24.11.1948
Sameinað þing: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (4686)

43. mál, landhelgisgæzla og stækkun landhelginnar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í umræður um þetta mál að því leyti, sem það heyrir undir hæstv. menntmrh. sérstaklega samkvæmt þeirri skipun, sem nú er á stjórnarstörfum. Það er rétt að hafa í huga, að hann fer með þessi mál, ekki sem menntmrh., heldur sem dómsmrh., en þessi mál eru eftir sem áður í dómsmálaráðuneytinu — og verður aldrei komið í veg fyrir það með þál. eða löggjöf, að svo skipist, þar sem ákveðið er í stjórnarskránni, að forseti skipti störfum milli ráðherra.

Um þessa þáltill. vil ég annars segja, að mér finnast ýmsir liðir hennar mjög eðlilegir. Eftir þeirri reynslu, sem ég hef fengið við dómsstörf, tel ég, að vel fari á því, að löggæzla á hafinu og tollgæzla yrði betur samræmd en verið hefur. Ég er að vísu ekki nógu kunnugur tollgæzlunni, og hún kemur landhelgisgæzlunni ekki við nema að litlu leyti, en mér sýnist, að nauðsynlegt sé, að fram fari athugun á því, hvort ekki verði betur séð fyrir skipan þessara mála með því að sameina tollgæzlu og löggæzlu á sjó og landi. Að öðru leyti vil ég ekki blanda mér inn í þetta. En út af því, sem hæstv. menntmrh. sagði að lægi í augum uppi, að eðlilegt væri að láta daglega stjórn landhelgisgæzlunnar vera í höndum Skipaútgerðar ríkisins, þá get ég fallizt á það varðandi útgerðarhlið málsins, en það á ekkert skylt við það, hvernig æðstu stjórn sjálfrar landhelgisgæzlunnar er fyrir komið. Alveg eins væri t. d. hugsanlegt, að allar ríkisstofnanir hefðu sameiginlegan bílakost. En engum mundi þar fyrir detta í hug að gera forstjóra Bílastöðvar ríkisins að lögreglustjóra. Og mér finnst óeðlilegt, að útgerðarmaður Skipaútgerðar ríkisins sé yfirlögreglustjóri í landhelgi Íslands. Með því felli ég engan dóm um menntun og hæfileika þess manns, er nú gegnir því embætti. En vegna ummæla hæstv. menntmrh. get ég ekki varizt því að benda á, að mér finnst hann hafa haldið fram augljósri firru, og firra hans er sú, að hann telur eðlilegt, að sú skipan verði áfram á þessum málum, sem verið hefur. Ég er ekki með þessu að gagnrýna gerðir míns starfsbróður, enda sá háttur gamall, sem á þessu er, og að mig minnir alla tíð síðan hv. þm. S-Þ. gegndi ráðherraembætti, svo að ef um ávítur er að ræða, þá lenda þær á honum. Hæstv. menntmrh. hefur aðeins sýnt sig sem dyggan lærisvein síns læriföður, og það met ég raunar mikils.

Annars var það nú einkum annað, sem ég ætlaði hér að tala um. Hér er vikið nokkuð að stækkun landhelginnar og því beint til ríkisstj. að halda með festu á þeim málum. Varðandi þetta vil ég benda á, að í lögum frá síðasta Alþingi er gert ráð fyrir því, að sjútvmrn. setji reglugerð um vernd fiskimiðanna, og heyrir það ekki undir utanrrn., þótt það dæmi um það, hvenær það sé tímabært.

Það kom fram í grg. á síðasta Alþ., sem var útbýtt meðal þm., en ekki gefin út opinberlega, að heppilegt mundi vera og jafnvel nauðsynlegt að fá upplýsingar um afstöðu annarra ríkja til hinna fyrirhuguðu ráðstafana, án þess að farið væri fram á samþykki þeirra, enda litið svo á af okkar hálfu, að slíkt samþykki væri ekki nauðsynlegt. Þar sem flest eða öll ríki, sem hagsmuna hafa að gæta í þessu máli, höfðu undirritað samning um möskvastærð frá 5. apríl 1946 og Bretar lagt fast að ríkisstj. að samþykkja hann, þótti eðlilegast að bera fram fyrirspurn til samningsaðilanna um það, hvort þeir teldu framkvæmdir í framhaldi af þessum lögum samrímanlegir aðild að möskvastærðarsamningnum. Voru orðsendingar þess efnis sendar til Belgíu, Danmerkur, Íslands, Frakklands, Hollands, Noregs, Póllands. Portúgals, Spánar, Svíþjóðar og Bretlands. Svör hafa enn ekki borizt nema frá sumum ríkjunum, en þegar þau eru fengin, verður hægt að taka endanlega afstöðu til efnis reglugerðarinnar.

Hinu verð ég að skýra frá, að svör nokkurra landa, sem borizt hafa, eru nokkuð óhagstæð og sýnt er, að það muni verða þungt fyrir fæti. Því er haldið fram, að við höfum ekki heimild til að setja slíka reglugerð einhliða og enn síður að stækka landhelgina beinlínis, svo sem að miða hana við 4 sjómílur. Þetta var vitað fyrir fram, og hefur ekki annað gerzt með þessum svörum en það, að sú skoðun hefur staðfestst. En við höfum litið svo á, að þótt ráðgert væri að leita eftir skoðun viðkomandi ríkja, þá væri það Íslendinga einna að ákveða skipun þessara mála.

Nú er það auðvitað vandi og verður ákveðið að fengnum svörum, á hvern veg þessu máli skuli fram haldið. Mikilsvert er að misstíga sig ekki, þótt of mikil varfærni á hinn bóginn megi ekki verða til þess, að ekkert verði aðhafzt. Ég er sammála hv. flm. um það, að það er íhugunarvert fyrir okkur, hvort ekki sé rétt að bera þetta mál fram á þingi Sameinuðu þjóðanna. Hér er sem sagt ekki eingöngu um lagaleg atriði að ræða — og e. t. v. er afstaða okkar veikari varðandi lagahlið málsins heldur en efnishliðina, því að nauðsyn okkar er óumdeilanleg; og ef við óttuðumst ekki lagahliðina, mundi þegar hafa verið skorið úr í þessu með endanlegum aðgerðum af okkar hálfu. Ég tel því nauðsynlegt, að samhliða því, að við höldum áfram að vinna að því að koma málinu fram innan lagarammans, þá sé einnig á alþjóðlegum vettvangi unnið að því, — og ég tel, að það sé heppilegt innan Sameinuðu þjóðanna, ekki sízt þar sem þær hafa skipað nefnd til endurskoðunar reglum í alþjóðarétti og nefnd til að setja reglur um skyldur þátttökuríkjanna, og væri þá eðlilegt, að þetta mál yrði tekið fyrir í öðru hvoru því sambandi, eða sem sérstakt mál, sem tekið væri upp af okkur á þingi SÞ. Þetta krefst mikils undirbúnings, og þarf málið að vera vel reifað af okkar hálfu, en ég er þó sannfærður um, að þetta er ein af þeim leiðum, sem líklegastar eru til skjóts árangurs, og er því mjög hlynntur því, að hún verði farin.

Jafnframt því sem framangreindar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að fá vitneskju um undirtektir annarra ríkja, þá hefur verið unnið að framgangi Faxaflóamálsins, enda þótti rétt, að það mál yrði leyst á þann hátt, sem gert hefur verið undanfarin ár, þ. e. í samræmi við tillögur alþjóðahafrannsóknarráðsins. Enda þótt búizt væri við, að niðurstaðan yrði sú, að íslenzka ríkisstj, þyrfti að kalla saman fund hér í Rvík, til þess að gengið væri frá samningi um friðun flóans, var þó talið rétt að fara þess á leit við hafrannsóknarráðið, að það kallaði saman fund í Khöfn, þannig að gengið væri frá samningum undir umsjón þess. Tilmæli þess efnis voru borin fram af fulltrúum Íslands á ársfundi ráðsins, sem haldinn var í Khöfn dagana 4.–11. okt. s. l., en ráðið taldi, að samningsgerðin væri fjárhagslegs og stjórnmálalegs eðlis og gæti það því ekki beitt sér fyrir henni. Virðist því ekki vera um annað að ræða en að kveðja til fundar hér, og telja íslenzku fulltrúarnir, sem fundinn sátu, að hæfilegur fyrirvari á fundarboði mundi vera þrír mánuðir. Telja þeir jafnframt heppilegt, að fundurinn yrði hér í Rvík í apríl n. k. Það hefur verið talað um að senda slíkt fundarboð út um áramót.

Að öðru leyti vil ég segja það, að nokkurrar aðgæzlu er þörf við upptöku Faxaflóamálsins, þannig að við viðurkenndum ekki á neinn hátt, að við gætum ekki, ef til kæmi, gert einhliða ráðstafanir. Vegna þess að við leituðum samþykkis annarra, kynni því e. t. v. að verða haldið fram, að við gætum ekki friðað Faxaflóa án samþykkis annarra ríkja. En að athuguðu máli höfum við þó komizt að þeirri niðurstöðu, að hér þyrftu ekki að verða árekstrar.