25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í D-deild Alþingistíðinda. (4818)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Hv. þm. G-K. vil ég aðeins segja það, að ég neita að hafa á hann ráðizt í þessum umræðum. Ég sagði aðeins frá staðreyndum að gefnu tilefni, og það getur ekki kallazt árás á hv. þm.

Hv. þm. S-Þ. ræddi hér mál, sem alls ekki liggur fyrir. Mér þótti engin ástæða til að svara honum um kvöldið. En ég get tekið það fram nú, að kaupin á Silfurtúni voru gerð að samráði allrar ríkisstj. Hún taldi heppilegt að eignast verkstæði til þess að láta smíða þar ýmsa hluti til opinberra bygginga, svo sem skólahúsa, embættismannabústaða o.s.frv. — hluti eins og t. d. glugga, hurðir, fimleikaáhöld og þess háttar, sem ríkið hefur orðið að verja milljónum króna fyrir. Það hafði verið svo undanfarið, að það þurfti að leita eftir að fá þetta gert í ýmsum áttum, og oft varð óhæfilegur dráttur á, að hlutirnir fengjust, en það olli aftur miklum aukakostnaði. Það stóðu því og standa vonir til, að fyrirtæki þetta verði hið arðsamlegasta. Það mun því í þessu efni hafa vakað svipað fyrir ríkisstj. og hv. þm. S-Þ., er hann barðist fyrir því, að Landssmiðjan kæmist á fót.

Mér var núið hér um nasir kaupunum á Norðtunguskógi. Það er rétt, að ég heimilaði skógræktarstjóra að kaupa þennan skóg, sem er einn hinn fegursti, og hann fékk í því skyni lán til nokkurra ára úr landgræðslusjóði. Og það er þá flest, sem orðið er sakarefni á hendur mér, ef hv. þm. Barð. telur þetta reginsök.

Þá sagði hv. þm., að hann skyldi þora að bera ferðareikninga sína saman við ferðareikninga sonar míns. Það var sem sagt auðheyrt, að rógkvörnin mundi vera gangandi og ég hefði átt að kasta þúsundum í son minn fyrir för, sem hann fór á vegum ríkisstj. Ég skal nú af þessu tilefni geta þess, að ég hef fengið hann — en hann er vélaverkfræðingur að menntun — til þess að starfa að undirbúningi sements- og áburðarverksmiðju, og hann ferðaðist til Ameríku og Evrópu til þess að bera fram skýringar okkar og óskir í þessu efni og ná sambandi við þá aðila í Marshalllöndunum, sem færir eru um að gera tilboð í svona verk, svo sem vélar og þess háttar. Ég þekki þennan mann og treysti honum og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum í sambandi við störf hans, né heldur aðrir, sem lesið hafa skýrslu hans. Ferðareikningar hans sýna, að hann fékk fargjöldin greidd og 150 kr. í dagpeninga til uppihalds sér, og laun hans voru þau sömu og hann hafði hér heima fyrir þau störf, sem hann varð að greiða öðrum fyrir að vinna, á meðan á ferðum hans stóð. Hann ferðaðist til Ameríku og þaðan til Svíþjóðar, Frakklands, Ítalíu, Sviss, Vestur-Þýzkalands og Englands og talaði við alla aðila á þessum stöðum og leitaði tilboða, og kostnaðurinn af þessari för var 16.900,00 kr. En mér hefur nú verið talið, að sögurnar segðu, að hann hefði verið 180 þús. kr. — og má nú segja, að tífalt sé logið eða vel það. En hér liggja reikningarnir svo til sýnis og taka af tvímæli um þetta.