16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í D-deild Alþingistíðinda. (4907)

133. mál, viðgerðarstöð talstöðva o.fl.

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa þáltill. Hún er fyllilega rökstudd í hinni stuttu grg., sem henni fylgir. Það er sem sé staðreynd, að full þörf er á því, að landssíminn, sem er eigandi talstöðvanna, sem af sjómönnum eru taldar beztu öryggistækin, sem tekin hafa verið í notkun hér á landi, og hefur því einn rétt og skyldu til að halda þessum tækjum við, þyrfti sannarlega að sjá betur fyrir því, en hingað til hefur verið gert, að slík tæki geti alltaf verið í góðu lagi, og jafnframt leysa úr almenningsþörfinni með því að koma upp viðgerðarstöð í Vestfirðingafjórðungi, sem héldi þessum tækjum í rekstrarhæfu standi.

Þetta mál var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga. Ég ræddi þetta einnig þá við póst- og símamálastjórnina, en hún bar við skorti á efnivið til viðhalds slíkum tækjum og erfiðleikum vegna vöruskorts á því að setja upp slíkar viðgerðarstöðvar t. d. í öllum landsfjórðungum. Nú aftur á móti ber hún eingöngu við gjaldeyrisskorti, en ég efast um, að það væri gjaldeyrisfrekara að hafa viðgerðarstöð t. d. í hverjum landsfjórðungi, en hafa lager í Rvík og sjá um viðgerð á öllum þessum tækjum út frá þeirri einu stöð. — Ég treysti því, að Alþingi sjái þessa þörf og till. nái samþykki.