27.01.1949
Sameinað þing: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í D-deild Alþingistíðinda. (4613)

112. mál, mænuveikivarnir

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þegar ljóst var, að mænuveikin væri komin upp á Akureyri, útbreidd þar eða sýnt, að svo mundi fara, þá ráðgaðist heilbrigðismálastjórnin um það við landlækni, hvað eðlilegast væri að aðhafast. Landlæknir benti þá rn. á, hvernig menn hefðu hagað sér áður í þessum efnum. Niðurstöðurnar af þessum bollaleggingum voru þær, að landlæknir skyldi heimila einstökum héruðum að setja sig í sóttkví samkv. þeim ákvæðum, sem um slíkt eru í sóttvarnalögum. En hann vildi ekki leggja það til, að heilbrigðismálastjórnin ætti frumkvæði um slíkt. Svarfdælalæknishérað hefur farið fram á bann og það verið heimilað. En faraldur þessi fór vaxandi og hagaði sér þó með ólíkum hætti. Próf. Jón Hj. Sigurðsson var sendur sem fulltrúi landlæknis til Akureyrar til að fylgjast með málinu og hefur verið í ráðum með landlækni síðan. Nú beindi rn. sérstakri fsp. til landlæknis, hvort stefnubreyting væri nauðsynleg í málinu og íhuga skyldi, hvort ástæða væri til að gera einhverjar ráðstafanir. Kvaddi landlæknir þá læknaráð til, sem sendi síðan álitsgerð um málið. En spurning heilbrmrn. til landlæknis var sú, hvað unnt mundi vera að gera til að hindra útbreiðslu veikinnar til Rvíkur. Hér er þéttbýlið mest á landinu, og af þeirri niðurstöðu, er fengist um Reykjavík, væri unnt að ráða, hvað gera skyldi annars staðar. Ráðuneytinu barst síðan skýrsla frá landlækni, sem skrifar bréf þ. 31. des. s. l. um álitsgerð læknaráðs varðandi Akureyri o. fl., en hún hljóðar á þessa leið:

„Læknaráð, heilbrigðismáladeild. Reykjavík, 31. des. 1948.

Fyrir hönd ráðherrans, sem fer með heilbrigðismál, hefur landlæknir leitað umsagnar læknaráðs um mænusóttarfaraldurinn á Akureyri, með sérstöku tilliti til þess, hvort nokkuð sé unnt að gera til að verjast því, að sóttin berist til Reykjavíkur og nái sér þar niðri.

Málið er lagt fyrir læknaráð á þá leið, sem að framan greinir.

Álitsgerð heilbrigðismáladeildar læknaráðs:

1. Akureyrarfaraldurinn.

Faraldurinn virðist allútbreiddur, en vægur. Skráð tilfelli munu nú vera 365. Sjö hafa lamazt verulega, en enginn dáið. Veikin tekur einkum ungt fólk, á aldrinum 14–30 ára, mjög fá börn hafa sýkzt og ekkert yngra en 8 ára. Veikinnar hefur talsvert orðið vart í framhaldsskólum, t. d. heimavist Menntaskólans. Fyrir hefur komið, að margir hafa veikzt á sama heimili. Í öllum fjöldanum er sótthiti 37,2°–37,4° að morgni, en 37,6°–38° að kvöldi.

Veikinnar varð fyrst vart 25. sept. s. l. Í október voru skráð 6 tilfelli, í nóvember 256 og virðist faraldurinn hafa náð hámarki 15.–25. nóv. Í desember hafa verið skrásett tæp 100 tilfelli og litu út fyrir, að veikin sé í rénun.

2. Varnir Reykjavíkur.

Ef svara á þeirri spurningu, hvað unnt sé að gera til varnar gegn því, að faraldurinn berist til Reykjavíkur, kemur til álita, hvort setja beri á samgöngubann við Akureyri. Heilbrigðismáladeild læknaráðs telur, að ekki mundi sérlega mikils árangurs að vænta af slíku banni.

Mænusóttarfaraldrar reynast að jafnaði nokkuð staðbundnir, þótt einstök tilfelli komi að vísu fyrir utan aðalsvæðanna. Þetta mun tæpast stafa af því, að smitið berist ekki víðar, en fremur af hinu, að ýmis önnur skilyrði til sýkingar séu ekki fyrir hendi. En ekki verður enn skýrt, hver þau skilyrði eru.

Hér í Reykjavík hefur veikinnar orðið vart í hverjum mánuði síðan í ágúst, svo að smitið virðist vera í fyrir hendi, hvaðan sem það er komið, án þess þó að faraldur hafi hlotizt af. Ekki er ólíklegt að smitið kunni að vera útbreiddara hér, en fjöldi sýktra gefur beinlínis ástæðu til að ætla, því að talið er, að heilbrigðir smitberar komi mjög til greina.

Í samræmi við það, sem hér hefur verið sagt, má benda á, að veikin hefur stungið sér niður á Akureyri þegar í september og október og gengið sem farsótt þar nú um tveggja mánaða skeið a. m. k. en ekki borizt til Reykjavíkur sem farsótt, þrátt fyrir óheftar samgöngur.

Af framan töldum ástæðum er ljóst, að ólíklegt er, að nokkur trygging fáist fyrir því, að veikinni verði bægt frá Rvík, þótt samgöngubann yrði sett á við Akureyri. Væri slíkt bann sett, mundi ekki nægja að láta við það eitt sitja, heldur yrði þá að setja á samgöngubann við hvern þann stað — bæ eða byggðarlag þar sem veikinnar hefur orðið vart eða yrði vart. Gæti þá svo farið, að einangra yrði Reykjavík um óákveðinn tíma. Augljóst er, að slíkt yrði illframkvæmanlegt og styddist naumast við skynsamleg rök, þar eð veikinnar hefur þegar orðið vart að undanförnu innan endimarka bæjarins.

Með þessu skal engan veginn sagt, að veikin geti enn ekki brotizt út sem farsótt hér í Reykjavík, þótt stutt sé að vísu liðið síðan hún gekk hér sem faraldur. Er allur vari góður, og mun héraðslæknirinn í Reykjavík gefa út leiðbeiningar um varúðarráðstafanir handa almenningi til að styðjast við.

Vilm. Jónsson. Júl. Sigurjónsson. Jóh. Sæmundsson.

Til læknaráðs.

Framanrituð álitsgerð heilbrigðismáladeildar læknaráðs staðfestist hér með í samræmi við fyrirmæli laga nr. 14 15. maí 1942 og reglugerðar nr. 192 24. nóvember s. á. sem álitsgerð læknaráðs.

Reykjavík, 31. desember 1948.

Vilm. Jónsson. Jóh. Sæmundsson.“ Leiðbeiningar þær, er hér getur um, hefur landlæknir þegar gefið út, og rn. hefur eigi séð ástæðu til að birta fyrr þessa álitsgerð, en á henni hefur rn. byggt afstöðu sína. Ég skal taka það fram, að Svarfdælalæknishérað hefur nú létt af samgöngubanninu. Nú er farið fram á í þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, að þ. geri sig að dómara í þessu máli og beiti sér fyrir því, að samgöngubanni verði komið á í landinu. En ég taldi rétt, að Alþingi fengi að vita um afstöðu vitrustu manna, áður en það tekur ákvarðanir í málinu. Í till. segir: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta beita viðeigandi samgöngubanni þegar í stað til að freista með þeim hætti að draga úr útbreiðslu mænuveikinnar.“ Þetta getur Alþ. sóma síns vegna ekki samþykkt. Engum manni getur dottið annað í hug en samþ. slíkar till. þýddi annað en það, að þ. yrði að gera sér ljóst, hvort það ætli að taka málið alveg úr höndum heilbrigðismálastjórnarinnar. Hvað sem hv. þm. S-Þ. segir, þá hef ég meira traust á þeim mönnum, er hafa verið okkur til ráðuneytis í þessu máli. En hin leiðin er það, sem kallað er að fara úr öskunni í eldinn, að fara ekki að ráðum þeirra, sem vit hafa á málinu. — Hv. þm. S-Þ. segir vaxandi óánægju ríkja í landinu vegna útbreiðslu mænuveikinnar. En ég á erfiðara með að sjá, hvernig hægt er að kenna einstökum mönnum um þetta.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um málið. Till. er ein endileysa, og verði hún samþ., er eigi annað sýnna en þ. verði að taka heilbrigðismálastjórnina í sínar hendur.