 mánuði við að reyna að koma saman erfiðum fjárlögum, að verða þá að horfa upp á, að ekkert raunhæft er gert til þess að hamla á móti þeim háska, sem af þessu ástandi leiðir, því að allir viðurkenna, að ekkert hafi verið gert til að lækka verðbólguna, öll hafa úrræðin aðeins verið til bráðabirgða. Það veldur mér einnig miklum áhyggjum, að útflutningur okkar er ekki samkeppnisfær á þeim erlendum mörkuðum, sem við verðum að selja hann á. Það dettur engum í hug, að það sé hægt til frambúðar, að ríkið greiði þann mismun, sem er á framleiðslukostnaðarverði varanna og því verði, sem fæst fyrir þær á erlendum mörkuðum. Að leysa þennan stóra vanda er það verkefni, sem Alþingi hefur alltaf hliðrað sér hjá. Það er og síður en svo, að á þessu sjáist nokkur batamerki. Verðið er fallandi erlendis, samtímis því sem kostnaður vex innanlands. Og ekki bætir úr, að mjög verulegur aflabrestur hefur nú á vertíðinni orðið í allflestum verstöðvum nema Vestmannaeyjum. Ég skil því ekki þá blindu í augum manna, að þeir skuli ekki sjá, að ekki er hægt að bæta stöðugt við nýjum og nýjum útgjaldaliðum eins og gert hefur verið. Þar að auki er nú verið að setja af stað nýja kaupskrúfu á hendur atvinnuvegunum, því að öll stærstu verkalýðsfélögin hafa sagt upp samningum. Ef maður nú lítur á málin eins og þau standa í nótt, þá ætlar Alþingi að ganga á undan og gefa fordæmi með því að samþ. útgjaldatill. sem þessa til starfsmanna ríkisins, því að eins og fram hefur verið tekið, þá gefur það öðrum byr í seglin með kaupkröfur, ef þessi till. verður samþ. Ég vil því alvarlega vara við samþykkt svo gífurlegs útgjaldaauka sem felst í þessari till. og einnig vara við því fordæmi, sem þetta gefur gagnvart þeim aðilum, sem nú eiga að taka upp samninga um launagreiðslur almennt í landinu. Hér er líka farið inn á alveg nýjar brautir, þar sem sagt er í niðurlagi till.: „Ríkisstj. ákveður í samráði við stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, hverjir fái uppbætur greiddar og eftir hvaða reglum.“ Hingað til hefur Alþingi ákveðið launalög og launagreiðslur til opinberra starfsmanna almennt og í einstökum atriðum, en hér er farið inn á alveg nýjar brautir, með því að nú á ríkisstj. að ákveða greiðslur til þeirra í einstökum atriðum ásamt stjórn B.S.R.B. Hér er því um að ræða tvo jafnréttháa aðila, hæstv. ríkisstj. og stjórn B.S.R.B. Mér finnst ekkert líklegra, ef gengið er inn á þessa braut, en að framvegis verði það svo, að Alþingi ákveði einhverja upphæð, sem ganga á til opinberra starfsmanna, en síðan verði henni skipt af ríkisstj. og stj. B.S.R.B. Ég skal nú ekki vera með neinar spár um, hvernig þetta fyrirkomulag mundi reynast. Kannske mundi það verða til góðs, kannske líka öfugt.

Ég skal nú ekki fara miklu fleiri orðum um þetta mál. Ég hef gert mitt til að benda á þá gjaldabyrði, sem lögð er á ríkissjóðinn, ef þessi till nær samþykki, því að hún er flutt án þess, að bent sé á nokkrar tekjur upp í þessar greiðslur. Flm. till. segja að vísu í grg., að þetta fé skuli tekið af þeim tekjum, sem ríkissjóður fær af almenna eignauppgjörinu. Helmingi þeirrar upphæðar er þegar ráðstafað í hlutatryggingasjóðinn, eins og ég hef bent á, og hinum helmingnum er þegar ráðstafað í annað og þess vegna ekki hægt að láta það fé ganga upp í þetta líka. Annars má í sambandi við þá leið, sem hér er lagt til, að farið verði inn á, benda á, að hér er um að ræða algera stefnubreytingu hjá Alþingi. Ég get í því sambandi minnt á, að í hv. Nd. var fyrir nokkru á ferðinni frv. um ráðsmann ríkisins. Inn í það var sett ákvæði um, að fulltrúi frá stjórn B.S.R.B. ætti að hafa eftirlit með stjórnarráðinu og öðrum stofnunum ríkisins. Þetta varð til þess, að hæstv. fjmrh. taldi sig ekki hafa gagn af samþykkt frv. og dró það til baka. Sú þáltill., sem hér liggur fyrir, er alveg í samræmi við þessa endemistill., sem varð til að eyðileggja frv. um ráðsmanninn, en það átti að verða til bóta fyrir starfsemi ríkisins að dómi færustu manna, en það voru þaulvanir og reyndir starfsmenn í stjórnarráðinu, sem stóðu að samningu frv.

Það er alkunna, að útgjaldaliðir fjárlaganna eru nú áætlaðir 287 millj. kr. Þar að auki eru á heimildabálki heimiluð útgjöld, sem nema nokkuð á annan milljónatug, og býst ég fastlega við, að þeir, sem njóta eiga þeirra heimilda, reki nokkuð eftir, að þær komi til framkvæmda. Þetta er því síður en svo glæsilegt allt saman, þegar undir þessu á að standa hnignandi atvinnulíf, aflabrestur á vertíðum og geysilegur fóðurkostnaður þeirra, sem landbúnað stunda, vegna vorharðinda, því að víða er það svo enn, að varla sér á dökkan díl, svo að gefa verður skepnum inni, á sama tíma sem venjulegt er, að vorgræðingurinn dafni bezt. Það væri því með hliðsjón af þessu ástæða til að gera þá kröfu til þeirra, sem alltaf eru að krefjast nýrra og nýrra útgjalda, að þeir gerðu sér ljóst, hvaða afleiðingar það getur haft og eins hvaða möguleikar eru á að inna þau af hendi. Og ég er hræddur um, að nógu erfitt sé fyrir hæstv. ráðh. að inna af hendi þau útgjöld, sem þegar eru ákveðin, þótt ekki sé enn bætt við 4 millj. kr.