31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (4694)

43. mál, landhelgisgæzla og stækkun landhelginnar

Jónas Jónsson [Frh.]:

Herra forseti. Það er nú nokkuð langt um liðið síðan umr. fóru hér fram um þetta mál, en ég hafði þá ekki lokið grg. minni um það. Þess vegna vil ég minna fyrst á það, að 3 þm., þeir Jóhann Hafstein, Sigurður Bjarnason og Gunnar Thoroddsen, fluttu hér till. um stækkun landhelginnar. Í till. þeirra er lagt til, að landhelgisgæzlan verði sett undir dómsmálaráðherra. Og í öðru lagi strandgæzlan, tolleftirlitið og heilbrigðiseftirlitið. Og í þriðja lagi er lagt til, að nægur og fullkominn varðskipastóll verði tryggður við gæzluna. Í fjórða lagi, að strangari kröfur séu settar um starfsmenn við eftirlitið, og loks óska tillögumenn, að fylgt verði fyrri l. um verndarsvæði. Nú hafði ég áður vikið nokkrum orðum að þessum flm. og bent þeim á, hversu lítið erindi þeir ættu til afskipta af þessum málum sökum vanmats á staðreyndum að fenginni reynslu varðandi landhelgisgæzlu hér við land. Ég benti á, að það væri þeim ofraun að ætla sér þá dul að vanvirða þá menn, sem fást við landhelgisgæzluna. Nú ætla ég að ræða þetta mál nokkru frekar, þótt fátt þm. sé í þessari hv. þd., og ég ætla að gleðja till.- menn með því, að þau fáu orð, sem ég segi hér um málið í kvöld, mun ég láta prenta og birta til að kynna fólkinu í landinu meðferð landhelgis-. gæzlunnar á undanförnum árum. Er slíkt eðlileg ráðstöfun, sökum þess, hve málið er mikilvægt.

Ég hafði áður bent flm. á, að þeim væri ókunnugt um það, að á árunum 1926–30 var búið að koma landhelgisgæzlunni í það horf, sem þeir nú kjósa. Þá voru við gæzlu 2 gufuskip og. 1 mótorskip, Ægir frá 1929. En þetta fyrirkomulag reyndist ekki vera nógu sterkt, þannig að þeir Magnús heitinn Guðmundsson og Hermann Jónasson, sem voru yfirmenn þessara mála, Magnús 1932–34, Hermann 1934–42, þeir höfðu ekki nægilegt fjármagn til þess að halda þessum dýru skipum úti og neyddust oft til þess að láta skipin liggja, þannig að stundum var ekki nema eitt skipanna úti á miðunum við gæzlu. Var svo komið, að mjög óvænlega horfði, og leiddi þetta ástand síðar til vandræða, þegar þessu hafði fram undið um nokkur missiri. Kom svo, að mál þetta var tekið til sérstakrar yfir vegunar og rannsóknar. Var skipuð nefnd í málið, og voru nefndarmenn þessir: Pálmi Loftsson forstjóri Skipaútgerðarinnar, Þorsteinn Þorsteinsson í Þórshamri og Kristján Bergsson frá Fiskifélaginu. Þessir þrír menn lögðu mikla vinnu í að leita hinnar réttu lausnar. Niðurstaða rannsókna þeirra var sú, að hið fyrra „plan“ væri óframkvæmanlegt. Töldu þeir, að með þessum hætti væri landhelgisgæzlan svo ótrygg, en málið hins vegar svo þýðingarmikið, að taka yrði upp nýja stefnu. Þetta leiddi til þess, að annað varðskipið, Óðinn, var selt til Svíþjóðar með samþykki Alþingis. Í stað gamla Óðins kom svo vélbáturinn Óðinn. Var sú ráðsmennska upphaf þeirrar nýju stefnu að fá ódýrari og hentugri skip til gæzlu en áður hafði verið. Annað atriði er það, að á þessum árum var það staðfest með dómi, að hér á landi starfaði fjölmenn njósnarklíka, sem sendi innlendum og erlendum fiskiskipum dulmálsskeyti og tilkynnti, hvar varðskipin héldu sig á hverjum tíma. Annar þeirra manna, sem færðu sönnur á þetta og uppgötvuðu dulmálslykilinn, var Pálmi Loftsson. Þessir ungu menn höfðu haft glögga réttlætiskennd og eiga miklar þakkir skilið fyrir að koma upp um glæp, sem var hættulegur afkomu þjóðarinnar. Báðir þessir menn hafa orðið forstöðumenn fyrir landhelgisgæzlunni og hafa óskert helgað sig því ábyrgðarmikla og vandasama starfi. Og nú er meiningin að taka gæzluna úr höndum Pálma, þessa þrautreynda manns, og setja hana undir lögfræðing.

Eftir að búið var að koma í veg fyrir það, að skipin gætu sent dulmálsskeyti sín á milli, þá komu enn ný vandamál til sögunnar.Nýjar veiðiaðferðir voru teknar upp við strendur landsins, og botnvarpan og dragnótin fóru að verða hættuleg veiðarfæri. Nú munu um 150 bátar nota þessa veiðiaðferð. Bátarnir hafa allir talstöðvar og geta því talað hver við annan, eftir því sem þeim sýnist við horfa. Þessi nýtízku tæki í skipunum gerðu það að verkum, að hæglega varð því við komið, að bátarnir tilkynntu sín á milli, hvar varðskipið væri á hverjum tíma, og gátu tilkynnt stefnu þess. Reynslan sýndi brátt, eins og á dögum Magnúsar Guðmundssonar, að stóru varðskipin voru bæði of dýr til þess að halda þeim úti við gæzlu, og þó var annað sízt betra; skipin voru of stór og áberandi. Ef togbátur verður var við varðskipið, þá getur hann sagt frá ferð þess á dulmáli í talstöð sinni, og allur flotinn veit samstundis, hvað er á seyði. Nú hafa þessir 3 flm. farið lítilsvirðingarorð um um gæzluna og talið hana vera lítilfjörlega og til minnkunar fyrir ríkisvaldið. En þessir 3 hv. þm. minnast ekki orði á það, sem reynslan hefur kennt, að það er ekki hægt að halda úti svo stórum og dýrum skipum, sem eru auk þess svo auðþekkjanleg. Að vísu er það fjarskylt að verja mál, sem þeim er ókunnugt hvað snertir veigamestu og þýðingarmestu atriði málsins og leiðir til þess, að vísu óafvitandi, að hjálpa skipum, sem vilja gerast lögbrjótar og toga innan landhelgislínunnar. Nú hefði mátt ætla, að þessir menn hefðu eitthvert hugboð um, hvernig varðskipinu Ægi hefur farnazt við gæzluna samanborið við varðbátinn Óðin. Á sama tíma og Óðinn tekur 29 skip í landhelgi, tekur Ægir 8. Slíkt er ekki að rekja til ódugnaðar Ægis-manna, heldur til þeirra raka, sem ég hef bent á. Hins vegar kemur svo kostnaðarhliðin. Láta mun nærri, að það mætti reka 3 varðbáta af svipaðri stærð og Óðin fyrir þá fjárfúlgu, sem útgerð Ægis kostar. Það er því ekki svo lítið, sem í hefur verið ráðizt, að nú er í smíðum nýtt strandgæzluskip, sem kosta mun 5 millj. kr. Það hlýtur því að skjóta skökku við að fara nú út á þá braut, sem hefur sannazt af fyrri reynslu að sé alófær. Ég býst við, að þessir 3 þm. hafi kynnt sér skýrslu þá, sem gerð var í nýbyggingarráði um hagnýtingu fiskimiðanna við landið. Skýrsla þessi var gerð vegna aukningar togara- og bátaflotans, og niðurstöðutölur þessarar skýrslu eru þær, að ef allur flotinn togi gegndarlaust með vörpu og dragnót, þá sé hætta á því, að fiskimiðin verði nær eyðilögð eftir 5 ár. Þetta álit er rétt nýframkomið, áður en fluttar eru hér till. um að leyfa trollbátunum að athafna sig í landhelginni. Þeim á engin hætta að vera búin, að von sé úr landi þess valds, sem ávallt væri von lögbrjótum þeim, sem seilast mundu til að eyðileggja fiskimið landsins fyrir stundargróða.

Eitt af því, sem flm. segja, er, að það megi nota flugvélar til gæzlunnar. Nú hefur forstjóri Skipaútgerðarinnar haldið sig við smábátaplanið, og auk þess hefur hann herjað fast að fjárveitingarvaldinu til þess að fá því framgengt, að landhelgisgæzlan fengi hentuga flugvél keypta til gæzlunnar. En flm. hafa ekki vitað þetta, að það hefur aðeins staðið á peningunum, en ekki víðsýni og dugnaði Pálma Loftssonar. Það þarf því ekki að sækja neitt nýtt í því efni til þessara hv. þm. Nokkur skip hafa verið tekin úr flugvél, mál höfðað gegn eigendum þeirra, dómur upp kveðinn og þau sektuð. En svo skeður það undraverða. Mál skipanna stöðvast á hærri stöðum. Menn koma til Reykjavíkur og ganga fyrir dómsmrh. með harmakvein sín og biðjast vægðar. Er svo komið fyrir útgerðinni, að dómsmrn. hefur ekki séð sér fært að innheimta landhelgissektirnar, og mun landhelgissjóður nú eiga útistandandi um 1 millj. kr. í vangoldnum sektum. Ástæðan er sú, að sektirnar hafa verið of þungar, of háar. Það hefði því legið nær að flytja frv. um að breyta sektunum og lækka þær en að koma með þetta.

Er líða fór á síðustu styrjöld, fór Pálmi Loftsson að hreyfa því við yfirmenn sína, að fleiri báta þyrfti við gæzluna sökum hinna mörgu nýju troll- og togbáta. Var ágengni skipa orðin mjög mikil í landhelginni. Vestfirðingar kvörtuðu sáran og sögðu, að ef trollbátur væri í landhelgi eina nótt að veiðum, þá væri fiskurinn farinn. Fólk þar vestra hefur sterkar tilfinningar fyrir þessu og vill hafa trygga gæzlu. Nú hafði Pálmi fyrirmæli um það frá Alþingi að hafa einn bát til gæzlu við Vestfirði, en sá bátur, sem gat verið aflögu til þessa, var í lamasessi. Verið var að breyta Sæbjörgu, og átti hún að sinna gæzlu og vörzlu við Faxaflóa, er landhelgisgæzlan tók hana á leigu. Vestfirðingar brugðu nú skjótt við og lögðu fram 300 þús. kr. til smíða á varðbát, sem starfa skyldi undan Vestfjörðum. Ekkert sýnir betur stórhug og einurð þessa fátæka fólks en þessi ráðsmennska. Nú taldi Pálmi Loftsson æskilegt, að bætt yrði við 3 bátum, auk Vestfjarðabátsins, þannig að 5 bátar yrðu ávallt við gæzlu, en 6. báturinn yrði til vara til björgunarstarfa, eða ef eitthvert hinna varðskipanna yrði óvirkt um stundarsakir. Þá var dómsmrh. núverandi þm. Ísaf., sem nú situr hér í forsetastóli. Á þeim rökum, sem Pálmi hafði borið fram, samþykkti hann, að keyptir skyldu 3 bátar. Það tókst, og voru keyptir 3 hraðbátar, sem gátu gengið helmingi hraðar en venjuleg skip, höfðu vandaða vél og allan frágang. Ég get eins sagt frá því, að sams konar varðbáta nota Englendingar, Danir og Norðmenn. En hvergi munu þeir þó nauðsynlegri en hjá okkur vegna togbátaflotans, sem mjög oft freistast til að toga í landhelgi og miklu frekar, en stærri skip.

Á milli heimsstríðanna voru oft teknir hér þýzkir togarar í landhelgi. Þeir sögðust freistast til þess að toga í landhelgi vegna þess, að þeir væru svo litlir og ættu þar af leiðandi erfitt með að sækja út, en úr því að það er svo mikil freisting fyrir litla togara, þá er augljóst, að enn meiri freistingar það fyrir litla togbáta. Það má líka benda á, að eitt sinn voru 10 bátar og í annað skipti 6 bátar teknir í landhelgi af flugvél, og má af því ráða, hvernig vinnubrögðin eru. Það vita allir, að þessir hröðu bátar kostuðu lítið, og mun verð þeirra allra hafa verið ¼ minna en síðasta viðgerð á Sæbjörgu, og þó reiknað Sæbjörgu í vil.

Þegar forstjóri Skipaútgerðarinnar hafði valið gæzlubátana og komið var með þá heim, sagði duglegur og gáfaður formaður, sem ég þekki vel, að þegar þessir bátar væru við landhelgisgæzlu hér á flóanum, mundi enginn þora að veiða í landhelgi. Þeir voru líka fljótlega gerðir landrækir. Menn mynduðu samtök til að lýsa því, hversu illa þeir væru byggðir, og hrópuðu um, að þetta væru manndrápstæki, og svo langt gekk, að Skipaútgerðin ætlaði varla að fá leyfi til að prófa þá. En loks þegar leyfið fékkst, voru menn með litla kunnáttu í strandgæzlu látnir reyna skipin, og þeir dæmdu þau léleg. Það hafði nefnilega verið hafin rógsherferð gegn þessum bátum, og þessir kunnáttumenn, sem áttu að vera, en voru það auðvitað ekki, prófuðu skipin og héldu, að þeir gætu sett brezka aðmíralitetið í skammarkrókinn. Þessir menn þóttust geta dæmt varðbáta, sem Bretar hafa notað til gæzlu, ónothæfa. Afleiðingin af þessu varð svo sú, að bátunum var siglt til Englands aftur, og voru þeir ekki nema 36 st. á leiðinni, en Bretarnir, sem eru kurteisir, tóku við skipunum aftur og gáfu kost á að við fengjum önnur skip. Hins vegar geri ég ráð fyrir, að þeir hafi brosað á bak við að þeim dómi, sem íslenzku fagmennirnir kváðu upp yfir varðbátunum. Áður en ég hætti að tala um þessa hlið málsins, vil ég minna á smáatvik, sem sýnir hina raunhæfu reynslu á hvitu bátunum. Einu sinni skrapp einn bátanna til Öndverðaness og kom þar að einum duglegasta togaraskipstjóra landsins, þar sem hann var í rólegheitum að toga í landhelgi, og má telja víst, að hann hefði ekki verið þar, nema af því að eftir venju var hann fullkomlega öruggur fyrir landhelgisgæzlunni, en vitanlega batnaði ekki tilfinning útgerðarmannanna gagnvart hvítu bátunum við þetta.

Ég ætla nú að fara ofurlítinn krók til baka í þessu máli og byrja í því sambandi á ummælum þm. Barð., þar sem hann heldur því fram, að úthaldið á þessum varðbátum hafi verið dýrt, en það mun hafa verið um 700 þús. kr. Þetta er misskilningur hjá hv. þm., því að þessir bátar höfðu verið hér á flakki um það bil hálft ár og með sýnilega góðum árangri, og má af því sjá, að þessi litla tilraun hefur verið miklu frekar gróði fyrir landið. En hinu mun ég nú koma betur að, hvort mikill gróði hefur verið að störfum þeirra kunnáttumanna, sem ég þykist vita að þessi hv. þm. og flm. beri traust til. Ég gat um það áðan, að Sæbjörg annaðist gæzlu á flóanum, þegar hún væri í lagi, en það er nú því miður allt of sjaldan. En það er einmitt saga þessa skips, sem gefur dálítið sýnishorn af störfum þeirra miklu kunnáttumanna okkar, sem töldu sig hafa betri hæfileika til að dæma um varðbátana, en sérfræðingar elztu og æfðustu siglingaþjóðar veraldarinnar. Konur við Faxaflóa hófu fyrir alllöngu söfnun á fé í þeim tilgangi að fá björgunarskip við flóann. Konurnar færðu þarna miklar fórnir fyrir gott málefni og tókst því á tiltölulega skömmum tíma að afla álitlegs sjóðs. Þegar því var lokið, leituðu þær til kunnáttumannanna, og þeir brugðu við og gerðu teikningu af björgunarskipi, sem svo var byggt eftir erlendis. Þegar skipið svo kom til landsins, var efnt til mikils fagnaðar á Hótel Borg, og voru fluttar þar margar og heitar skálaræður, og meðal annars sagði þar einn vinur útvegsins, að þessi skúta ætti alltaf að vera sjálfstæð, en ekki hvíla á ríkissjóði. Þegar nú farið var að reyna þessa skútu, var ýmislegt að henni. Hún hafði verið byggð með 5 tonna blýkjöl, því að það átti að sigla henni, en hins vegar hafði vélin verið höfð fremur afllítil. Þá var stýrishúsið svo lágt, að þeir, sem stýra áttu, sáu illa fram fyrir sig. Þegar nú átti að fara að bjarga á skútunni, þá var of hvasst til þess að sigla henni og vélin of afllítil til að knýja hana áfram. Skipið var því strax dauðadæmt, nema því væri breytt. Og nú var hafin viðgerð. Fyrst var blýkjölurinn tekinn og ný aflmeiri vél sett í skipið og eitthvað fleira klastrað við það, en eftir þetta rak hver viðgerðin aðra, og mun sú síðasta hafa kostað um 1.200 þús. En nú áttu konurnar ekki nema 400 þús., og var því skútan komin á ríkið, bæði hvað viðgerðir og rekstur snerti.

En sagan er ekki búin enn, því að nú töldu þessir ágætu fagmenn, sem telja sig færari en sérfræðinga brezka aðmíralitetsins, að yfirbygging Sæbjargar væri of þung, og afréðu, að nú skyldi sett á skipið yfirbygging úr léttum málmi, og meðal annarra sérfræðinga, sem voru við þetta verk, var einn sendur út til þess að taka við skipinu eftir þessa aðgerð, og það gerði hann í góðri trú, en svo illa tókst til, að þessi nýja yfirbygging lak, og nú fengust engir menn á skipið, svo að enn varð að taka skipið úr umferð. Er áætlað, að aðgerðin kosti um 200 þús., og þar sem búið var að taka yfirbygginguna út eftir aðgerðina, er alveg óvíst, að nokkur endurgreiðsla fáist á þessum kostnaði.

Ég vil ekki aðeins láta þessa þrjá ungu flm. þessa frv. vita um þetta, heldur alla Íslendinga, svo að þeir geti borið saman þessa yfirlætisfullu sjóþekkingu mannanna, sem stóðu að byggingu og breytingum á Sæbjörgu, og fordæminguna á hraðbátunum, sem ég hef áður talað um. Það er líka rétt að gleðja fim. með því, að það tókst ekki öllu betur til með fyrsta gufuskipið, Óðin gamla. Jón heitinn Magnússon hefur án efa fengið kunnáttumenn til að sjá um byggingu þessa skips, en þannig tókst samt til, að skipað var næstum ósjófært, þegar það kom, og munaði mjóu, að því hvolfdi í mynni Siglufjarðar í einni af fyrstu ferðunum þar inn. Síðan mátti senda skipið til viðgerðar, og var það þá meðal annars lengt, en þetta var auðvitað nokkurt áfall fyrir hina yfirlætisfullu sérkunnáttumenn, sem höfðu umsjón með byggingu skipsins. Já, svona tókst nú til þá, og þó býst ég ekki við að oft verði í dómsmrh.-sæti öllu gleggri maður, en Jón heitinn Magnússon var, þó að hann væri andstæðingur minn. — Þetta vildi ég benda flm. á.

Það er eitt atvik í sambandi við Óðin gamla, sem er fróðlegt að bera saman við hvitu bátana. Það var nefnilega sett mikil fallbyssa á skipið, en það kostaði hvorki meira né minna en 60 þús. kr. að koma henni fyrir á skipinu.

Eftir að varðbátarnir komu til landsins, kom fljótt í ljós, að þeir þurftu að vera vopnaðir, og var því farið fram á við Dani, að þeir útveguðu byssur á skipin, en það gekk illa þangað til að þeim var sagt, að það væri auðvelt að fá þær annars staðar. Þá kom svar um hæl, að þeir hefðu mikla ánægju af að geta aðstoðað í þessu. Síðan voru þessar byssur settar á bátana og það kostaði 2–3 dagsverk íslenzkra vélvirkja. Mér hefur þótt rétt að láta þetta koma fram svo að þessir 3 ungu lögfræðingar, sem standa að þessu frv., viti það, og sömuleiðis vil ég láta þá vita, að enda þótt hvítu bátarnir hafi verið hraktir úr landi, þá mun dómur landsmanna síðar verða þeim hliðhollur, enda sýndi reynslan, að þeir áttu það skilið. Hitt var ofur skiljanlegt, að bátaeigendurnir, sem vanizt höfðu á að láta fiska í landhelgi, gerðu sitt til að gera þá útlæga.

Ég vil nú snúa mér að því síðasta, sem gerzt hefur í þessu máli, og byrja þá þar, sem frá var horfið, þegar ríkisstj. skilaði varðbátunum aftur. Stjórnin vildi ekki gefast upp við svo búið, en Pálmi Loftson vildi ekki fara aftur, og voru þá fengnir aðrir menn til fararinnar, en þeir fundu enga heppilega varðbáta fyrir okkur í öllum brezka flotanum, svo sennilegt sem það var nú. Það sat því við sama og áður en varðbátarnir komu; Ægir annaðist strandgæzluna ásamt hægfara íslenzkum bátum, eins og bátaeigendur og togaraeigendur höfðu óskað. En nú er hér komið fram frv. um að láta nú byggja stórskip til landhelgisgæzlu, þar sem áhöfnin séu aðallega borðalagðir yfirmenn og miklir veizlumenn. Við höfðum ekki ólíkt fyrirkomulag, þegar dönsku varðskipin voru hér við gæzlu, því að þar voru yfirmenn allir í skrautklæðum og þóttu veizlumenn góðir. En hafi flm. þessa frv. þetta fyrirkomulag til fyrirmyndar, þá vil ég benda þeim á, að þessi dönsku varðskip tóku ekkert skip í landhelgi síðustu 4 árin, og má af því ráða, hvernig gæzlan hefur verið, en hins vegar héldu þeir margar og dýrar veizlur. Sannleikurinn í þessum málum er sá, að vanþekkingin er svo mikil, að lélegustu varðskipunum er hrósað, en ef einhver skip koma, sem gagn er í, þá hefja útgerðarmenn herferð gegn þeim og þau eru gerð útlæg.

Það hefur líka komið fram í þessum umr., að hinum ungu áhugamönnum, sem að frv. standa, þættu bátarnir ekki nógu fínir. Þeir hafa gert gys að því, að ekki skuli vera eins mikil þægindi í þeim og stórum herskipum. Hins vegar virðast þeir ekki hafa gert sér ljóst, hvað slíkt kostar. Það er enginn vafi á því, ef taka á till. þessara ungu áhugamanna bókstaflega og hafa hér sex stórskip við landhelgisgæzlu, þá mun það ekki kosta minna, en 14 millj. kr. á ári. Ég gæti nú trúað, að flokksbróðir þeirra félaga, sem till. flytja, form. fjvn., mundi segja nokkur orð, áður en hann samþ. slíkt framlag á fjárlögum.

Það væri ef til vill rétt að taka í þessu sambandi smákrók varðandi fjárhag ríkisins, þó að form. fjvn. geti auðvitað gefið betri upplýsingar um hann heldur en ég. Dæmið, sem ég ætlaði að taka, er í sambandi við fjárhagsafkomu ríkisins undanfarin 3–4 ár. Hér situr í forsæti þessarar samkomu hv. þm. A-Húnv. Hann hefur, eins og margir þm., ýmis áhugamál. Nokkur undanfarin ár hefur hann sótt á að fá brúaða á eina í sínu kjördæmi, sem slítur Norðurlandsþjóðveginn. Þetta fljót er ekki nema 50 metra breitt. En fjárhagur ríkisins — þess ríkis, sem á að geta varið 14 millj. kr. til strandgæzlu, er ekki betri en það, að forseti Sþ., einn af helztu áhrifamönnum í stærsta flokknum, getur ekki fengið þessa 50 metra löngu brú, nema sé aurað saman í hana á 4–5 þingum, svona sem svarar 10 metrum á ári. Hins vegar sjáum við svo hinn dæmalausa stórhug þessara ungu áhugamanna um landhelgisgæzluna, og óska ég þeim til hamingju, þegar þeir fara að kosta sitt stóra skip. En til þess þarf að koma einhver eyðslusamari maður til að stýra fjvn., því að mig grunar, að erfitt sé að herja út úr núverandi formanni 14 milljónir til þessa hlutar. En ég hef tekið þetta dæmi um brúna til að sýna hina dæmalausu fáfræði þeirra, sem standa að þessu máli, á öllum sviðum og hvar sem litið er á. Það er eins og mennirnir viti ekkert um ástand þess ríkissjóðs, sem þeir eiga að varðveita og ráða fyrir. Og sigur þessara gæzlumanna landhelginnar verður þá sá, að þeir hafa fengið það fram, að í stað margra varðbáta, sem gæzluna stunda, verður stórt skip smíðað fyrir 5 milljónir úti í Danmörk, og kostar síðan, eftir því sem mannahald er á slíkum skipum, 2 millj. og 200 þús. kr. í árlegum rekstri. Og það er alveg sama, hvað vel þessu skipi verður stjórnað; það vita um það allir bátar gegnum sínar ágætu talvélar. En þetta skip útrýmir í rekstrinum þremur bátum. Það er þannig kastað teningnum með byggingu hins nýja skips, að það verða tvö skip með 4 milljóna rekstrarkostnað ofan á þetta nýja skip. En svo kemur að því, að menn heimta báta allt í kringum landið. Sjómennirnir segja: Það er gott fyrir ykkur fínu mennina að hafa fín skip, menn í fallegum einkennisbúningum, en við viljum báta, sem gæta landhelginnar. Mér verður hugsað til sjómannsins á Eyjafirði, sem hafði einn á báti í sumar um 85 þús. kr. í sinn hlut. Og þó að ekki séu margir slíkir, þá hefur bátafiskurinn verið það mikill kringum landið, að fiskimönnunum er ekki sama, þó að togbátarnir sópi landhelgina. Þá munu sjómennirnir gera þessa fínu eyðslumenn í landhelgismálunum ábyrga, þegar ólánið hefur skeð, þegar stórskipin hvíla þungt á ríkissjóði og anna verr gæzlunni, en bátarnir.

Ég ætla þá að víkja fáeinum orðum að vissum hlutum í till. þeirra þremenninganna, sem ég hef ekki talað um áður. Fyrst er það, að stofnuð sé sérstök deild í dómsmrn. undir yfirstjórn dómsmrh. Nú er að vísu ekki þannig skipað fyrir, að dómsmrh. hafi yfirstj. gæzlunnar. En oftast hefur dómsmrh. haft þetta með höndum, og núverandi dómsmrh. tók það fram, að hann teldi ekkert til fyrirstöðu að haga þessu eins og það er. En að öðru leyti er öll æðsta yfirstjórn réttarfarslega í dómsmrn., eins og sést á málinu um bátasektirnar.

Þá segja flm. í 2. lið, að þeir vilji, að landhelgisgæzlan hafi líka á hendi tollgæzlu og heilbrigðisgæzlu. Það verður mjög fróðlegt að sjá, hvernig því verður fyrir komið, þegar þessu stóra nýja skipi verður stýrt inn á Akranes eða Sand eða Ólafsvík til þess að hjálpa til að opna pakkapóstinn frá útlöndum og líta í hann! Það sem minnzt er á eftirlit með útbúnaði og athöfnum erlendra skipa, þá hefur það alltaf verið framkvæmt, en stundum ekki fengið nægan stuðning í dómsmrn.

Viðvíkjandi 3. lið, um fullkominn nýtízku varðskipastól, mætti e. t. v. veita flm. ofurlitla viðbótarfræðslu um fjárhag ríkisins í dag. Þrátt fyrir bezta vilja ríkisstj. hefur ekki verið hægt að standa við fyrstu afborgun þessa skips erlendis fyrir peningaleysi landsins. Mér finnst, að fátæktin hafi alveg nægilega snemma komið til skjalanna til að sýna þessum áhugamönnum, hvar við stöndum nú.

Þá kemur merkilegasti kaflinn í þessari till., með leyfi hæstv. forseta: „Að strangar kröfur séu gerðar um mannaval, menntun og hæfileika þeirra skipstjórnarmanna, áhafna og annarra aðila, sem starfa að löggæzlunni í landhelgi og á öðrum löggæzlusvæðum um landið, enda sé vandað til aðstöðu þeirra og aðbúnaðar í samræmi við þau þýðingarmiklu störf, er þeir gegna.“ Auðséð er, að úr því að þetta er tekið fram, þykir því nú áfátt. En ætli það vaki ekki fyrir, að þessi störf fái einhverjir drengir, sem hafa orðið lautinantar annaðhvort í Danmörku eða öðru góðu landi, sem séu einkennisbúnir og hafi verið með einkennisbúnum mönnum, þó að þeir hafi aldrei verið á sjó, það gerir miklu minna. Þá eru fínu íbúðirnar. Það hefur verið gert allt, sem hægt er, til þess að skapa óánægju hjá þeim mönnum, sem eru á skipunum. Það hefur jafnvel í blaðagreinum verið reynt að sýna fram á, hvað illa færi um þá í þessum litlu bátum, en þeir búa við svipuð kjör og sjómenn á okkar eigin fiskibátum. Maður getur nokkurn veginn sagt sér sjálfur, eftir þessari röksemdafærslu, að það sé meiningin með þessu að fá yfir skipin sérstaka deild í dómsmrn., að yfir henni sé lögfræðingur eða lautinant. Lögfræðingar geta verið ágætir til sinna hluta, en þeir kunna kannske lítið til sjómennsku. Og reynsla er fyrir því, að menn geta komizt gegnum lautinantaskóla og komizt í einkennisbúning, en verið lítt færir um að fást við sjóinn kringum Ísland. En þetta heyrir saman: Yfirlætið, grunnfærnin og þekkingarleysið hjá þeim þremenningunum og þeim öðrum, sem eru með þessu máli. Það er stefnt að því að fá sjómannakunnáttuna burt.

Þá kemur 5. liður um að samræma landhelgisgæzluna björgunarstarfsemi og bátaeftirliti við strendur landsins, hafrannsóknum og sjómælingum. Ég minnist ummæla hv. þm. Borgf. í ræðu á móti till., sem Sveinn í Firði bar fram árið 1923. Hann benti á það sem áhugasamur sjómaður, að ef varðskip er að björgunarstarfi, mundu allir vita um það og gætu farið í landhelgi. Þess vegna þarf að hafa eitthvað af varðbátum til að skjóta á flot, þegar varðskip væru önnum kafin við annað og geta ekki framkvæmt gæzluna. Þessi liður þremenninganna er þess vegna hrein fjarstæða. Það er ekki hægt að láta þessi fáu skip, sem landið kann að eignast, vera nógu víða til að gæta bátanna. Og ef þau eiga að gera enn þá meira, leiðir af sjálfu sér, að þau geta iðulega lítið sinnt gæzlunni.

Þá er talað um að skora á ríkisstj. að fylgja fast fram löggjöf síðasta Alþ., sem heimilar stj. að ákveða verndarsvæði hvar sem er við strendur landsins innan takmarka landgrunnsins. Samt er réttilega tekið fram í grg., að það verði að fara varlega í sakirnar, því að það verði að virða gerða samninga. Þessi löggjöf, sem vitnað er til, er nákvæmlega í samræmi við þann hluta till., sem snýr að einkennisbúningunum og lautinöntunum. Ég hygg, að ekki hafi verið gerð öllu þýðingarminni l. og broslegri en þessi löggjöf í fyrra. Íslendingar eiga sjálfir að segja til um, hvað landgrunn og landhelgi nær langt út, eiga eins og þau stóru veldi að slá vernd sinni yfir. Samt taka þessir menn það fram til öryggis, að þetta verði þó að vera samkv. alþjóðalögum. Nú vita allir, að þessu er þannig háttað, að þjóð eins og Englendingar viðurkenna hjá sér 3 mílna takmörkin og heimta það alls staðar annars staðar. Það eru tvö lönd, sem eru svo stór og sterk, að þau fara sinna ferða í þessu efni, og hafa Rússar nú sett 12 mílna landhelgi í Eystrasalti, til lítillar ánægju fyrir Dani og Svía. En hvað geta þeir sagt? Það dettur engum sænskum eða dönskum fiskiduggum í hug að fara inn fyrir landhelgislínuna. Og mér skilst Bandaríkjamenn hafi slegið á stórri landhelgi. En Englendingar, sem mestan flota hafa, þeir segja: Við bindum okkur við 3 mílna landhelgi og viðurkennum hana hjá öðrum. Norðmenn hafa viljað stækka sína landhelgi lítið eitt, en hafa ekki fengið aðra til að viðurkenna það. Og það, sem er helzta ráð þeirra Norðmanna, er mér sagt af sjófróðum mönnum, er að setja eins konar steinsteypt ígulker á botninn við takmörkin á 4 mílna svæðinu, svo að menn þori þess vegna ekki að veiða þar. Með þessu hefur þeim tekizt að fæla eitthvað frá sér ágang. En Englendingar hafa verið svo varasamir í þessu, að þegar þeir töldu nauðsynlegt að friða, eftir því sem þeir gátu, firði í Skotlandi, friðuðu þeir fyrir sjálfum sér. En af því að Englendingar eru stórveldi, hafa þeir getað haldið útlendum skipum frá með öðrum ráðum. Ef t. d. okkar togarar færu að veiða þar, mundu Englendingar ekkert segja. En þegar togararnir kæmu til Englands, yrði kannske kominn hár tollur á íslenzkan fisk úr Morayfirði. Við erum ófærir til að hræða aðra frá landhelginni og ófærir til þess að koma málinu fyrir á sama hátt og Englendingar. Og við getum verið alveg vissir um það, að það hefur mikið vatn runnið úr mörgum ám í haf út áður en við höfum fengið landhelgi okkar stækkaða, — og sérstaklega ekki á þann viðvaningslega hátt, sem fyrir mönnum vakir. En það er samt rétt að segja frá því, hvað Pálma Loftssyni hefur tekizt án lögfræðinga og lautinanta. Pálmi hefur beitt sér fyrir því, — og Slysavarnafélagið hefur auðvitað gert sitt til, — að okkar skip séu vel á verði að hjálpa útlendum skipum, og hér er margt af enskum togurum. Þannig hafa Englendingar játað, að landhelgisgæzla okkar er ekki aðeins til að elta skipin, heldur líka til að bjarga. Það var heppilegt fátækra manna ráð, sem var framkvæmt með Ægi og við Sveinn í Firði lögðum til árið 1923. Það hafa tekizt mikil kynni milli Íslendinga í landhelgisgæzlunni og Breta. Og þeir hafa treyst okkar gæzlu eins og okkar hæstarétti. Og það hefur svo hafzt upp úr þessari kynningu, að Pálma Loftssyni tókst að fá allan enska togaraflotann til þess að fara ekki — í vetur sem leið að minnsta kosti — inn á mjög stórt svæði vestanvert við Vestmannaeyjar. Hann lét búa til kort af þessu svæði, sem Englendingar tóku við. Jafnvel fóru þau til Hollendinga. Þetta er eins og stendur sá rétti máti til að fá verndað landhelgina. Þetta er byggt á þekkingu. En hins vegar verður öllum mönnum brosað að löggjöfinni um landgrunnið.

Af því að nokkuð er áliðið kvöldsins, vil ég aðeins að síðustu ræða eitt atriði enn þá við þessa þrjá flm. Það er það, sem mætti kannske kalla höfðingsskapinn í gæzlunni. Þeir bera mikið fyrir brjósti, að nóg sé af lögfræðingum og lautinöntum, og þykir skipin ekki nógu stór, o. s. frv. Þeir vilja láta bera meira á okkur, finnst við vera of kotungslegir. Ég hef áður ýtarlega skýrt frá, hvers vegna við höfðum Óðin og Sæbjörgu og fleiri skip, og þarf þess ekki frekar. En um þessa flm. stendur svo á, að einn er borgarstjóri í Reykjavík, annar er einn af áhrifamönnum í bæjarstjórn Reykjavíkur og þriðji maðurinn er, að ég hygg, æðsti maðurinn í bæjarstj. Ísafjarðar og mikill vinur hinna tveggja. Nú skyldi maður halda, að borgarstjóranum og hans ágætu samherjum, sem hafa áhyggjur af því, að Íslendingar skuli láta það viðgangast að hafa 80 tonna báta til landhelgisgæzlunnar, — maður skyldi halda, að borgarstjóranum væri það ljóst, að það þarf víðar að sýna rausn, en á þessu sviði. Meðal annars er það, að eitt af því, sem hver höfuðborg telur að máli skipti, eru virðuleg húsakynni fyrir borgarstjórn, og það svo, að af beri. Við vitum flestir, sem hér erum, að nábúaþjóðir okkar hafa lagt í þetta mikla vinnu og tilkostnað. Það má segja, að sú mest áberandi höll í Kaupmannahöfn sé ráðhúsið, skrifstofur borgarstjórnar og borgarstjóra og veizlusalir, þar sem borgin tekur á móti gestum, sem hún vill sýna sóma. Hjá frændum vorum Svíum er svo mikilfengleg höll og stórmannleg, að frægt er um allan hnöttinn og þykir bera vott um hámenningu Svía. Svo er rausnin mikil í fundarsölum og veizlusölum. Eitthvað svipað í stórum dráttum vakir fyrir þremenningunum um það, sem þeir vilja láta gerast á varðskipunum. Höfuðborg Norðmanna er ekki eftirbátur. Þeir, sem koma til Osló, sjá eitt hús, sem ber mjög mikið af öllum öðrum að stærð og tign. Það er ráðhúsið. En hvernig stendur á því, að þessir tveir menntuðu menn í bæjarstjórn eru svo bundnir háttum fyrirrennara sinna, að algerlega fer fram hjá þeim, hver er skylda Reykjavíkur í þessu efni? Það er skemmst af að segja, að bæjarstjórn Reykjavíkur á ekkert hús, ekki heldur neinn stað til að bjóða gestum. Bæjarstj. leigir fyrir sínar skrifstofur og borgarstjóra í einu apóteki. Og hún hefur margar deildir út um allt í bænum. En fundarsal handa sér velur bæjarstjórnin uppi á sjötta lofti í húsi einu, og er þar enginn gluggi á vegg, en mjög álappalegir þakgluggar. Í þessum líka sal kemur hin virðulega bæjarstjórn höfuðstaðarins saman. Engin nefndaherbergi eru þar til. Þetta er aumasti fundastaður í öllum bænum að öllum aðbúnaði og útliti. Það er líkast því í raun og veru — án þess að maður vilji fornerma hina ágætu bæjarstjórn — að þennan stað mundi klókur þjófur helzt nota til þess að fela þýfi þar, sem sízt væri manna von. Ef borin eru saman þessi húsakynni, ráðhúsið í Stokkhólmi og fundarsalurinn í Eimskipafélagshúsinu, þá eru þar ýtrustu andstæðurnar. Annars vegar það fínasta, hins vegar það aumasta og lélegasta, það sem mest sjálfsfyrirlitning liggur í.

Það væri vonandi, að þessir ungu flm. sæju frumhlaup sitt viðvíkjandi þessu frv., sem heimta stór og fín skip í stað 80 tonna báta. Þeir ættu að athuga sinn fundastað og hugleiða, hvar þar er þeirra tign gagnvart sjálfum sér.

Ég vil þakka þeim tilheyrendum, sem hafa sýnt þá þolinmæði að vera við í kvöld. En jafnframt fullyrði ég, að þetta mál verðskuldar þeirra þolinmæði, því að hér er að ræða um eitthvert okkar stærsta mál. Meira en helmingur þjóðarinnar lifir á sjávarútvegi. Reykjavík með sinn öra vöxt verður að lifa á sjávarútvegi. Bæði stærri og minni staðir verða að lifa á sjávarútvegi. En það er víst, að ekki verða mörg ár þangað til álíka lítið verður af fiski hér eins og við Færeyjar, ef ekki verður að gert eða rétt stefnt í landhelgismálunum. Ef sú leið verður tekin að níða niður dugandi menn við gæzluna, fá stór skip, sem hin seku veiðiskip geta vitað vel um, svo að þau geta lifað og leikið sér, þá mun koma að því fyrr en varir, að Reykjavík hefur lítið til að lifa af. Þá hafa íslenzkir ráðamenn með ótrúlegri skammsýni og heimsku kippt fótum undan öðrum aðalatvinnuvegi landsins. Þetta er stefna þeirra, sem hafa staðið að því að flæma hraðbátana burt. Þetta er stefna þeirra, sem standa að þeirri till., sem ég nú hef mótmælt.