27.04.1949
Sameinað þing: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í D-deild Alþingistíðinda. (4948)

182. mál, afnám ríkisfyrirtækja o.fl.

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að segja nokkur orð í sambandi við þessa þáltill., sem ég er meðflm. að, enda þótt framsöguræða hv. 1. flm. hafi verið greinileg og skýr.

Fyrst vil ég minnast nokkrum orðum á það, sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) sagði. Hann furðaði sig á því, að við kæmum fram með þáltill. í svo mörgum liðum, og taldi óþinglegt að bera ekki fram frv. um hvern einstakan lið. Ég hélt nú, að hv. þm. hefði komizt að raun um, að vafasamt er að kasta frv. inn í þingið, og okkur þótti réttara að setja upp minnisblað um það, sem samþ. hefur verið á undanförnum árum og þyngt baggana á ríkissjóði. Mitt álit er, eins og hv. 1. flm. veik að, að þessir liðir geti orðið nokkuð sjálfstæðir, svo að séð verði, hvort þm. sjái ekki einhvern lið, er þeir eru sammála um að breyta eða draga úr. Ég vil svo, eins og ég sagði áður, fylgja málinu úr hlaði með nokkrum orðum og lýsa afstöðu minni til viðhorfsins.

till., sem hér liggur fyrir, má ekki skiljast á þann hátt, að við flm. álítum, að í henni felist allur mergurinn málsins, þegar um er að ræða að færa niður útgjöld ríkisins eða draga úr útþenslu rekstrar ríkisins. Þótt í till. sé stungið upp á, að ríkisstj. beiti sér fyrir ráðstöfunum í þessum tilgangi, sem taldar eru upp í 15 liðum, skyldi enginn halda, að við flm. teljum, að hér sé komið til botns. Miklu fremur ber að skoða það sem ábendingu um einstök tiltekin skref, sem við flm. teljum, að stíga eigi í þá átt að lagfæra hag þess opinbera, án þess að í henni felist annað og meira en það, að hér sé um upphaf á öðru frekara að ræða. Þáltill. er ábending um leiðir, sem við teljum óhjákvæmilegt, að farnar séu, en okkur er auðvitað ljóst, að þótt þáltill. yrði framkvæmd, yrði það ekki nema einn þáttur í því margþætta viðfangsefni að bæta efnahag ríkisins og koma rekstri þess í eðlilegra horf.

Sú leið, sem við leggjum áherzlu á að benda á í þáltill., er sú, að ríkið sleppi tökunum á ýmsum rekstri, sem við teljum, að rétt sé og hagkvæmt, að einstaklingar og félög sjái um, og að létt verði nokkrum kostnaðarliðum af rekstri þess opinbera, sem við teljum, að gætu án verulegs baga orðið felldir niður, eins og nú stendur á. Tilgangur þáltill. er því falinn í því tvennu að gera rekstur ríkisins heilbrigðari og útgjöldin minni á þeim takmörkuðu sviðum, sem þáltill. nær til. — Hv. fyrri flm. þáltill. hefur nú gert allýtarlega grein fyrir þeim einstöku liðum, sem till. fjallar um, og mun ég aðeins ræða stuttlega hinn almenna grundvöll þáltill.

Eins og ég sagði áðan, fjallar þáltill. um að draga saman rekstur þess opinbera, það sem hún nær til. Í þáltill. er lagt til, að 8 starfsgreinar, sem ríkið hefur nú með höndum á sviði iðnaðar og verzlunar, verði lagðar niður. Þegar litið er á þessar greinar, sem taldar eru í 1.–3. og 5.–9. lið þáltill., getur engum blandazt hugur um, að öll þau verkefni, sem þessum opinberu stofnunum er ætlað að hafa með höndum, yrðu auðveldlega og á hagkvæman hátt leyst af einstaklingum eða félögum, sem fengju þau í sínar hendur. Hér er fyrst um að ræða 4 iðnfyrirtæki, trésmiðju, málmsmiðju, tunnuverksmiðju og niðursuðuverksmiðju. Ekkert af þessum fyrirtækjum hefur gefið þá raun, að unnt sé að halda því fram, að ríkið hagnist á þeim. Ekki er því heldur til að dreifa, að einstaklingar eða félög mundu ekki fást til að taka að sér þau verk, sem þessi fyrirtæki vinna. Ríkið þarf því ekki að halda þessum rekstri uppi vegna þess. Þegar um er að ræða málmsmíði og trésmíði, sem það opinbera þarf nokkuð á að halda vegna annars rekstrar síns, mundu menn freistast til að halda, að hagkvæmt væri fyrir ríkið að eiga slíkar smiðjur sjálft, skipta við sjálft sig fremur en aðra. En sú hefur ekki orðið raunin á. Þau verk, sem það opinbera hefur látið vinna fyrir sig í þessum verksmiðjum, hafa allajafna orðið því dýrari en ef um hefði verið að ræða samningsbundin verk við einstaklinga eða félög. Ég ætla ekki að fjölyrða um það hér, af hverju þetta stafar, en læt mér nægja að benda á staðreyndina. Auk þessa er svo mjög mikið fé bundið í slíkum fyrirtækjum, sem allir munu sammála um, að full þörf sé fyrir annars staðar.

Sú hugsun, sem legið hefur því til grundvallar, að þessi ríkisfyrirtæki voru upprunalega stofnuð, mun hafa verið sú, sem ég drap á áðan, að hagkvæmt yrði, að ríkið ætti sjálft slík verkstæði vegna annars rekstrar. En þegar reynslan hefur sýnt, að svo hefur ekki reynzt, er auðvitað hið eina rétta, að ríkið afsali sér því að hafa slíkan rekstur með höndum. Nú eru hér í landinu og víðs vegar um landið starfrækt sambærileg fyrirtæki. Færi svo, að ríkið gæti selt smiðjur sínar með viðunandi skilmálum, getur það opinbera valið á milli margra fyrirtækja um þau viðskipti, sem það þarf að hafa á þessum sviðum. Auðvitað verður ekki sagt um það fyrr en reynt er, hvort því opinbera tækist að selja þessi fyrirtæki á viðunandi hátt, en ég tel þó miklu trúlegra, að slíkt tækist. Í því sambandi mætti benda á þá leið að selja slík fyrirtæki hlutafélögum, sem hið opinbera gæti átt hluti í, ef því sýndist, en að reksturinn yrði á ábyrgð einstakra manna að öðru leyti og undir stjórn þeirra á þann hátt, sem tíðkast í slíkum félögum. Ég vil benda á, að fyrir því eru fordæmi, að ríkið hafi lagt fram fé í einstök fyrirtæki, t. d. Eimskipafélag Íslands. Mundi með þessu geta unnizt það, að greitt yrði fyrir hagkvæmri sölu, og auk þess unnizt hagræði fyrir ríkið í framtíðarviðskiptum við þau fyrirtæki, ef þau væru vel rekin. Það er engan veginn dæmalaust, að hið opinbera sé þannig í félagsskap með einstaklingum á takmörkuðu sviði, og jafnvel þótt þess væru ekki dæmi, gæti verið rétt að fara þessa leið og þá ekki sízt, ef það gæti orðið til að greiða fyrir sölu ríkisfyrirtækja, sem hafa sýnt bágan hag á sama tíma sem sambærileg einkafyrirtæki hafa dafnað.

Þá eru verzlunarfyrirtæki ríkisins, sem hér er gert ráð fyrir að leggja niður. Fyrst vil ég taka fram, að engin af þeim vörutegundum, sem þær verzla með, skipta verulegu máli í þjóðarbúskapnum, nema ef telja mætti einstaka þætti grænmetisverzlunarinnar. Það er líka ljóst, að þær vörutegundir, sem þessar verzlanir hafa með höndum, eru engar þess eðlis, að neitt sérstakt gæti mælt með, að ríkið eitt selji þær, eins og til dæmis er um áfengi. Þær eru allar til þess fallnar að vera almennur verzlunarvarningur, sem fellur inn í hið venjulega kerfi innkaupa og dreifingar, enda munu þess ekki dæmi í nálægum löndum, að þessar vörutegundir séu seldar af ríkinu einu. Ekki er því heldur til að dreifa, að í því felist nokkurt hagræði fyrir borgarana, að einmitt þessar vörur séu seldar af ríkinu, er ekki öðrum, til dæmis að þær séu ódýrari með því móti. Eftir er þá aðeins sú ástæðan, að hagnaðarins vegna sé rétt, að ríkið hafi þessa verzlun með höndum, en ég get vísað til ræðu hv. fyrri flm. um það atriði.

Ef ríkisverzlanir þessar yrðu afnumdar, eru einstaklingar og félög til taks til þess að annast kaup og dreifingu þessara vörutegunda. Þessir aðilar hafa nú þegar allt, sem þarf til slíks, bæði starfslið og húsrúm, en sá vinnukraftur, húsrúm og fé, sem það opinbera bindur nú í sambandi við þennan verzlunarrekstur, mundi verða tiltækt til annars, sem væri nauðsynlegra. Sá verzlunarrekstur, sem lagt er til, að afnuminn verði með þáltill., er, eins og ég tók fram, allur því marki brenndur, að ríkið hefur engar frambærilegar ástæður til að halda honum áfram, hvort sem litið er á hagræði almennings eða hag ríkisins sjálfs. Því opinbera hefur orðið það á að teygja sig inn á ýmis svið verzlunar, þar sem það hefur engu hlutverki að gegna, og stundum jafnvel á þann hátt, sem orkað getur tvímælis, hvort er heimill. Vil ég í því sambandi benda á verzlun þá, sem Landssmiðjan hefur með höndum. Eins og kunnugt er, hefur orðið mikið tap á Landssmiðjunni á sama tíma sem sambærileg fyrirtæki í höndum einstaklinga og félaga hafa gefið góðan hag. Samkvæmt lögum nr. 102 frá 22. júní 1936, um landssmiðju, er svo ákveðið, að hlutverk hennar skuli vera að annast smíði og viðgerðir, einkum fyrir ríkisstofnanir. Hvergi er það heimilað í lögunum, að landssmiðjan hafi með höndum verzlun, en allt um það sýnist svo sem núverandi stjórnendur landssmiðjunnar búi sig til að ráðast inn á verzlunarsviðið. Mun eiga að ná þar þeim hagnaði, sem smiðjan getur ekki náð, ef hún heldur sér innan ramma sinna eigin laga. Frá því hefur verið skýrt nýlega í blöðum, að Landssmiðjan búi sig undir að hafa með höndum stórfelldan innflutning rafmagnstækja. Hefur Landssmiðjan náð umboðum einstaklinga, sem mér er kunnugt um, í sínar hendur í krafti sinnar miklu innflutningsgetu. Hér er um að ræða fyrirbrigði, sem þarf nánari athugunar við, en í þessu sambandi er þess að geta, að landssmiðjan nýtur lögmæltra fríðinda um greiðslur til opinberra þarfa, sem eru svo stórfelldar, að greiðslur hennar eru óverulegar hjá því, sem einstaklingar eða félög greiða. Þótt einhver hagnaður fengist af þessari og annarri þvílíkri verzlun, mundi hann ekki vera hreinn hagnaður, þegar litið er á gjaldafríðindin, og það er ekki sjáanlegt, að nokkuð mæli með því, að landssmiðjan ráðist inn á þessi svið, auk þess sem það getur orkað tvímælis, hvort nokkur lagaheimild er til þess. Það er auðvitað ekki nóg, þótt sagt sé, að hér eigi landssmiðjan að ná þeim hagnaði, sem hún getur ekki haft með því að gegna sínu lögmælta hlutverki. Ég vil í því sambandi benda á, að það er fyrst s. l. haust, að landssmiðjan sækir um verzlunarleyfi. Sýnilega er ætlunin að breyta til um þann rekstur, sem l. ákveða.

Ég get verið fáorður um þá liði till., sem miða að því að draga úr beinum útgjöldum ríkisins, og á ég þar sérstaklega við liðina 12–15. Það blandast engum hugur um, að draga þarf úr útgjöldum ríkissjóðs. Einstökum hv. þm. er oft réttilega brugðið um, að þeir séu fljótari til að samþykkja útgjöld, en að sjá fyrir sparnaði eða tekjum, sem komið geti á móti. Þó er enginn vafi á, að ofþensla ríkisrekstrarins eða ríkisathafnanna á sinn mikla þátt í þeirri verðbólgu, sem við nú berjumst við. Eins og ég sagði í upphafi máls míns, skyldi enginn halda, að við flm. teljum, að þær lækkunar- og sparnaðartill., sem hér eru bornar fram, séu einustu ráðstafanirnar, sem unnt sé að gera. Hér er aðeins um dæmi að ræða. — Við leggjum til, að lögin um Búnaðarskóla í Skálholti verði afnumin. Það mun fæstum hv. þm. detta í hug í alvöru, að skóli þessi verði reistur eins og nú standa sakir, en við viljum fá því slegið föstu með samþykkt þáltill., að þessi staðreynd sé viðurkennd. Í þessu sambandi bendi ég á það, sem vitað er, að þeir búnaðarskólar, sem fyrir eru, eru ekki einu sinni fullsetnir, en þeir eru langdýrastir allra skóla, eða kostnaður ríkisins þar af hverjum einstökum nemanda um 8.000 kr. Skólakerfi landsins, sem nú er lögmælt, var samið og sett í mikilli bjartsýni um það, hvað þjóðin væri aflögufær af vinnukrafti og fé. Skólaskyldan er nú orðin allt til 16 ára aldurs, eða tveimur árum lengri en áður. Hefur þetta auðvitað í för með sér mikla eyðslu á fé og vinnukrafti. Það má einnig segja, að lögin um almannatryggingar væru sett af mikilli bjartsýni, sem því miður hefur ekki staðizt reynsluna. Þegar við leggjum til, að lækkuð verði framlög til almannatrygginga, höfum við það fyrst og fremst í huga, að unnt er að gera breyt. á l. og minnka kostnaðinn án þess að þeir, sem mest þurfa á þeirri hjálp að halda, sem lögin veita, bíði hnekki við það. Til dæmis vil ég benda á, að eins og lögin eru nú greiðir ríkissjóður styrki samkvæmt þeim til ágætlega efnaðra manna.

Við flm. erum þeirrar skoðunar, að hið opinbera þurfi nú að gera tvennt: Athuga sinn eigin rekstur með tilliti til mögulegs samdráttar og sparnaðar og athuga möguleika á lækkun útgjalda, þótt þau eigi að heita að vera í almannaþágu, ef svo sýnist, sem nauðsynin sé ekki svo brýn, að án þessara útgjalda verði ekki komizt, eins og nú stendur á. Þörfin fyrir þetta tvennt er knýjandi, og það viðurkenna allir, ýmist hátt eða í hljóði, þó að enn hafi ekkert verulegt átak verið gert til að hefjast handa. Við flm. vildum hér benda á nokkrar leiðir, sem miða að þessu tvíþætta marki, sem ég minntist á, og umr. um hina einstöku liði þáltill. geta vafalaust orðið til þess að gefa bæði hv. þm. og öllum almenningi nýjar upplýsingar og ný umhugsunarefni.

Hef ég svo að þessu sinni lokið máli mínu.