25.04.1949
Sameinað þing: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í D-deild Alþingistíðinda. (4876)

121. mál, ríkishlutun um atvinnurekstur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. vil ég geta þess, að ummæli mín um ræðu hæstv. viðskmrh. sönnuðust bezt með ræðu hv. þm. Ísaf., sem ræddi um þessi mál af mikilli þekkingu og vítti það, sem víta þurfti, en hæstv. viðskmrh. leyfir sér enn þá að segja mig fara rangt með, eftir að ég hef lagt öll gögn á borðið. Hér gefst ekki tækifæri til þess að ræða sérstök atriði, en ég vil aðeins benda hæstv. ráðh. á fáein atriði í sambandi við dýrtíðarvandamálið. Hann sagðist ekki vilja fara þessa leið sökum þess, að hún leggi svo misþungar byrðar á herðar manna miðað við getu þeirra. En ég spyr: Hefur ekki hæstv. ráðh. reynt allar aðrar leiðir? Hann kom af stað eignakönnuninni, verstu lagafyrirmælum, sem nokkurn tíma hafa verið gefin út hér. Og hvað hlauzt af henni? Stórkostleg röskun á fjármálakerfi landsins. Þessu hafði verið spáð, en hæstv. ráðh. vildi ekki trúa því. Þetta er því stefna hæstv. ráðh., að taka fé frá þeim mönnum, sem eitthvað hefur tekizt að spara með hagsýni og dugnaði, svo að allt verði ein flatneskja. Og þetta hefur hæstv. ráðh. tekizt að nokkru leyti. Ég held satt að segja, að ábyrgur maður mundi hugsa sig um tvisvar, áður en hann héldi lengra á þessari braut. Sannleikurinn er sá, að hæstv. ráðh. er kominn í þrot, og því segist hann kannske fara þessa leið, þegar allar aðrar dyr séu lokaðar.